Image
Fánalitir Eistlands, Lettlands og Litháens.

Eystrasaltslöndin og stríðið í Úkraínu

Eystrasaltslöndin hafa verið áberandi í stuðningi sínum við Úkraínu í kjölfar innrásar Rússa fyrir rúmu ári síðan. Samskipti þessara landa við Rússland eiga sér langa sögu, sem litast af herskáum samskiptum af hálfu Rússa allt aftur í aldir. Þrátt fyrir að lönd Eystrasaltsríkjanna eigi hvert sína einstöku menningu, tungumál, sögu og hugarfar, þá eru þau tengd tilfinningaböndum, sameinuð sökum átakanlegrar sögu. Öll eiga þau landamæri að Rússlandi og hefur því ávallt stafað ákveðin ógn af landinu, sem aðeins hefur aukist í kjölfar þeirrar gríðarlegu stigmögnunar sem átti sér stað með innrás Rússa í Úkraínu. Eistland og Lettland eiga bæði landamæri við Rússland í austri en Litháen í suðvestri þar sem Kalíníngrad hérað liggur á milli landamæra Póllands og Litháen og er aðskilið frá meginlandi Rússlands. Að auki eiga Lettland og Litháen landamæri við Belarús, en Alexander Lúkasjenka, forseti þar í landi, er þekktur bandamaður Pútíns. Eystrasaltslöndin þrjú eru í NATO og eru öll sömuleiðis aðildarríki ESB síðan 2004. Þau voru hörð í baráttu sinni til að komast inn í þessi bandalög og telja öryggi sínu best borgið með aðild að þeim. Eystrasaltslöndin eru almennt vestrænni en önnur fyrrum Sovétlýðveldi og fólkið sem þar á rætur er óhrætt við að tala gegn Rússlandi.

Landamæri Eystrasaltsríkjanna og Rússlands.

Óttinn við endurkomu sögunnar

Eystrasaltslöndin þrjú urðu formlega hluti af Rússneska keisaradæminu á 18. og 19. öld og tilheyrðu því allt fram til endaloka þess. Í kjölfarið öðluðust þau sjálfstæði árið 1918, sem þau héldu allt til seinni heimsstyrjaldar. Árið 1940 voru Eystrasaltslöndin hernumin af Sovétríkjunum og innlimuð í sambandsríkið með ólöglegum hætti (þótt Rússar vilji meina að svo sé ekki) í kjölfar griðasáttmála sem undirritaður var af Sovétríkjunum og Þýskalandi í ágúst 1939 og fól í sér skiptingu á landsvæði Mið- og Austur-Evrópu upp í áhrifasvæði. Samkvæmt samningnum töldust Eystrasaltslöndin sovéskt áhrifasvæði. Aðeins ári eftir hernám Sovétmanna féllu Eystrasaltslöndin undir stjórn nasista. Árið 1944 lögðu Sovétríkin þessi lönd aftur undir sig eftir að hafa frelsað þau undan nasistum en þau tilheyrðu formlega Sovétríkjunum fram til ársins 1991. Fyrir vikið eru í Eystrasaltslöndunum í dag umtalsverðir hópar rússneskumælandi íbúa, einkum í Eistlandi og Lettlandi en rússneskumælandi eru mun færri í Litháen. Tilvera þessara hópa hefur valdið mikilli spennu innan landanna, þá sérstaklega í Eistlandi og Lettlandi.

Á tímum rússneska keisaradæmisins var markmið þess að „Rússavæða“ yfirráðasvæði sín, þar á meðal Eystrasaltslöndin. Þessi stefna var undanfari þeirrar „Rússavæðingu“ (e. Russification) sem átti sér síðan stað á Sovéttímanum og reyndist Eystrasaltsríkjunum jafnvel átakanlegri en undanfari hennar. „Rússavæðingu“ mætti í grófum dráttum skilgreina sem ferli sem braut niður mótstöðu gegn rússneskum yfirráðum og fól í sér upphafningu rússneskrar menningar á kostnað menningar yfirráðasvæða Rússlands, í þessu tilviki Eystrasaltsríkjanna. Þessi stefna hafði í för með sér hörmuleg áhrif fyrir íbúa landanna. Margir voru teknir af lífi, fangelsaðir eða sendir í fangabúðir. Brottflutningar frá Eystrasaltslöndunum til Síberíu áttu sér reglulega stað, þó hinir mestu hafi átt sér stað árið 1941 og 1949.

