Image
""

Hjörtu okkar krefjast breytinga.

Belarús hvorki hluti af Rússlandi né eins og Rússland

„Texti í lagi eftir rússnesku hljómsveitina Lumen hljómar svo: ,‚Ég elska landið mitt svo [mikið] en ég hata ríkið“ (rússn. Я так люблю свою страну, и ненавижу государство) og þannig er það fyrir mig. Ég elska landið og menningu þess [...] en stjórnvöld, sérstaklega eftir 2020, hafa steypt Belarús í glötun.“ Þetta segir Aksana, ung kona frá Belarús, aðspurð hver afstaða hennar sé til heimalands síns.

Belarús hefur á undanförnum árum verið í fréttum með reglulegu millibili vegna aðgerða stjórnvalda þar í landi. Miklar óeirðir og fjöldamótmæli í kjölfar forsetakosninga árið 2020 vöktu gríðarlega athygli, sem og lýðræðisbarátta innan landsins undir forystu Svetlönu Tikhanovskayu, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Belarús. Nýlega hefur umfjöllun um landið hins vegar snúist að miklu leyti um aðkomu Belarús að innrás Rússlands í Úkraínu og engin merki eru um að stjórnin í Belarús hætti stuðningi við sinn helsta bandamann í bráð. Staðan innanlands hefur ekki farið batnandi, heldur virðist sem að Alexander Lúkasjenka, forseti landsins, sé að herða tökin gagnvart andófsmönnum og stjórnarandstöðunni. En hver er saga þessa lands og íbúa þess? Hver er Alexander Lúkasjenka og hvert er hlutverk Belarús í stríðinu í Úkraínu? Til þess að greina betur stöðuna og átta sig á málum ræddi undirrituð við unga konu frá Belarús, Aksönu, sem kýs að koma ekki fram undir fullu nafni vegna mögulegra afleiðinga í heimalandinu.

 

Vill ekki freista gæfunnar hjá stjórnvöldum

Aksana er fædd og uppalin í Minsk, höfuðborg Belarús, og bjó þar fyrstu tuttugu og tvö ár ævi sinnar. Fjölskylda hennar er enn búsett þar en sjálf býr Aksana í Eistlandi, þar sem hún stundar nám við Tallinn-háskóla. Þegar hún var rúmlega tvítug fluttist hún til Moskvu þar sem hún gekk í hjónaband með rússneskum manni. Þegar hún bjó í Rússlandi var hún í fjarnámi við Málvísindaháskólann í Minsk. „Ég var svo pirruð út í námið og menntakerfið almennt að ég ákvað að leita að öðrum háskóla og valdi háskólann í Tallinn. Ég heimsótti Eistland þrisvar sinnum áður en ég flutti hingað og einfaldlega elskaði það.“ Aðspurð hvort hún heimsæki enn Belarús segir Aksana að í gegnum árin hafi hún farið með reglulegu millibili, um tvisvar til þrisvar á ári. Hins vegar hafi hún ekki farið til Belarús síðasta eitt og hálfa árið. „Það er mjög erfitt í framkvæmd,“ segir Aksana. „Einnig hef ég heyrt töluvert af sögum um hvernig tollverðir koma fram við fólk sem ætlar sér yfir landamærin. Ég er ekki viss hversu sannar þessar sögur eru en þar sem ég tek þátt í mismunandi viðburðum tengdum flóttamönnum frá Úkraínu, ásamt því að vera sjálfboðaliði í LGBTQ+ samtökum [...] vil ég einfaldlega ekki taka áhættuna [á að ferðast til Belarús]. Því þó ég sé ekki viss hversu sannar þessar fréttir eru þá veit ég fyrir víst að núverandi aðgerðir yfirvalda í Belarús eru algjörlega ófyrirsjáanlegar og ég vil ekki freista gæfunnar hjá þeim.“

Aksana fer mörgum fögrum orðum um heimaland sitt og nefnir í því samhengi mikið hreinlæti og fallega náttúru. „Ég á enn eftir að sjá og heimsækja land sem er jafn hreint og Belarús.“ Hún útskýrir að glæpatíðni sé afar lág í landinu og segist upplifa sig mjög örugga á götum borgarinnar. „Ég man ekki eftir að hafa fundist ég vera óörugg úti á götu sem ung kona eða stúlka, jafnvel á nóttunni.“ Helstu ókostir þess að búa í Belarús segir Aksana vera stjórnmálin, lítið umburðarlyndi og lítil sem engin vernd fyrir minnihlutahópa. „Ég tel að á þessum tímapunkti sé öruggara að ráfa um göturnar á nóttunni en að vera á lögreglustöð. Helsta ógnin við fólk eru yfirvöld. Þetta á þó aðeins við um þá sem eru á móti núverandi stjórn.“

Image
Landið er þekkt fyrir mikið skóglendi.

