Hvað er staðreyndavaktin?
Úkraína og innrás Rússa í Úkraínu hafa verið fyrirferðarmikil í alþjóðlegri þjóðfélagsumræðu í um eitt og hálft ár. Á þessum tíma hafa fjölmiðlar og vefsíður fyllst af aragrúa fullyrðinga um Úkraínu, stríðið og orsakir þess og ýmislegt fleira sem tengist úkraínsku þjóðinni. Í staðreyndavakt Úkraínuverkefnisins verður farið yfir ýmsar staðhæfingar sem birst hafa um Úkraínu í þjóðfélagsumræðu undanfarinna ára. Reynt verður að hnekkja rangfærslum, leiða sannleika í ljós og setja hinar ýmsu staðhæfingar í rétt samhengi.
Ef lesendur sjá fullyrðingar um Úkraínu eða stríðið og vilja álit um sannleiksgildi þeirra verður hægt að beina fyrirspurnum til Úkraínuverkefnisins á netfangið: helgabrekkan@hi.is Umsjónarmaður staðreyndavaktarinnar er Þorgrímur Kári Snævarr.
14.000 morð í Donbas frá 2014 til 2022?
Rússar og bandamenn þeirra hafa haldið því fram ítrekað að á árunum 2014 til 2022 hafi úkraínski herinn myrt 14.000 óbreytta borgara í austurhéruðum Úkraínu. Stjórn Rússlands hefur gjarnan vísað til þessarar tölu til að réttlæta innrásina í Úkraínu. Er þá innrásinni (sem jafnan er nefnd „sérstök hernaðaraðgerð“) stillt upp sem nauðsynlegri mannúðaraðgerð í þeim tilgangi að stöðva ofbeldishrinu og þjóðarmorð gegn rússneskumælandi íbúum Donbas-héraðanna.
Vladímír Pútín Rússlandsforseti hefur haldið því fram að þögn Vesturlanda um „þjóðarmorð“ í Donbas sé til marks um hræsni þeirra. María Zakharova, talskona rússneska utanríkisráðuneytisins, hélt svipuðu fram í færslu á Facebook-síðu sinni þann 15. janúar 2022, stuttu áður en innrásin hófst: „Hvar voru öll þessi ríki og samfélög þeirra síðustu átta ár stríðs og hvernig hafa þau fordæmt morð á minnst 13 þúsund manns í gegnum árin?“
Hvaðan koma þessar tölur?
Ekki er umdeilt að mannfall í Donbas 2014 til 2022 hafi verið á bilinu 13 til 14.000 manns. Í orðræðu Rússa eru þær hins vegar settar fram á villandi hátt. Ekki er um að ræða tölu óbreyttra borgara sem úkraínskir hermenn hafi myrt heldur heildarfjölda fallinna hermanna og óbreyttra borgara frá upphafi átakanna.
Í skýrslu Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2020 var talið að alls hefðu um 13.000-13.200 manns látist í stríðinu í Donbas frá 14. apríl 2014 til 15. febrúar 2020. Í skýrslunni er áætlað að um 4.100 hinna látnu væru úkraínskir hermenn, 5.650 væru hermenn úr röðum aðskilnaðarsinna á mála hjá Rússum og 3.350 væru óbreyttir borgarar.
Í annarri skýrslu Mannréttindaskrifstofunnar frá janúar 2022 var heildarfjöldi látinna talinn á bilinu 14.200 til 14.400. Var þar talið að 3.404 hafi verið óbreyttir borgarar, 4.400 úkraínskir hermenn og 6.500 meðlimir úr herafla aðskilnaðarsinna.
Í hvorugri skýrslunni er skýra afstöðu til þess að finna hjá hvaða aðilar beri ábyrgð á manndrápunum. Hins vegar var miðað við að á árunum 2018 til 2021 hafi 81,4 prósent dauðsfalla óbreyttra borgara verið á yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna en 16, 3 prósent inni á yfirráðasvæði ríkisstjórnarinnar.
Mannfall fór minnkandi
Annað sem ber að hafa í huga er að áður en innrás Rússa hófst í febrúar 2022 dró mjög úr mannfalli á átakasvæðunum í Donbas. Yfirgnæfandi meirihluti dauðsfalla óbreyttra borgara í Donbas átti sér stað við upphaf átakanna árið 2014, þegar harðir bardagar geisuðu milli Úkraínustjórnar og aðskilnaðarsinna í Donetsk og Luhansk. Samkvæmt talningum Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna féllu 2.084 óbreyttir borgarar í Úkraínu það ár. Mannfallið snarminnkaði hins vegar næsta ár eftir að skrifað var undir vopnahlé með fyrsta Minsk-samkomulaginu (sjá stöplarit).
Árið 2021, árið fyrir upphaf innrásarinnar, létust 25 óbreyttir borgarar, flestir af völdum jarðsprengna sem lagðar höfðu verið fyrr í átökunum. Tölurnar og þróun mannfalls renna því engum stoðum undir fullyrðingar Rússa um að brýna nauðsyn hafi borið til að gera innrás í því skyni að binda enda á „þjóðarmorð“ árið 2022.
Þorgrímur Kári Snævarr sagnfræðingur og laganemi.
Heimildir og ítarefni
Ágrip úr skýrslum eftirlitsnefndar Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í Úkraínu.