Mynd: Fáni Kadyrovítanna er andlit Akhmats Kadyrov með Tsjetsjenska fánann í bakgrunn.
Hlutverk Tsjetsjeníu í stríðinu: Fyrri hluti
Saga Tsjetsjeníu er löng og viðburðarík. Þar hefur mikið gengið á í aldanna rás, og samband Tsjetsjeníu við Rússland hefur verið með ýmsu móti. Í dag er Tsjetsjenía sjálfstjórnarlýðveldi innan Rússlands, sem þýðir að Tsjetsjenía er með eigin leiðtoga, en þrátt fyrir það er æðsti valdhafinn að sjálfsögðu Vladímír Pútín. Sjálfstjórnarlýðveldi er ekki það sama og sjálfstætt ríki, og Ramzan Kadyrov, leiðtogi Tsjetsjeníu, hefur aldrei meira vald en Pútín treystir honum fyrir. Til þess að varpa ljósi á núverandi stöðu Tsjetsjeníu sem hluta af rússneska ríkinu, og til þess að útskýra persónu Ramzans Kadyrov, og hvert sé hlutverk hans í stríðinu, þá er ráðlegt að setja hlutina í sögulegt samhengi.
Saga Tsjetsjeníu í samhengi við Rússland
Saga landanna í Kákasus hefur öldum saman verið lituð af átökum og samskiptum við Rússland. Árið 1772 börðust Rússar í fyrsta skipti við Tsjetsjeníu þegar þeir fóru að reyna að sölsa þessi landsvæði undir sig. Mikið af frægum rússneskum skáldverkum frá nítjándu öld eru tengd átökunum á milli Rússa og Þjóðanna í Kákasus. “Hetja vorra tíma” eftir Míkhaíl Lérmontov gerist að stórum hluta í Kákasus, svo skrifuðu Aleksandr Púshkín og Lev Tolstoj báðir verk sem heita “Fanginn í Kákasus”, svo dæmi séu tekin. Eftir fall rússneska keisaradæmisins gerði Bolsévikastjórnin Tsjetsjeníu að sjálfsstjórnarhéraði árið 1920.
Á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar sakaði Stalín meðal annars Tsjetsjena um samvinnu með Þjóðverjum, og hrinti af stað stórfelldum brottflutningum árið 1944, þar sem Tsjetsjenar voru neyddir til þess að flytja á mismunandi svæði í mið-Asíu, hinum megin við Kaspíahafið. Þeir fengu ekki að snúa aftur til heimalands síns fyrr en árið 1957, þegar Níkíta Khrústsjov endurreisti sameinað sjálfstjórnarhérað Tsjetsjeníu og Ingushetíu. Við fall Sovétríkjanna hófu Tsjetsjenar uppreisnir gegn kommúnistastjórninni og lýstu yfir sjálfstæði frá Rússum árið 1991 og kölluðu ríkið Itsjkeríu. Við tóku áralöng átök á milli Rússa og Tsjetsjena, fyrst frá árinu 1994 til 1996, þar sem Tsjetsjenar náðu að standa uppi í hárinu á Rússum, meðal annars með hjálp frá utanaðkomandi öfgahópum, svo frá 1999 þar sem Rússar börðust aftur við þá um yfirráð yfir landinu. Árið 2000 náðu Rússar yfirráðum yfir Tsjetsjeníu, en tsjetsjenskir aðskilnaðarsinnar héldu áfram að berjast gegn Rússum til ársins 2009. Akhmat Kadyrov var fyrst hluti af andspyrnunni gegn Rússum, og tók þátt í baráttunni við Rússa á tíunda áratugnum. Hann var viðstaddur samningaviðræður við Boris Jeltsín árið 1996 sem leiddi til þess að Rússneski herinn yfirgaf Tsjetsjeníu. Þetta var niðurlægjandi niðurstaða fyrir Rússa, að lítil þjóð í Kákasus gæti reynst ósigruð. En þessi sigur var Tsjetjenum dýrkeyptur. Í fyrsta lagi þá var búið að leggja höfuðborgina Grozny, í rúst. Í öðru lagi var landið morandi í erlendum öfgamönnum. Það síðarnefnda reyndist örlagaríkt fyrir framtíð landsins, vegna þess að gremja gagnvart þessum utanaðkomandi hópum varð hluti af ástæðunni fyrir því að Akhmat Kadyrov sveik Tsjetsjena, og gekk til liðs við Rússa.