Aksana fer fögrum orðum um náttúru Belarús. Landið er þekkt fyrir mikið skóglendi.

 

 

Forsetakosningar og lýðræðishreyfing Belarús

Saga Belarús er nátengd sögu nágrannaríkja þess, Póllands, Litháen, Úkraínu og Rússlands. Í gegnum söguna hefur landsvæði Belarús tilheyrt hinum ýmsu stórveldum og lotið yfirráðum Litháen, Póllands og Rússlands. Landsvæði Belarús tilheyrðu Rússneska keisaradæminu og Sovétríkjunum í um tvær aldir og Belarús var eitt af fjórum Sovétlýðveldum sem komu að stofnun Sovétríkjanna árið 1922. Núverandi landamæri Belarús voru að miklu leyti mótuð árið 1939 og eftir seinni heimsstyrjöldina, þegar hluti af landsvæði Póllands, sem Belarús hafði misst eftir stríð Sovétríkjanna og Póllands (1919-1921), var aftur sameinað Sovétlýðveldinu. Landið lýsti yfir fullveldi árið 1990 og öðlaðist formlegt sjálfstæði frá Sovétríkjunum árið 1991. Staníslav Sjúshkevítsj gegndi stöðu þjóðhöfðingja landsins í kjölfarið og til ársins 1994, þegar haldnar voru fyrstu forsetakosningar í sögu Belarús. Alexander Lúkasjenka vann þær kosningar með yfirburðum. Í forsetabaráttunni hét Lúkasjenka því að vinna bug á spillingu en það var meðal annars vegna ásakana hans á hendur Sjúshkevítsj sem sá síðarnefndi sagði af sér embætti. Lúkasjenka hefur gegnt embætti forseta landsins allt frá 1994 og er því að nálgast sitt þrítugasta ár í embætti. Til samanburðar, tók Vladímír Pútín Rússlandsforseti, sem er tveimur árum eldri en Lúkasjenka, við embætti áramótin 1999-2000.

Image
""

Stytta af Vladímír Lenín fyrir framan þinghúsið í Minsk. 

 

Forsetakosningarnar í Belarús árið 1994 eru taldar hafa verið einu lögmætu kosningarnar sem farið hafa fram þar í landi. Vesturlönd, opinberar erlendar stofnanir og samtök hafa ítrekað gagnrýnt kosningar í Belarús, sem teljast hvorki frjálsar né réttlátar. Aksana segir að margir íbúar Belarús séu áhugalausir um stjórnmál enda upplifi margir að þeir geti ekkert gert til að hafa áhrif á stöðuna. „Eitt sem kom mér á óvart í Tallinn var þegar ungir námsmenn frá öðrum löndum gerðu sér ferð í sendiráð sinna landa til að kjósa í kosningum heima fyrir. Sumir jafnvel söfnuðust saman til að fylgjast með úrslitum kosninganna. Fyrir mér er það klikkun! Ég get ekki ímyndað mér að ungt fólk, námsmenn í Belarús, færu nokkurn tímann vísvitandi að kjósa í kosningum eða hefðu áhyggjur af því hver niðurstaðan yrði!“ Óánægja almennings vegna kosningasvindls kom þó upp á yfirborðið í kjölfar forsetakosninganna 2020 þegar Lúkasjenka lýsti yfir sigri gegn Svetlönu Tikhanovskayu, leiðtoga stjórnarandstöðunnar. Alþjóðlegir eftirlitsaðilar fengu ekki að fylgjast með framkvæmd kosninganna og telja margir að um kosningasvindl hafi verið að ræða og Tikhanovskaya hafi verið réttkjörinn forseti landsins. Fjöldi fólks tók þátt í friðsamlegum mótmælum víðsvegar um landið þar sem mörg þúsund manns voru handteknir og beittir harðræði af hálfu lögreglu.

