Image
""

Sundurskotin bygging í Kharkiv. 

Hart barist í hetjuborg - Kharkiv

„Pråtar ni svenska?“ spyr maðurinn í rútunni. Ég jánka því. Brátt kemur í ljós að þetta er það eina sem hann kann í sænsku. Þó tekst mér að komast að því að hann er læknir að mennt en starfar nú við byggingavinnu í Stokkhólmi. Hann er kominn heim í frí, og líklega kominn yfir sextugt sem merkir að hann má yfirgefa landið að vild. Eflaust skortir menn í byggingaframkvæmdir í Svíþjóð, en það vantar ekki síður lækna í landi sem á í stríði. Ekki er þetta því endilega besta nýtingin á menntun hans, þótt laun í Svíþjóð séu vafalítið hærri. Ekki er heldur óheyrt að læknar í Úkraínu keyri leigubíla, sem gefur víst meira í aðra hönd.

            „Það er hættulegt í Kharkiv,“ áréttar læknirinn fyrir mér.

            „Ég var hér í fyrra,“ segi ég.

            „Áttu konu?“ spyr hann.

Ég neita því.

            „Börn?“ Ég neita því líka. Hann virðist róast við þetta. Ég verð fáum harmdauði en ósennilegt er að komi til þess í bráð. Þegar ég var hérna undir lok síðasta sumars voru Rússar enn í útjaðri borgarinnar og lýstu upp himininn með Gradflaugum á kvöldin. Síðan voru þeir reknir í burtu en eru víst þessa dagana að gera gagnsókn í grennd við Kúpíansk austast í héraðinu sem var frelsuð þann 10. september árið 2022.

            Ýmislegt minnir á að maður er hér staddur nær vígstöðvunum en í Kíev. Útgöngubannið byrjar klukkutíma fyrr, eða ellefu, og loftvarnarsírenurnar óma oft á dag. „Pútín hujlo“ stendur framan á einni rútunni í stað áfangastaðar. Erfitt er að þýða þetta þar sem íslenskan er almennt ekki nógu gróf, en er vísun í kynfæri hans og merkingin að hann fari fjandans til.

Image
""

„Pútín hujlo!“

 

Og þó er borgin mun eðlilegri að sjá en í fyrra. Í stað þess að allt verði svart þegar tekur að dimma og slökkt á öllum ljósum sér maður fólk á götunum og í görðunum, móðir spilar fótbolta við son sinn í innkeyrslunni. Meira að segja aðkoman að borginni er friðsamlegri. Í fyrra hafði verið málað yfir öll götuskilti til að rugla rússneskan innrásarher og varðstöðvar voru á leiðinni þar sem sýna þurfti skilríki. Nú þarf aðeins að gera einu sinni það einu sinni þegar komið er að borginni. Enginn býst lengur við að Rússar geti náð svo langt. Ný götuskilti hafa sums staðar verið sett upp og eru nú bæði rituð með kýrilískum og latneskum stöfum. Úkraínumenn vilja líta til vesturs. 

 

Fimm orrustur á innan við öld

Segja má að Kharkiv sé sovéskasta borg Úkraínu enda var hún um tíma höfuðborg Sovét-Úkraínu, frá 1919-34. Mikið var byggt á þeim tíma eins og sjá má á Frelsistorginu. Derzhprom byggingarnar þóttu mikið undur þegar þær risu árið 1928 og voru upprunalega byggðar sem skrifstofurými fyrir orkuiðnaðinn. Voru þær fyrstu skýjakljúfar Sovétríkjanna og jafnframt stærstu byggingar í heimi að rúmmáli á sínum tíma, allt þar til skýjakljúfar New York tóku þeim fram áratuginn á eftir. Með sínar beinu línur og kassalaga bogahliðar eru þær enn meðal helstu kennileita borgarinnar.

Image
""

Aðalbygging háskólans er einnig frá þessum tíma en 22. mars í fyrra tilkynntu skólayfirvöld að engin bygginga skólans væri lengur án skemmda eftir loftárásir Rússa. Háskóli var stofnaður hér þegar í byrjun 19. aldar og er sá næst elsti í landinu, á eftir þeim í höfuðstaðnum. Ekki minni maður en Goethe var fenginn til að sjá um mannaráðningar og meðal kennara var lögfræðingurinn Alexander Mickiewicz, bróðir pólska þjóðskáldsins Adams. Meðal útskriftarnema var Ivan Frankó, eitt helsta þjóðskáld Úkraínu en hann bjó síðar lengst í Lviv innan austurríska keisaradæmisins þar sem málfrelsi var meira heldur en í því rússneska, ekki síst fyrir þá sem ortu á úkraínsku. Á 19. öld varð borgin sem Rússar kalla Kharkov að mestu leyti rússneskumælandi en þó var hér úkraínsk sjálfstæðishreyfing sem gaf út blöð og á að hafa verið sú fyrsta til að nota slagorðið „Slava Ukraini“ sem oft hefur ómað undanfarið.

Aðalbygging háskólans í Kharkiv.

Og þrátt fyrir að verða síðar ein helsta iðnaðarborg Sovétríkjanna varð það þó á þeim tíma sem borgin varð úkraínskari í anda. Stærstu traktoraverksmiðjur sem og skriðdrekaverksmiðjur landsins voru reistar hér og Úkraínumenn fluttu inn frá sveitum og urðu brátt tveir þriðju íbúa borgarinnar. Hreinsanir Stalíns á 4. áratugnum miðuðu meðal annars að því að brjóta úkraínskar sjálfstæðishreyfingar niður hér sem annars staðar og árið 1934 taldi Stalín sig hafa nógu góð tök á Úkraínu til að flytja höfuðborgina aftur til hinnar fornu Kíev.