Frá árinu 1996 til ársins 1999 hagaði Tsjetsjenía sér í rauninni sem sjálfstætt ríki. En árið 1999, um það leyti sem Pútín komst til valda, gerðist Akhmat Kadyrov hliðhollur Rússum. Þannig náði hann að auka völd sín, og árið 2003 var hann kjörinn forseti, með hjálp Pútíns. Hann sveik liðsmenn sína og kom svo á ógnarstjórn. Hann dó ári síðar í sprengingu sem Tsjetsjenskir uppreisnarmenn eru sagðir hafa borið ábyrgð á. Sonur Akhmats, Ramzan Kadyrov tók við völdunum eftir dauða föður síns og var svo formlega kjörinn forseti árið 2007, með hjálp Pútíns, og hefur allar götur síðan verið tryggur stuðningsmaður hans.
Það er ljóst að hernaðarátök eru Tsjetsjenum ekki framandi, þeir virðast vilja hafa það orðspor að vera góðir bardagamenn og hermenn, og þeir binda stolt sitt við það. Á vígvellinum eru þeir þekktir fyrir hræðilegt ofbeldi, sem beinist oft gegn óbreyttum borgurum, frekar en einhverjar hetjudáðir.
Ramzan Kadyrov á Telegram
Ramzan Kadyrov er með vinsæla rás á samskiptaforritinu Telegram, þar sem hann er með um það bil þrjár milljónir áskrifenda. Hann tjáir sig mikið á Telegram, og í fljótu bragði virðist hlutverk Telegram rásar hans vera að mestu leyti tvískipt. Annars vegar notar hann rásina til þess að hvetja fólk til þess að treysta og bera virðingu fyrir Pútín rússlandsforseta og hins vegar til þess að kynna og auglýsa herlið Akhmat hersveitarinnar (spetsnaz Akhmat), sem heitir eftir föður Ramzans, Akhmat Kadyrov og heyrir undir rússneska þjóðarvarðliðið. Ramzan er mjög stoltur af hæfni og þjálfun Akhmat herliðsins. Í ágúst á síðasta ári var birt færsla á Telegram rás Kadyrovs, með stuttu myndbandi af tsjetsjenskum hermanni, þöktum í eigin blóði, með texta undir sem sagði að þetta væri gott dæmi um hugrekki, óeigingirni og staðfestu tsjetsjensku hermannanna. Að hafna læknisaðstoð, þrátt mikil sár og óbærilegan sársauka, er eitthvað sem Kadyrov finnst aðdáunarvert og til fyrirmyndar.