Gríðarleg mótmæli urðu í kjölfar forsetakosninganna árið 2020 í Belarús.

 

Aksana segist ekki hafa persónulega tekið þátt í mótmælunum 2020 þar sem hún var ekki á landinu á þeim tíma. Hún segir þó að mótmælin hafi haft tilfinningaleg áhrif á sig. „Þegar maður sér svona mikinn fjölda fólks loksins standa á sinni skoðun, þá gefur það manni von.“ Ástandið reyndi samt sem áður á tengsl hennar við fjölskylduna. „Foreldrar mínir eru hliðhollir Lúkasjenka og í raun stíuðu mótmælin okkur í sundur.“ Eins og Aksana segir sjálf er það ekki óvenjuleg staða enda margar fjölskyldur sundraðar vegna stöðunnar í landinu. Stríðið í Úkraínu hefur einnig haft áhrif og orðið til þess að bilið hefur breikkað milli þessara andstæðu hópa, þ.e.a.s. þeirra sem styðja Lúkasjenka annars vegar og hins vegar þeirra sem gera það ekki. Aðspurð um stöðu stjórnarandstöðunnar segir Aksana að hún telji hana vera orðna mun sterkari en hún var áður. „Ég held að hún [stjórnarandstaðan] sé á vissan hátt orðin mun sterkari, ef við erum að tala um virka andstöðu, vegna þess að nú samanstendur hún ekki bara af fólki sem er á víð og dreif um landið (og hnöttinn) heldur er leiðtogi til staðar og strúktúr í kringum hann, þar á meðal sérfræðingar.“ Hún tekur einnig fram að stjórnarandstaðan sé nú þegar að gera marga jákvæða hluti í þágu íbúa Belarús. „Að því er ég best veit, þökk sé Svetlönu Tikhanovskayu og stöðu hennar, geta belarúskir ríkisborgarar aftur sótt um háskóla og dvalarleyfi í Eistlandi, sem var bannað rétt eftir að stríðið í Úkraínu hófst.“

 

Svetlana Tikhanovskaya, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Belarús.

 

Belarús er ekki Rússland

Rússland er án efa stærsta og mikilvægasta bandalagsþjóð Belarús bæði á pólitíska sviðinu sem og því efnahagslega. Belarús viðhélt sovésku stjórnkerfi að miklu leyti þrátt fyrir hrun sambandsríkisins og í upphafi forsetatíðar sinnar tók Lúkasjenka afgerandi ákvarðanir sem sýndu fram á viðleitni hans til að viðhalda nánu sambandi við Rússland. Árið 1995, tæpu ári eftir að hann tók við embætti, var haldin umdeild þjóðaratkvæðagreiðsla í landinu, meðal annars um stöðu rússneskrar tungu, nýjan opinberan fána og möguleikann á frekari efnahagslegum samruna við rússneska sambandsríkið. Í kjölfarið var rússneska gerð að opinberu tungumáli landsins, ásamt belarúsku. Tungumálin tvö eru skyld að því leyti að þau tilheyra sömu tungumálaætt og sömu ættkvísl innan hennar. Þau eru bæði slavnesk mál, nánar tiltekið austurslavnesk mál og bæði tungumálin notast við kýrillískt stafróf, líkt og úkraínska. Þó eru þau ekki eitt og sama tungumálið og í raun er belarúska líkari úkraínsku en rússnesku. Í sömu þjóðaratkvæðagreiðslu 1995 var núverandi fáni Belarús tekinn í notkun en hann er í grunninn sá sami og fáni Belarús frá seinni hluta Sovéttímans. Stjórnarandstaða Belarús hefur hins vegar gert annan fána að tákni sínu, fána með þrjár rendur (hvíta, rauða, hvíta), sem var upphaflega í notkun rétt eftir byltingu árið 1918 og seinna eftir fall Sovétríkjanna. Litirnir rauður og hvítur hafa því orðið að táknum stjórnarandstöðunnar.

