Image
Sendinefndir Rússa og Úkraínumanna í Istanbúl í júlí 2022.

Sendinefndir Rússa og Úkraínumanna í Istanbúl í júlí 2022. Mynd frá Alþjóðasiglingamálastofnuninni, birt undir Creative Commons-leyfi.

 

Höfnuðu Úkraínumenn friði í apríl 2022?

Því hefur nokkrum sinnum verið haldið fram í umræðum á samfélagsmiðlum upp á síðkastið að almenningur hafi verið beittur blekkingum um hverjir raunverulega haldi stríðinu í Úkraínu gangandi. Það séu Vesturlönd, því Úkraína hafi viljað semja fyrir löngu. Staðhæft er að friðarsamningur hafi legið fyrir milli Rússlands og Úkraínu í mars eða apríl 2022. Hann hafi verið undirritaður af báðum aðilum en Úkraínumenn hafi skyndilega slegið hann út af borðinu vegna þrýstings frá Bandaríkjunum og/eða öðrum Vesturlöndum.

Staðhæfingarnar sem um ræðir ganga í grófum dráttum út á það að Úkraínumenn og Rússar hafi verið búnir að komast að ásættanlegu friðarsamkomulagi í lok mars 2022. Rússar hafi hörfað frá Kænugarði í samræmi við þetta samkomulag. Hins vegar hafi Úkraínumenn skyndilega neitað að fullgilda samkomulagið.

Þessi meinti viðsnúningur Úkraínumanna er iðulega tengdur við heimsókn Borisar Johnson, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, til Kænugarðs 9. apríl. Er þá gefið til kynna að Johnson eða aðrir leiðtogar Vesturlanda hafi kæft friðarsamninginn í fæðingu til að framlengja stríðið.

Í sumum útgáfum af þessari sögu er staðhæft eða gefið í skyn að fjöldamorðin í Bútsja, sem komust í kastljós alþjóðafjölmiðla eftir undanhald Rússa frá Kænugarði og spilltu verulega fyrir friðarviðræðunum, hafi verið sviðsett til þess að skapa átyllu fyrir því að hafna friðarsáttmálanum.

Skjáskot af Telegram-síðu belarúsks fréttamiðils þar sem gefið er í skyn að fjöldamorðin í Bútsja hafi verið sviðsett til að koma í veg fyrir friðarsamkomulagið.

 

Image
Ljósmynd af Vladimir Putin, forseta Rússlands.

Pútín sýndi nefnd leiðtoga Afríkuríkja skjal sem hann segir Úkraínumenn hafa samþykkt í júní síðastliðinn. Mynd frá ríkisstjórn Rússlands, birt undir Creative Commons-leyfi.

 

Hver heldur þessu fram?

Staðhæfingin um að gerður hafi verið friðarsamningur árið 2022 sem Úkraínumenn hafi síðan hætt við að samþykkja virðist vera komin frá sjálfum Vladímír Pútín, forseta Rússlands. Þann 13. júní síðastliðinn birtist Pútín í sjónvarpi ásamt hópi rússneskra stríðsbloggara og lét þau orð falla að komist hafi verið að „góðu samkomulagi“ um friðsamlega lausn á stríðinu í mars 2022 en að Úkraínumenn hafi „kastað því frá sér“.[i]

Aleksandr Lúkasjenka, forseti Belarús, tók í svipaðan streng þann 14. júní. Hann kvað Pútín hafa sýnt sér samning sem báðir stríðsaðilar hefðu skrifað undir og hefði útkljáð stöðu bæði Krímskaga og Donbas-héraðanna með „langtímaleigu“ á landsvæðunum. Úkraínumenn hefðu hins vegar hætt við samninginn og vegna þróunar mála í kjölfarið væri þessi úrlausn ekki lengur möguleg.[ii]

Þann 17. júní sýndi Pútín síðan sendinefnd afrískra þjóðarleiðtoga uppkast að téðum vopnahléssáttmála og sagði leiðtoga úkraínska samningateymisins hafa undirritað það. Samkvæmt umfjöllun bæði BBC í Rússlandi og útvarpsstöðvarinnar Majak (sem er talin hlynnt stjórnvöldum í Kreml) var samningurinn sem Pútín sýndi afrísku leiðtogunum dagsettur 15. apríl 2022 en byggður á tillögum sem Úkraínumenn höfðu sett fram 29. mars.[iii]

Að sögn Pútíns hörfuðu rússneskir hermenn frá Kænugarði í samræmi við samkomulagið en Úkraínumenn stóðu ekki við sinn hluta og hafi því kastað möguleikanum á friði á „öskuhauga sögunnar“.

 

Hvað gerðist í mars 2022?

Rússar og Úkraínumenn stóðu í viðræðum um mögulegt vopnahlé á fyrstu vikum innrásarinnar. Viðræðurnar hófust við landamærin að Belarús þann 27. febrúar 2022 og héldu áfram í Istanbúl í lok mars. Um miðjan mars sögðust Úkraínumenn reiðubúnir til að ganga að kröfum Rússa um að Úkraína myndi skuldbinda sig til að ganga ekki í Atlantshafsbandalagið og að Úkraína myndi lýsa yfir hlutleysi.[iv]

Opinber stefna Rússlands í samningaviðræðunum var ávallt sú að til að ná fram friði yrði Úkraína bæði að lýsa yfir hlutleysi í stjórnarskrá sinni og viðurkenna bæði innlimun Rússlands á Krímskaga og sjálfstæði „alþýðulýðveldanna“ í Donetsk og Lúhansk.[v] Volodymyr Zelenskyj áréttaði hins vegar þann 31. mars að ekki yrði gengið að friðarskilmálum sem fælu í sér að Úkraína léti af hendi „einn einasta metra“ af landsvæði sínu.[vi] Með þeirri yfirlýsingu útilokaði hann í reynd að Úkraína gengi að kröfum Rússa um breytingar á yfirráðasvæði.