Titill
Færsla Kadyrovs frá 17. ágúst 2022
Þýðing: „Sannir Tsjetsjenar kunna frá fæðingu að taka við höggi og að þola hvers kyns erfiðleika. Það er í blóði sannra sona þjóðarinnar. Jafnvel blæðandi út, og þrátt fyrir hræðilegan sársauka, horfa þeir í augu dauðans og sætta sig við örlög sín með nafn Guðs á vörum.“
„Þessar myndir eru gott dæmi um ósérhlífni, hugrekki, æðruleysi, ósveigjanleika og óbuganleika hermanna okkar. Algjört óttaleysi, sem má sjá í fordæmi okkar kæru BRÆÐRA – hersveitaforingja sérsveitarinnar sem heitir eftir Hetju Rússlands A. A. Kadyrov fyrir Innanríkisráðuneyti Tsjetsjenska lýðveldisins – Mairbek Daudov lögreglustjóri og Ilman Gutsjigov lögreglumanns.“
„Jafnvel þó þeir séu með djúp sár eru þeir ekki hræddir við afleiðingar meiðsla sinna, þeir þiggja ekki hjálp og styrkja baráttuanda hermannanna með æðruleysi sínu. Þetta myndband er sannfærandi staðfesting þess að hermenn okkar og stjórnendur þeirra séu, þvert á yfirlýsingar illgjarnra kjaftaska, í fremstu röð í baráttunni gegn nasistum. Jæja, Tik-Tok-hermenn eru alveg eins og Bandera, sem stilla sér bara upp fyrir myndavélina og hlaupa burt frá vígvellinum.“
Ásakanir eru algengar gegn liðsmönnum Akhmat sveitarinnar um kynferðisofbeldi og ofbeldi gegn rússneskum hermönnum sem geta ekki eða vilja ekki halda áfram að berjast. Af Telegam rás Kadyrovs að dæma eru Tsjetsjenar stoltir yfir því að berjast fyrir Rússland. Á hinn bóginn er einnig hægt að líta á Tsjetsjeníu sem dæmi um ríki sem barðist við Rússa fyrir sjálfstæði sínu en tapaði. Ramzan Kadyrov fær völd sín frá Pútín, og þar af leiðandi er hann knúinn til þess að halda tryggð við Rússland. Með hjálp Pútín og þeirra gríðarlegu upphæða sem hann lætur renna til Tsjetsjeníu hefur Kadyrov frjálsar hendur til þess að beita ógnarstjórn og fá þjóð sína til að sýna tryggð við Rússland.
Í færslu sem Kadyrov birti á laugardaginn 24. júní, þegar Wagner-liðar stefndu til Moskvu, sagði hann að stríð væri ekki tíminn til þess að viðra ósætti innbyrðis. Hann sagði að þegar þjóðin er í stríði er mikilvægt að samheldni sé innan landsins. Svo fór hann að tala um Pútín, sem hann sagði að þekkti allt ástandið, niður í minnstu smáatriði, betur en nokkur hernaðarsérfræðingur, og að hann taki allar sínar ákvarðanir af yfirvegun og varkárni. Hann sagði „hvert okkar sér einungis hluta af kortinu, hann [Pútín] sér allt í einu!“
Titill
Skjáskot af Telegram rás Kadyrov frá 24. júní 2023
Þýðing: „Við erum með Æðsta Yfirhershöfðingja, kosinn af þjóðinni, sem þekkir allt ástandið niður í smæstu smáatriði betur en hvaða hernaðarsérfræðingur sem er, og er enn fremur viðskiptamaður, sem er sjálfur í sambandi við stjórnendurna “á jörðinni” og hefur fulla stjórn á eldflaugavörnum landsmanna. Og ákvarðanir okkar Æðsta Yfirhershöfðingja eru teknar af jafnvægi og nákvæmni. Hvert okkar sér einungis hluta af kortinu, en hann sér allt í einu! Og Vladímír Vladímírovitsj sagði réttilega í ávarpi sínu til þjóðarinnar – Þetta er hernaðaruppreisn! Það er engin afsökun fyrir slíkum aðgerðum! Ég styð hvert orð Vladímírs Vladímírovitsj Pútíns fullkomlega!“
Þegar Ramzan Kadyrov talar um Pútín, er eins og hann sé að tala um yfirnáttúrulega veru, með eiginleika og visku sem er æðri dauðlegs mannfólks. Hann talar oft um föður sinn Akhmat sem Hetju Rússlands, en hann talar ekki um að faðir sinn hafi líka barist gegn Rússum, áður en hann gekk til liðs við þá. Hugmyndin um sjálfstæða Tsjetsjeníu er greinilega hvergi á dagskrá hjá Ramzan Kadyrov, og barátta Tsjetsjena fyrir sjálfstæði sínu er í mesta lagi óþægileg minning.
Agnar Óli Snorrason, BA í rússnesku.
Heimildir og ítarefni
- (PDF) Chechnya Interrupted Independence (researchgate.net)
- Was Russian TV Reporter Raped on Ukraine Front Line? What We Know (newsweek.com)
Telegram aðgangur Ramzan Kadyrov: Kadyrov_95