 

Image
Núverandi fáni Belarús er rauðum og grænum línum þvert yfir fánann og þjóðlegt munstur á vinstri hlið. Fáninn sem stjórnarandstaðan vill nota er með þrjár jafnbreiðar þverrendur, tvær hvítar og rauða í miðjunni á milli þeirra hvítu.

Fáni til vinstri: Núverandi fáni Belarús, sem var tekinn í notkun eftir umdeilda þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1995.

Fáni til hægri: Fáni stjórnarandstöðunnar í Belarús. 

 

 

Aðspurð hvort tungumálið fólk noti yfirleitt, belarúsku eða rússnesku, segir Aksana að meirihluti fólks í Belarús tali rússnesku. „Það er mjög erfitt að finna skóla þar sem barn getur stundað nám sitt algjörlega á belarúsku og nánast ómögulegt að finna leikskóla eða háskóla með nám á belarúsku [...] Þú finnur mjög sjaldan kvikmynd á belarúsku í kvikmyndahúsum.“ Þannig hafa stjórnvöld í Belarús komið kerfisbundið í veg fyrir að belarúska tungumálið þróist og dafni. Samkvæmt Aksönu leiddu aftur á móti forsetakosningarnar 2020 til þess að fleiri og fleiri byrjuðu að tala belarúsku í stað rússnesku. Hún segir að fyrir marga sé það leið til að senda skilaboð og mótmæla ástandinu en á sama tíma telur hún óvíst hvort að slíkt muni hafa áhrif. „Margir flúðu landið [Belarús] og það er ekki vitað hvenær og hvort þeir geti snúið aftur. Ég er ekki viss um að tungumálið muni geta lifað af í erlendu ríki.“

Aðspurð hverjar séu algengar ranghugmyndir um Belarús kemur aðeins eitt upp í huga Aksönu. „Að Belarús sé annað hvort hluti af Rússlandi eða eins og Rússland.“ Landið sé ekki hluti af Rússlandi heldur fullvalda ríki, sem á sér sína sérstöku sögu, menningu og tungumál aðskilið frá Rússlandi. Algengt sé að fólk telji Belarús og Rússland vera eitt og hið sama vegna sameiginlegrar sögu landanna og skyldleika tungumálanna. Aksana vill halda því til haga að Belarús er ekki Rússland, þrátt fyrir náin samskipti milli þjóðhöfðingja beggja landa. Eins og kosningarnar og mótmælin árið 2020 gáfu til kynna þá er Lúkasjenka ekki fulltrúi alls almennings í Belarús.

 

Þátttaka Belarús í stríðinu í Úkraínu

Á seinni hluta tíunda áratugarins, skrifaði Lúkasjenka undir sáttmála við þáverandi forseta Rússlands, Borís Jeltsín, um stofnun pólitísks og efnahagslegs ríkjasambands milli landanna sem hafði í för með sér aukið og náið samstarf milli ríkjanna. Á seinni árum átti Belarús í samskiptum og samstarfi við Rússland eftir því sem hentaði stefnu og markmiðum stjórnvalda hverju sinni. Þáttaskil áttu sér hins vegar stað árið 2020 eftir forsetakosningarnar og mótmælin sem fylgdu í kjölfarið. Þá kallaði Lúkasjenka á hjálp frá Rússlandi og sögðust stjórnvöld í Kreml reiðubúin til að senda inn hermenn til að koma í veg fyrir frekari mótmæli. Evrópusambandið, Bretland og Bandaríkin tóku ákvörðun um að beita Belarús þvingunaraðgerðum í kjölfar forsetakosninganna, sem urðu ítarlegri og harðari eftir ítrekuð mannréttindabrot og óbeina þátttöku landsins í innrásinni í Úkraínu. Vegna atburða undanfarinna ára og ákvarðana stjórnvalda í Belarús hefur landið einangrast sífellt meira frá Vesturlöndum. Lúkasjenka hefur á sama tíma orðið háðari sambandi sínu við stjórnvöld í Rússlandi til að halda völdum og stöðugleika heima fyrir og hefur þar með tekið ótvíræða afstöðu með Rússlandi.