Á meðan viðræðurnar stóðu yfir var ekki alltaf fullkominn samhljómur milli stjórnvalda í Kreml og samninganefndar þeirra í Istanbúl. Leiðtogi samningateymis Rússa, Vladímír Medínskíj (sem var um árabil menningarmálaráðherra Rússlands en var ekki álitinn neinn þungavigtarmaður í Kreml), var á köflum bjartsýnn um að samningur næðist með viðræðunum þótt yfirboðarar hans í Rússlandi virtust vondaufir um árangur.[vii] Eftir fyrsta dag viðræðna í Istanbúl 29. mars 2022 minntist Medínskíj þó ekki á að komist hefði verið að neinu samkomulagi, aðeins að Úkraínumenn hefðu lagt fram tillögur sem hann myndi miðla til forseta og utanríkisráðherra Rússlands.[viii]

Þann 30. mars sagðist Dmítríj Peskov, talsmaður Pútíns, hins vegar efins um að þýðingarmikil skref yrðu tekin að friði með viðræðunum í Istanbúl þar sem „ekkert sem lofaði sérlega góðu“ hefði komið út úr þeim.[ix] Þetta var daginn eftir að tillögurnar sem eiga að vera grundvöllur samkomulagsins sem Pútín benti á komu fram. Þann 7. apríl 2022 lýsti Sergej Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, því síðan yfir að Úkraínumenn hefðu lagt fram „óásættanleg“ drög að friðarsamningi sem ekki samræmdust kröfunum sem hefðu verið lagðar fram í fyrri lotum viðræðnanna.[x]

Vladímír Pútín lét síðan þann 12. apríl þau orð falla að friðarviðræðurnar við Úkraínu væru komnar í „blindgötu“.[xi] Eins og áður var nefnt var friðarsamningurinn sem Pútín sýndi afrísku leiðtogunum dagsettur 15. apríl, aðeins þremur dögum eftir þessi ummæli.

 

Heimsókn Johnsons til Kænugarðs

Ýmsir aðilar, þar á meðal bandaríski forsetaframbjóðandinn Robert F. Kennedy yngri, hafa tengt endalok þessa téða vopnahléssáttmála við heimsókn Borisar Johnson til Kænugarðs þann 9. apríl 2022.[xii]

Samkvæmt úkraínska blaðinu Úkraínska Pravda hvatti Johnson Zelenskyj við þetta tilefni til að semja ekki við Pútín heldur beita hann þrýstingi, enda væri Pútín stríðsglæpamaður. Johnson mun hafa gefið til kynna að jafnvel þótt Úkraína kysi að semja við Pútín væru Vesturlönd ekki viljug til þess.[xiii]

Boris Johnson með Volodymyr Zelenskyj í Kænugarði þann 10. apríl 2022. Mynd frá úkraínska forsetaembættinu, gefin út undir Creative Commons-leyfi.

 

Heimsókn Johnsons til Úkraínu var tveimur dögum eftir að Lavrov hafði þegar kallað samningsdrög Úkraínumanna „óásættanleg“, sem bendir ekki til þess að friður hafi verið innan seilingar áður en Johnson steig fram á sviðið. Sjálft skjalið sem Pútín vill meina að Úkraínumenn hafi undirritað en síðan „kastað frá sér“ var jafnframt dagsett sex dögum eftir heimsókn Johnsons. Óljóst er hví Úkraínumenn hefðu átt að skrifa undir sáttmálann sex dögum síðar ef Johnson var þá búinn að sannfæra Zelenskyj um að hafna honum.

 

Niðurstöður

Sú hugmynd að komist hafi verið að friðarsamkomulagi í apríl 2022 sem Úkraínumenn hafi undirritað en síðan kastað frá sér virðist eingöngu byggja á staðhæfingum Vladímírs Pútín og skjali sem hann sýndi leiðtogum frá Afríku í júní. Pútín sjálfur getur ekki talist óhlutdræg heimild og þessar fullyrðingar samræmast ekki ummælum hans sjálfs eða annarra rússneskra ráðamanna um friðarviðræðurnar frá mars og apríl 2022.

Hugmyndir um að heimsókn Borisar Johnson til Kænugarðs hafi komið í veg fyrir framkvæmd sáttmálans koma jafnframt ekki heim og saman við tímasetningu hans. Johnson kom til Kænugarðs eftir að rússneskir ráðamenn höfðu þegar lýst yfir alvarlegum efasemdum um friðarviðræðurnar og Zelenskyj hafði útilokað úrlausnir sem fælu í sér afsal á úkraínsku landsvæði. Sjálfur samningurinn á hins vegar að hafa verið undirritaður tæpri viku eftir að Johnson fór frá Úkraínu samkvæmt dagsetningunni á skjalinu sem Pútín dró upp.

 

                                                                                                   Þorgrímur Kári Snævarr, sagnfræðingur og laganemi

 

Heimildir og ítarefni

[i] Путин назвал "неплохим" достигнутый в марте 2022 года договор между Россией и Украиной

[xii] Færsla af Twitter-síðu Roberts F. Kennedy yngri frá 19. júní 2023, sjá hér.