Fluttu í skyndi til Íslands til að hjálpa löndum sínum
Hjónin Olga Khodos, sálfræðingur og sálgreinir, og Konstantin Stroginov reka saman sálfræðiaðstoð fyrir úkraínskt flóttafólk; https://psyhelp.is. Þau eru gestir Úkraínuhlaðvarpsins að þessu sinni og hægt er að hlusta á þáttinn hér. Viðtalið við Olgu og Konstantin fór fram á ensku og hér á eftir er stutt endursögn af viðtalinu í íslenskri þýðingu.
Tilnefningin til Lýðheilsuverðlauna Forseta Íslands mikil viðurkenning
Olga var tilnefnd til Lýðheilsuverðlauna Forseta Íslands fyrr á þessu ári en tilnefninguna hlaut hún fyrir að veita úkraínsku flóttafólki sálrænan stuðning og þjónustu hér á landi. Olga og Konstantin hófu aðstoð við úkraínskt flóttafólk stuttu eftir að stríðið braust út í mars 2022. Olga segir að það hafi verið ánægjulegt að fá tilnefninguna en líka flókið. Tilnefningin var gleðileg en hún sé einnig til komin út af stríðinu, en með því á hún við að þjónustan sé veitt vegna þess að fólkið sem komi til hennar sé að flýja stríðið í Úkraínu. Konstantin sagði að tilnefningin hefði verið viðurkenning á sálfræðiaðstoð Olgu og hún hafi mikla þýðingu fyrir þau bæði. „Við erum ánægð með að fá viðurkenningu sem þessa frá íslenska samfélaginu. Fyrir tilnefninguna fengum við líka styrk frá Geðhjálp, sem var fyrsta stóra viðurkenningin okkar,“ segir Konstantin.
Olga og Konstantin hafa sterk tengsl til Íslands en þau bjuggu hér frá árinu 2010-2018, þegar þau ákváðu að flytja til suður-Frakklands. Þau bjuggu í Nice í suður -Frakklandi þegar innrás Rússa hófst í Úkraínu og vinir þeirra á Íslandi hvöttu þau til koma tilbaka, því von væri á miklum fjölda flóttamanna frá Úkraínu. Þau vildu gjarnan aðstoða landa sína og því komu þau aftur til Íslands í mars 2022. Fyrst um sinn var miðstöð fyrir flóttafólk í Fíladelfíukirkju, með leikaðstöðu fyrir börn, þar var boðið up á mat, sálræna aðstoð og aðstoð að ýmsum toga fyrir flóttafólk frá Úkraínu sem var að fóta sig að nýju í nýju og ókunnugu landi. ,,Þetta var því ekki aðeins sálrænn stuðningur heldur var ég líka að líta til með krökkunum, sumir sjálfboðaliðar elduðu. Ímyndaðu þér bara að sumar konurnar komu einar til Íslands með eitt barn, tvö og sumar þrjú og þær voru önnum kafnar við að finna út úr öllu, finna húsnæði og fleira, og þá vorum við kannski að hjálpa til og að líta til með börninum á meðan,“ segir Konstantin. Eftir að hafa verið í Fíladelfíukirkju fluttu þau sálfræðiaðstoðina til Áskirkju um tíma, en núna eru þau með aðstöðu í Neskirkju í vesturbæ Reykjavíkur. ,,Við erum komin með mjög góða aðstöðu í kjallara Neskirkju. Við fengum mjög gott rými niðri og þetta er eins og sálfræðistofa, þar sem Olga getur tekið á móti fólki,“ segir Konstantin.
Þegar veröldinni er snúið á hvolf
Olga hefur veitt um 250 einstaklingum sálfræðiaðstoð og áfallahjálp frá því í mars 2022, en að jafnaði koma um 5-6 einstaklingar í meðferð til hennar á dag. Sumir einstaklingar koma einu sinni eða nokkrum sinnum í viðtal en aðrir reglulega. Þau segja að stríðið hafi komið róti á líf marga sem til þeirra hafi leitað, fólk hafi flúið mikil átakasvæði í Úkraínu, tapað húsnæði sínu og eignum og jafnvel misst einhvern nákominn. En þetta eru ekki einu ástæðurnar fyrir því að fólki leyti til þeirra, heldur hafi stríðið líka leyst gömul áföll úr dvala hjá mörgum. Stríðið hafi því vakið eldri áföll hjá mörgum.
