Dansinn er heilandi

,,Það er yndislegt að sjá fólk byrja að brosa á ný, eiga samskipti sín á milli og sjá þau koma út úr skel sinni. Það er góð tilfinning að finna að starfið skiptir fólki máli og gerir þeim gott,“segir Iryna Hordiienko, verkefnafulltrúi um málefni flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd hjá Rauða krossi Íslands. Iryna, auka annarra starfsmanna Rauða krossins standa fyrir fjölbreyttum námskeiðum og viðburðum fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd í Árskógum 4 og Vitatorgi, meðal annars íslensku og enskunámskeið, leiklist, jóga og dansi. Iryna kennir dans og segir  dansinn ekki aðeins hafa skemmtanagildi heldur hafi dansinn líka heilandi áhrif fyrir fólk sem er oft að koma úr erfiðum aðstæðum. ,,Dans er frábær leið til að losa um stress, fá innblástur og öðlast kraft til að gera frábæra hluti,“  segir Iryna.

Iryna vann á sjónvarpsstöð og bjó í Kiev þegar innrás Rússa hófst í Úkraínu. Hún var fyrst staðráðin að vera í Úkraínu áfram, enda hamingusöm í lífi og starfi sínu á sjónvarpsstöð í Kiev. Ástandið var hins vegar erfitt, enda missti hún vinnuna stuttu eftir innrásina og hún upplifði sig ekki örugga í íbúð sinni í Kiev. Hún ákvað því að yfirgefa Úkraínu og kom til Íslands í ágúst á síðasta ári, eftir stutta viðkoma í Berlín og Aþenu. Á þessu tæpa ári sínu á Íslandi, hefur hún aðstoðað landa sína með ýmsum hætti, bæði í gegnum starf sitt með Rauða krossinum og einnig sem túlkur fyrir samlanda sína. Iryna er gestur hlaðvarpsins að þessu sinni og í þættinum segir hún frá starfi sínu með Rauða krossinum, dvölinni á Íslandi og frá lífi sínu fyrir innrásina í Úkraínu. Hægt er að hlusta á viðtalið við Irynu hér. 

 

Úkraínuhlaðvarpið verður með vikulega þætti í sumar. Nýir þættir munu birtast á Spotify sem og vef og samfélagsmiðlum Úkraínuverkefnisins á hverjum föstudegi.