Friðsæld í stríðinu

Úsjhorod er einhver friðsælasta borg Úkraínu. Loftvarnarflauturnar hafa ekki glumið í 12 daga nú í byrjun júlí og það er ekki einu sinni útgöngubann á nóttunni. Vissulega er lítið hér um hernaðarskotmörk en það eitt og sér er ekki alltaf nóg til að koma í veg fyrir árásir Rússa. Öllu mikilvægari er staðsetningin. Úsjhorod er á mörkum fjögurra NATO ríkja, Póllands, Slóvakíu, Ungverjalands og Rúmeníu. Hættulegt gæti verið Rússa að reyna að hæfa borgina ef skotin geiga. Og það gera þau oft.

            Þegar komið er yfir landamærin frá Slóvakíu má þó ljóst vera að hér er land sem á í stríði. Landamæraverðirnir eru í felulitum og bera árásarriffla. Felunet hafa verið sett yfir helstu mannvirki og laugar fylltar vatni eru til taks ef kvikna skyldi í. Passaskoðunin tekur þó ekki lengri tíma en gengur og gerist, hættan kemur þrátt fyrir allt ekki úr þeirri átt. Fyrir framan okkur situr ungt par, hann frá Slóvakíu, hún frá Úkraínu og á leið að heimsækja ættmenni hennar í Odesa en allir þræðir liggja í gegnum Úsjhorod. Og þó er hún sú borg Evrópu sem hvað lengst liggur frá sjó. Allt frá dögum austurríska keisaradæmisins hafa sumir haldið því fram að landfræðileg miðja Evrópu liggi hér í grennd, í bænum Dilove, en þetta er vissulega umdeilt.

            Borgin Úsjhorod telur rétt yfir 100.000 íbúa og er í göngufjarlægð frá landamærunum. Enda hefur hún einhvern tímann tilheyrt flestum nágrannaríkjunum. Hún hét upprunalega Ungvár sem er ungverska fyrir ánna Ung annarsvegar og vár eða kastala hins vegar. Nafn árinnar er dregið af hinu slavneska Úsj og gæti þýtt snákur eða horn með vísun í lögun hennar. Áin heitir enn Úsj á úkraínsku en líkindi við nafn Ungverja, sem annars kalla sig Magyar á eigin máli, kann að vera tilviljun.

Borgin Úsjhorod (Uzhhorod) er í vestur Úkraínu, nærri landamærum Slóvakíu. 

 

Ungverjar tóku svæðið yfir á 12. öld en þegar stærstur hluti Ungverjalands féll fyrir Tyrkjum á 16. öld komst það undir stjórn hinna austurrísku Habsborgarakeisara. Þegar keisaradæmið varð svo að tvíveldinu Austurríki-Ungverjalandi árið 1867 lenti Úsjhorod í ungverska hluta þess, allt þar til það leystist upp í fyrri heimsstyrjöld.

            Eftir það stríð var héraðið, sem stundum er nefnt Rúþenía eða Transkarpatía, sameinað hinni nýstofnuðu Tékkóslóvakíu. Borgin fékk hið slavneska heiti sem það ber enn þann dag í dag en héraðið var kallað Podkarpadska Rus á tékknesku.. 80 prósent íbúanna á þessum tíma voru þó ungverskumælandi, sjö prósent töldust Slóvakar, sjö prósent Þjóðverjar og tæp tvö prósent Tékkar. Að auki voru um fjögur prósent Rúþenar, sem tala tungumál náskylt úkraínsku en rekja heiti sitt allt aftur til Rúsveldisins sem bæði Úkraínumenn og Rússar rekja upphaf sitt til og sjá má í nafni héraðsins.

Veggspjald Rúþeníu frá millistríðsárunum þegar svæðið tilheyrði Tékkóslóvakíu.

            Þegar Tékkóslóvakía var endanlega limuð í sundur af Þjóðverjum í mars 1939 eftir að hafa lagt undir sig Súdetahéruðin ári áður lýsti héraðið yfir sjálfstæði. Átti það að heita Karpatíska-Úkraína og hafa úkraínsku að móðurmáli en þetta entist aðeins í þrjá daga þar til Ungverjar gerðu innrás sem fulltingi Þjóðverja. Sovétríkin tóku héraðið yfir í seinni heimsstyrjöld og margir hinna ungverskumælandi íbúa voru í kjölfarið hraktir á brott. Héraðið sem nú nefndist Zakarpattia varð hluti af Sovétlýðveldinu Úkraínu og loks hinni sjálfstæðu Úkraínu eftir 1991. Eigi að síður býr nokkur ungverskur minnihluti enn hér um slóðir. Rithöfundurinn Andrei Kúrkov veltir vöngum yfir því hvort leynilegur sáttmáli hafi verið gerður á milli Pútíns Rússlandsforseta og Orbans Ungverjalandsforseta um að láta héraðið í friði. Formlegur samningur þarf þó varla að koma til, það myndi varla henta Pútín vel að drepa fólk af þjóðerni eina leiðtoga ESB sem hann á í vinveittum samskiptum við.