Konstantin segir ástandið sérlega erfitt fyrir marga unglinga. ,,Þau eru í miklu áfalli. Það er skiljanlegt að margar mæður sem leita til okkar, einmanna konur sem hafa flúið með börn sín án eiginmanna sinna, eigi við erfiðleika að stríða - en börn og unglingar, þau eru næstum því í öðrum heimi. Allt breyttist hjá þeim á einum degi. Þau spyrja mæður sínar; Af hverju erum við hér, af hverju þarf ég að yfirgefa vini mína, skólann minn?. Það er erfitt að svara þeim, því veröld þeirra hefur verið snúið á hvolf. Og svo til dæmis fyrir unglinga sem eru 15-16 ára gömul þá er svo margt að breytast hjá þeim á þessum aldri, þau eru að uppgötva sig sem kynverur og er heimur þeirra er bara að breytast svo mikið á þessum aldri, jafnvel þó það væri ekki fyrir stríðið. Þannig að þetta er mjög erfitt fyrir þau en við reynum að hjálpa þeim,“ segir Konstantin.
Aðspurð um það hvernig úkraínsku flóttafólki gangi að aðlagast á Íslandi, segja þau að það sé misjafnt. Sumum þyki óþægilegt að vera í friði og öryggi á Íslandi á meðan stríðið sé enn í gangi, en aðrir eigi kannski í erfiðleikum með að finna húsnæði á Íslandi eða aðlagast lífinu hér. Aðstæður fólks séu misjafnar. En fólkið búi yfir mikilli seiglu, sé hugrakt og sterkt. Úkraínska samfélagið sé samheldið og fólk hjálpist að. Konstantin hefur á orði að Úkraínumenn séu seigir, vegna þeirra aðstæðna sem voru í Úkraínu fyrir stríð - ekki vegna stríðsins. Seigla þeirra hafi byggst upp einfaldlega af því að landið sé ekki fullkomið, þar þekkist spilling og sömuleiðis ýmiss vandamál. Þess vegna sé fólk duglegt og kunni að bjarga sér.
Olga segir að þó starf hennar geti verið erfitt þá sé það gefandi að sjá fólk jafna sig og verða sterkara. Saga hvers og eins séu eins og sandkorn sem saman mynda hús. ,,Það má líkja þessu við sandkorn sem vindurinn hefur blásið burt frá gömlu húsi. Sandkornið berst áfram með vindi og blandast síðan saman við annan sand, sem síðar verður að nýrri byggingu. Þetta er áhugavert en jafnframt sársaukafullt. Engin manneskja á flótta var með þetta líf í huga, heldur voru öll með áætlun um annað líf,“ segir Olga.
Olga og Konstantin eru mjög ánægð með þær móttökur sem úkraínskt flóttafólk hefur fengið á Íslandi, og Íslendingar hafi gert meira en flestir bjuggust við, enda lítið samfélag. En margt Úkraínufólk hafi verið fljótt að aðlagast og þurfi því litla aðstoð við að koma undir sig fótunum á ný. Þau vilji vera sjálfstæð og leggja sitt af mörkum í íslensku samfélagi.