Image
""

Nokkrum sinnum var barist um borgina í seinni heimsstyrjöld. Þjóðverjar hernámu hana undir lok október 1941 og rússnesk gagnsókn í maí 1942 mistókst. Sovétmenn tóku hana aftur um miðjan febrúar 1943 en Þjóðverjar tóku hana aftur mánuði síðar en sá sigur er stundum talinn síðasti sigur þeirra á Austurvígstöðvunum. Sovétmenn endurheimtu borgina loks í ágúst 1943 og höfðu þá um 70 prósent bygginga hennar verið lagðar í rúst og íbúafjöldinn minnkað um tvo þriðju. Borgin byggðist aftur upp eftir stríð og er nú sú næst stærsta í Úkraínu á eftir höfuðstaðnum.

             Í febrúar 2022 var aftur barist um Kharkiv sem aðeins er 30 kílómetra frá rússnesku landamærunum. Dagana 27-28. febrúar áttu hörðustu átökin í landinu öllu sér stað hér þegar rússneskir sérsveitarmenn (Spetsnaz) héldu inn í borgina. Voru þeir hraktir á brott og borgin var því áfram undir úkraínskri stjórn. Í september voru Rússar svo reknir frá héraðinu öllu, Kharkiv Oblast, sem nefnt er eftir borginni. Það að Rússum tókst ekki að vinna borg sem er svo nálægt landamærunum með sínum bestu mönnum hlýtur að teljast meiriháttar hernaðarósigur.

 

 

 

Á tímum Brésnevs var farið að útnefna valdar borgir Sovétríkjanna sem hetjuborgir fyrir vasklega framgöngu í seinni heimsstyrjöld. Á stöðnunarárunum var lögmæti ríkisins til sigra í stríðinu þar sem hin glæsta framtíð lét á sér standa.  Kíev og Odesa voru meðal úkraínskra borga sem hlutu titilinn, sem og Sevastopol og Kertsj á Krímskaga. Kharkiv varð það ekki, en var hins vegar í fyrra útnefnd hetjuborg sjálfstæðrar Úkraínu.

Image
""

Breitt yfir fræga Rússa        

Í miðbænum má enn sjá hús sem lögð voru í rúst í hinum endalausu loftárásunum, svo sem skóbúð í besta pastellitaða keisarastíl og erfitt að sjá að hún hafi haft mikið gildi sem hernaðarskotmark. Sveitastjórnarbygging héraðsins varð fyrir árás þar sem 29 manns létust og er byggingin en hol að innan í dag.

En flestar sögufrægar byggingar standa enn. Sögusafnið hefur verið lokað frá því stríð hófst en fyrir framan má sjá skriðdreka úr báðum heimsstyrjöldum og krakka að leik ofan á þeim. Lestarstöðin er í besta síð-stalíníska stíl og er enn skreytt þakmálverkum af fólki með rauða fána. Stallur af styttu af Nikolaj Tikhonov sem var fæddur hér í borg og varð síðar formaður ráðherraráðs (forsætisráðherra) Sovétríkjanna undir Brésnev er enn á sínum stað, en styttan sjálf er farin.

Stallurinn sem stytta af Nikolaj Tikhonov stóð á. 

Hinn svonefndi speglabrunnur var byggður yfir náttúrulegan brunn árið 1947 og notaður sem tákn borgarinnar þegar Kharkiv var gestgjafi á HM árið 2012. Fyrir aftan hann voru styttur til heiðurs hetjum Komsomol, ungliðahreyfingar Kommúnistaflokks Sovétríkjanna. Voru þær nýlega teknar niður vegna framkvæmda og munu víst aldrei snúa aftur. Í almenningsgarði er nokkurs konar „Walk of Fame,“ þar sem minnismerki eru til heiðurs bæði innlendum stjörnum og erlendum, svo sem franska leikaranum Jean-Paul Belmondo. Breytt hefur verið yfir suma, og er nokkuð örugg ágiskun að þar undir séu nöfn rússneskra stjarna að finna.

 

 

Speglabrunnurinn.                                                                                       Walk of Fame, búið að breiða yfir eitt skiltið. 

Sólin er að setjast yfir Derzhprom byggingunum. Loftvarnarsírenurnar eru ærandi hér, og eiga væntanlega upptök sín í grendinni, allt þar til djúprödduð karlmannsrödd tilkynnir að hættan sé liðin hjá. Ég tek Uber átt að lestarstöðinni. Lestin sem ég bíð eftir fer frá Sloviansk til Kherson, alla leið frá vígvellinum í austri til vígvallarins í vestri. Ástandið fer versnandi eftir því sem maður nálgast vígstöðvarnar í þessu endalaust stóra landi. Og þó setur stríðið mark sitt á allt.

 

                                           

 

 

 

 

Sundurskotin bygging í Kharkiv.                                                              Sveitastjórnarbyggingin í Kharkiv. 

 

 

                                                          Texti og ljósmyndir: Valur Gunnarsson, sagnfræðingur, rithöfundur og blaðamaður. 

Image
""