Svo virðist sem að óttinn við að verða sjálf aftur fórnarlömb árásargirni Rússlands drífi þessi lönd áfram í dyggum stuðningi við Úkraínu. Athafnir þeirra eru að miklu leyti byggðar á þeirri útbreiddu trú að örlög Úkraínu séu í beinum tengslum við örlög Eystrasaltsríkjanna. Þessi „ótti“ stafar af sameiginlegri sögu Eystrasaltsríkjanna og Rússlands og er ávallt til staðar þó hann sé vissulega mismikill og misáberandi.

 

Image
Brottflutt börn um borð í lest leið til Síberíu.

Brottflutt börn á leið til Síberíu.

Viðbrögð við stríðinu

Eystrasaltslöndin eru sameinuð í nálgun sinni og viðbrögðum við stríðinu. Fulltrúar Eystrasaltslandanna þriggja hafa lengi verið hvað háværastir í að vara Vesturlönd við þeirri ógn sem stafar af Rússlandi og hafa sýnt, allt frá upphafi innrásarinnar, sterkan vilja til að veita Úkraínu stuðning. Þau hafa verið í forystu meðal ríkja NATO í að veita hernaðar- og mannúðaraðstoð til Úkraínu, auk diplómatískrar aðstoðar, sem er ekki síður mikilvæg. Áhersla þessara landa í utanríkismálum allt frá upphafi innrásarinnar hefur verið að auka þurfi stuðning við Úkraínu. Stjórnirnar í öllum þremur Eystrasaltsríkjum hafa gert tilraunir til að takmarka aðgang íbúa að rússneskum áróðri um stríðið í formi víðtækra banna á rússneskum sjónvarpsstöðvum og prentmiðlum. Í kjölfar innlimunar Krímskaga árið 2014 stofnaði Eistland ríkisreknu sjónvarpsstöðina ETV+ sem gefur út efni á rússnesku. Rásin er ætluð rússneskumælandi minnihluta Eistlands og sendir frá sér bæði fréttir og skemmtiefni. Ríkisstjórn Eistlands heldur áfram stuðningi sínum við ETV+ og álíka stöðvar en í nóvember síðastliðnum veitti ríkið stöðinni aukalega eina milljón evra í fjármögnun til að berjast gegn rússneskum áróðri og veita rússneskumælandi íbúum Eistlands ákjósanlegt skemmtiefni og fréttaefni. Þrátt fyrir það er ágreiningur um áhrif þessara banna. Sams konar bönn hafa verið sett á rússneskar stöðvar í Lettlandi og Litháen, sem hafa jafnvel gengið lengra í sinni afstöðu.

Mynd sem höfundur þessarar greinar tók fyrir utan sendiráð Rússlands í Tallinn, Eistlandi síðasta sumar.

Kaja Kallas, núverandi forsætisráðherra Eistlands í ræðu sinni „The Battle of Our Time“, sem hún flutti þann 15. nóvember síðastliðinn þegar hún ávarpaði Paasikivi-hugveituna í Finnlandi, segir Vesturlönd hafa sýnt seinagang í að útvega Úkraínumönnum vopn og bregðast við yfirgangi Rússa. Hún segir að Eistland hafi byrjað að senda vopn til Úkraínu í desembermánuði 2021 og bendir á að hefðu önnur lönd sent vopn og skotfæri fyrr, jafnvel í janúar eða febrúar 2022 hefði verið hægt að bjarga mörgum mannslífum. Kallas segir ummerki um árásaráætlanir Rússa hafa verið til staðar löngu fyrir innrásina 2022 en að viðbrögð Vesturlanda hafi þá verið of veik. Hún vitnar annars vegar til átaka milli Georgíu og Rússlands árið 2008 og innlimunar Krímskaga 2014. Í sömu ræðu gefur Kallas gott yfirlit yfir stefnu Eistlands í tengslum við stríðið. Þar segir hún að frá upphafi innrásarinnar hafi ríkisstjórn Eistlands byggt viðbrögð sín á þremur stefnum. Fyrsta stefnan gangi fyrst og fremst út á að styðja Úkraínu af fremsta megni á hernaðarlegan, efnahagslegan og pólitískan hátt. Önnur stefnan gangi út á að láta Rússland gjalda fyrir ákvarðanir sínar, einangra landið og tryggja að stríðsglæpamenn komist ekki hjá refsingu. Að lokum gengur sú þriðja út á að styrkja eigin varnir.

 

Image
Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands.

Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands.

Samkvæmt grein frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem birt var í desember á síðasta ári hefur Eistland tekið á móti mestum fjölda flóttamanna frá Úkraínu af aðildarríkjum ESB, þegar horft er til hlutfalls flóttamanna af heildaríbúafjölda landsins. Í lok síðasta árs hafði Eistland tekið á móti um 62.239 úkraínskum flóttamönnum en íbúafjöldi Eistlands er rúmlega 1,3 milljónir (sjá rit I). Höfundur þessarar greinar, sem sjálfur flutti til Eistlands í ágústmánuði síðasta árs getur borið vitni um það að síðasta haust hafi mátt finna áhrif mikils fjölda flóttamanna í landinu. Á skrifstofu Þjóðskrár Eistlands í Tallinn var gríðarlegur fjöldi Úkraínumanna að skrá búsetu og biðraðir því afar langar. Sömuleiðis var verðbólga afar há sem og húsnæðisverð.

Image
Stöplaritið sýnir fjöldi flóttamanna frá Úkraínu sem hlutfall af heildaríbúafjölda:

Rit I: Fjöldi flóttamanna frá Úkraínu sem hlutfall af heildaríbúafjölda: https://www.imf.org/en/Blogs/Articles/2022/12/15/europe-could-do-even-more-to-support-ukrainian-refugees

 

Samkvæmt Kiel Institute for the World Economy (IfW Kiel) eru Lettland, Eistland og Litháen í fyrsta, öðru og þriðja sæti hvað varðar ríkisstuðning við Úkraínu sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF) frá 24. janúar 2022 til 24. febrúar 2023. Þar er Lettland með hlutfallið 1,2%, Eistland með 1,1% og Litháen 0,9% (sjá rit II).

Rit II: Ríkisstuðningur við Úkraínu sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF). https://www.ifw-kiel.de/topics/war-against-ukraine/ukraine-support-tracker

 

Hernaðaraðstoð og innleiðing refsiaðgerða gegn Rússlandi hafa þó kostað Eystrasaltslöndin sitt. Sem dæmi má nefna að verðbólgan rauk upp árið 2022 í löndunum þremur. Samkvæmt Eurostat var verðbólgan í Eistlandi 25,2% í ágústmánuði 2022, í samanburði við 5% árið áður. Sömu sögu má segja um Lettlandi og Litháen en verðbólga í Lettlandi var 20,8% í ágústmánuði 2022 en 3,6% í sama mánuði árið 2021. Þá var verðbólga í Litháen 21,1% í ágústmánuði 2022 en 5% ári fyrr (sjá töflu). Verðbólgan hefur þó lækkað talsvert í löndunum þremur á undanförnum mánuðum og er nú í kringum 10-12% í þeim öllum.

Tafla: Samanburður á verðbólgu milli landa: https://ec.europa.eu/eurostat/documents/2995521/14675409/2-31082022-AP-EN.pdf/e4217618-3fbe-4f54-2a3a-21c72be44c53

 

Það sem helst gæti ógnað samstöðu meðal Eystrasaltsríkjanna væru auknir fjárhagslegir, pólitískir eða félagslegir örðugleikar í löndunum. Til dæmis með tilkomu gríðarlegra og langvarandi fjárhagserfiðleika af völdum stríðsins og komu flóttafólks. Sömuleiðis gæti breytt pólitísk staða haft áhrif, til að mynda ef flokkar kæmust til valda sem væru minna reiðubúnir að fórna fjármunum til stuðnings við Úkraínu. Líkurnar á að slík viðhorf taki yfir eru litlar en mest hætta er á að neikvæðisraddir verði háværari eftir því sem stríðið dregst á langinn. Annað mögulegt áhyggjuefni er að rússneskumælandi íbúum þessara landa fari að finnast of mikið að sér sótt. Það er ákveðin jafnvægislist fólgin í því að virða tilvist og tungumál rússneskumælandi íbúa en á sama tíma koma í veg fyrir útbreiðslu á áróðri Rússa. Þó bendir allt til þess að Eystrasaltslöndin eigi eftir að standa þétt við bakið á systrum og bræðrum sínum í Úkraínu til framtíðar. Stjórnmálamenn og almenningur eru sameinaðir í einu - í ákvörðun sinni um að styðja Úkraínu hvað sem það kostar.

 

                                                                                                                  Matthildur Lillý Valdimarsdóttir, BA í rússnesku.

 

 

Heimildir og ítarefni