Belarús hefur leikið hlutverk í stríði Rússlands í Úkraínu allt frá upphafi, þrátt fyrir að vera ekki beinn þátttakandi í stríðinu sjálfu. Innrás Rússa í Úkraínu var víðtæk og kom úr mörgum áttum en rússneskar hersveitir réðust inn, meðal annars, í norðurhluta Úkraínu frá Belarús. Rússneski herinn hefur fengið stuðning við birgðaflutninga frá Belarús og særðum rússneskum hermönnum hefur verið veitt læknishjálp þar í landi. Rússar hafa einnig notfært sér herflugstöðvar í Belarús og gert eldflaugaárásir á Úkraínu frá landsvæði Belarús. Lúkasjenka gegndi sömuleiðis, að því er virðist, hlutverki í að stöðva uppreisn Prígozhín og Wagner-hópsins og hefur Pútín tilkynnt að Rússar hafi þegar hafið flutninga á kjarnorkuvopnum til Belarús. Óvissa um hlutverk Belarús í stríðinu hefur skapað stöðuga ógn á landamærum Lettlands, Litháens og Póllands.

 

Þjóðhöfðingjar Belarús og Rússlands eiga í nánum samskiptum. 

Aksana telur að það sé ekki almenn samstaða í Belarús um stríðið í Úkraínu. „Ég vil trúa því að meirihluti fólks sé á móti Lúkasjenka og stríðinu en [...] í raun er því miður töluvert af fólki sem styður Lúkasjenka [...] og ekki er hægt að líta fram hjá því hversu mikil almenn vanþekking á stjórnmálum er í landinu. Einmitt af þessum ástæðum er mörgum alveg sama. Þeir eru hræddir við stríðið og ástandið en þeirra skoðun er eitthvað á þá leið að það sé erfitt að skilja hver hafi rétt fyrir sér og hver rangt.“ Aksana segir að margir í stjórnarandstöðunni sem eru óvirkir og enn búsettir í Belarús horfi fram hjá fréttum um stjórnmál. „Þau láta sem þau sjái ekki hvað er að gerast, því þau sjá engan tilgang í því og finnst þau ekki geta haft áhrif á stöðuna hvort sem er [...] Sá hluti almennings sem hefur aldrei verið í beinni virkri andstöðu en er á móti Lúkasjenka, sá hópur, að mínu mati, missti alla von eftir að stríðið hófst í Úkraínu. Vegna þess að Úkraína var á vissan hátt dæmi um land sem skildi sovésku fortíð sína eftir þar sem hún á heima - í fortíðinni - og var mjög hægt en jafnt og þétt að fara í sína eigin átt. Þegar stríðið hófst hugsuðu margir: ‚hver er tilgangurinn með því að berjast fyrir Belarús og framtíð án Lúkasjenka ef Rússland vill ekki sleppa af okkur takinu?‘ Nú virðist sem svo að aðeins sé hægt að ná fram frelsi í Belarús með stríði og enginn vill stríð.“

Íbúar Belarús búa nú við mikla óvissu um framtíð sína og landsins. Núverandi staða skapar sömuleiðis ógn fyrir nágrannaríki Belarús, sem óttast árás meðal annars vegna viðveru Wagner-hópsins þar í landi. Til að auka varnir hafa stjórnvöld í Póllandi til að mynda fjölgað hermönnum við landamærin að Belarús. Óljóst er hvernig framhaldið verður en Tikhanovskaya fullyrti á viðburði sem haldinn var samhliða leiðtogafundi NATO í Vilníus, í júlí síðastliðnum, að ljóst sé að ekki sé hægt að tryggja öryggi í Evrópu án þess að koma á lýðræði í Belarús.

 

                                                                                                              Matthildur Lillý Valdimarsdóttir, BA í rússnesku.

 

Athugasemd greinahöfundar: Aksana kýs að koma ekki fram undir fullu nafni og vill ekki láta birta mynd af sér. Hún vill koma því á framfæri að allt sem haft er eftir henni hér eru hennar eigin skoðanir og dómar sem byggjast á hennar eigin upplifunum og því sem hún hefur heyrt frá fjölskyldu sinni og vinum. Að vitaskuld er hún ekki fulltrúi landsins í heild sinni enda eru þeir sem búa í Belarús, líkt og í öðrum löndum, mismunandi og hafa ólíkar skoðanir.

 

Heimildir og ítarefni