Ráðhús Zarkapattiahéraðs.

 

Harmsögur tveggja stríða

Irina er 61 árs gömul kennslukona og kann margar harmsögur af vinum og ættingjum bæði úr þessu stríði og því síðasta. Í seinni heimsstyrjöld áttu Þjóðverjar það til að þvinga fólk til nauðungarvinnu í Þýskalandi og rændu því jafnvel af götunum. Ung kona var falinn í svínastíu þar sem Þjóðverjar höfuð tekið yfir bóndabæ fjölskyldu hennar og mátti aðeins koma út í tvo tíma á næturnar til að viðra sig. Þetta bar þó tilætlaðan árangur og hún lifði stríðið af.

            En harmsögum hér um slóðir er hvergi nærri lokið og í fyrra hófst annað stríð. Irina segir frá tvítugum dreng sem missti móður sína á fyrstu vikum innrásarinnar. Svo margir létust þá að tekið var að grafa líkin beint í jörðu, en til þess mátti drengurinn ekki hugsa og smíðaði undir hana líkkistu sjálfur.

            Irina er gift nokkuð eldri Breta sem nú er kominn á eftirlaun og eiga þau einnig íbúð í Kosice hinum megin við landamærin í Slóvakíu. Þó dvelja þau helst hér og er annt um borgina. Irina sýnir okkur hvar vegur sem var lagður á tímum Tékkóslóvakíu mætir öðrum frá tíma Austurríkismanna og virðist sá tekkóslóvakíski vera öllu heillegri smíð, enda var það á tímum tékkneskra yfirráða sem borgin nútímavæddist. Eigi að síður er margt hér sem enn minnir á fyrri tíð, svo sem kastalinn sem löngum var í eigu ungverskra aðalsmanna og var fyrst byggður á 13. öld en hefur oft verið endurbættur síðan. Einnig eru hér Austurrísk-ungverskir veitingastaðir sem bjóða upp á það besta úr eldhúsi hins fallna keisaradæmis. Borgin tilheyrði á hinn bóginn aldrei rússneska keisaradæminu og má sjá þess merki í arkitektúrnum sem fremur minnir á keisara Habsborgara.

            Í dag eru Úkraínumenn, þar með taldir Rúþenar, um það bil 77 prósent íbúa borgarinnar, Rússar tæp tíu prósent, Ungverjar sjö prósent, Slóvakar rúm tvö prósent og Róma fólk um eitt og hálft. Samsetningin breyttist því nokkuð á 20. öld þar sem borgin tilheyrði fimm ríkjum, Austurríska keisaradæminu, Tékkóslóvakíu, Ungverjalandi, Sovétríkjunum og loks Úkraínu, og eru þá ekki talin með skammlíf lýðveldi í báðum heimsstyrjöldum.

Síðasta sumarið

Þeir íbúar sem vekja hvað mesta eftirtekt eru þó hundarnir. Þeir eru merktir til marks um að hafa verið bólusettir og leggjast við fætur matargesta á útiveitingastöðum. Þrátt fyrir að vera villtir eru þeir afar vel upp aldir og hafa oftast lítinn áhuga þótt þeim sé réttur biti. Annaðhvort eru þeir svona kresnir eða þá meðvitaðir um hvað sé hollt og þurfa að vera álíka varkárir og Prígósjín varðandi hvað þeir láta ofan í sig. Ef Odesa er kattarborg virðist Úsjhorod vera hundaborg. Við höldum til Odesa næst og Irina ráðleggur okkur að kaupa miða tilbaka. Ef kjarnorkuverið í Saporisija springur upp þar í grennd gæti verið erfitt að komast burt. Okkar miði er aðeins fyrir aðra leið enda eigum við varla meiri rétt en aðrir að komast á brott ef allt fer á versta veg.

            Það kann að vera enn önnur ástæða fyrir því að rússneskar sprengju lenda sjaldan í grennd við Úsjhorod. Hér liggur eina gasleiðslan sem enn er starfrækt í gegnum Úkraínu frá Rússlandi til ESB. Slys varð í rússneska hluta hennar í desember 2022 en áfram heldur hún að dæla og ósennilegt að Rússar vilji taka áhættu að sprengja hana upp sjálfir.

            En þótt stríðið sé langt undan er það ekki fjarverandi. Á næsta borði sitja alvörugefnir ungir menn, sumir í einkennisbúningum, aðrir ekki. Þeir drekka bjór en tala ekki í kappi hver við annan heldur einn í einu meðan hinir hlusta á. „Slava Ukraini,“ segir ég þegar ég geng hjá. „Heroim slava,“ (ísl. lifi hetjurnar) segja þeir þreytulega. Hve margir af þeim ætli verði enn lifandi þegar sumarið er liðið?

Kirkja í Úsjhorod. 

Minnisvarði um ljósamann. 

Minnisvarði um fallna úkraínska hermenn sem börðust með her Sovétmanna í Afganistan.

Ung hefðardama í Úsjhorod.