Mikil samheldni í samfélagi Úkraínufólks
Eins og fram kom fyrr í viðtalinu, þá bjuggu Olga og Konstantin á Íslandi frá árunum 2010-2018. Konstantin kom hingað til lands fyrst árið 2001, en pabbi hans var að vinna í Vestmannaeyjum þar sem þeir bjuggu. Síðan fór hann aftur til Úkraínu þar sem hann kynntist Olgu. Þau komu svo saman til Íslands í febrúar 2010, og dóttir þeirra fæddist hér á landi árið 2014. Samfélag Úkraínumanna á Íslandi var mun smærra þá en nú. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni, þá bjuggu aðeins 3 einstaklingar frá Úkraínu á Íslandi árið 1998, og 1. janúar 2022, áður en stríðið braust út, þá bjuggu hér 510 einstaklingar. Nú hefur samfélagið stækkað þó nokkuð, og 1. júlí 2023 bjuggu hér 3.247 einstklingar frá Úkraínu samkvæmt tölum Þjóðskrár. ,,Fyrst þegar ég kom hingað, þá var það ekki einfalt fyrir mig,“ segir Olga. „Þetta var í febrúar og Ísland er lítið land, en virkilega fallegt. Náttúra landsins var ein s og sálfræðimeðferð fyrir mig. Þennan febrúarmánuð var íslensk náttúra einskonar einkasálfræðingur fyrir mig, En í síðara skiptið (2022) þá var mjög gott að ég hafði allt í einu allt þetta fólk frá Úkraínu með mér hér. Ég upplifði mig ekki lengur eina hér. Fyrst þegar ég kom hingað var ég mjög einmanna, en ekki í seinna skiptið. Allt þetta fólk, jú vissulega er stríð, og við vorum öll mjög upptekin í Fíladelfíukirkjunni, en þrátt fyrir það var það gleðilegt.“ Og Konstantin tekur undir orð Olgu; ,,Já, við vorum á ferðinni frá fyrsta degi hér [eftir komuna til landsins 2022]. Það var mjög ólíkt því þegar við komum hingað saman fyrst. Þá var svo rólegt og það gerðist ekki mikið.“
Mikil þörf fyrir sáfræðiaðstoðina
Þau hafa áætlanir um að breyta og auka við sálfræðiaðstoðina því þörfin fyrir aðstoð sé enn til staðar. Þetta sé þó sjálfboðastarf að miklu leyti, en styrkir hafi hingað til gert þeim mögulegt að sinna starfinu. Þau séu mjög þakklát fyrir þá styrki sem þau hafi fengið s.s. frá Geðhjálp, Íslenskri erfðagreiningu og Thorvaldsenfélaginu, en þetta séu þó stakir styrkir og því ekki regluleg fjármögnun. Og ef ekki náist fjármögnun, þá þurfi að endurmeta stöðuna. En þau geti hins vegar ekki hætt starfsemi sinni - og það muni þau ekki gera.
Aðspurð um hvernig þau eyði frítíma sínum og endurhlaði batteríin eftir langa og stranga vinnudaga, segja þau hafi ekki haft mikinn frítíma undanfarið ár. Þau reyni að hvílast eftir vinnu. Konstantin segir að Olga vinni lengri vinnudaga, en hann sér um heimilið að miklu leyti og keyrir dóttur þeirra og sækir í skólann ef Olga er mikið að vinna. Þegar Olga er ekki að vinna, þá teiknar hún, fer í gönguferðir eða sækir sjálf tíma hjá sálgreini sínum.
,,Frá 22. mars 2022 höfum við bara verið í Reykjavík. Sumpartinn vegna heilsu minnar en ég get ekki farið frá Reykjavík í langan tíma í senn. En í lok júní síðastliðinn þá fórum við í tveggja daga ferð til Vínarborgar sem er uppáhalds borgin okkar,“ segir Konstantin sem er með nýrnasjúkdóm. Olga hefur ákveðið að gefa honum annað nýrað sitt og þau bíða eftir því að komast í aðgerðir. ,,Svo við erum föst hér en kannski mun lífið breytast eftir aðgerðina. Kannski komumst við í frí lengur en í tvo daga. En þetta er allt í lagi sem stendur, við erum mjög upptekin í vinnunni,“ segir Konstantin.
Úkraínuhlaðvarpið verður með vikulega þætti í sumar. Nýir þættir munu birtast á Spotify sem og vef og samfélagsmiðlum Úkraínuverkefnisins á hverjum föstudegi í sumar.