
Aleksandr Lúkasjenka, Vladímír Pútín, Angela Merkel, François Hollande og Petro Porosjenko í Minsk eftir samþykkt Minsk-samkomulagsins í febrúar 2015. Mynd af vef rússneska forsetaembættisins.
Þegar rætt er um um ábyrgð á stríðinu í Úkraínu er stundum drepið á fyrri tilraunum til þess að stilla til friðar og hverjum það er að kenna að þær fóru úrskeiðis. Er þá gjarnan vikið að Minsk-samkomulaginu svokallaða, sem var samkomulag sem gert var í viðleitni til að binda enda á átökin í Donbas árin 2014 og 2015.
Það liggur í augum uppi að Minsk-samkomulagið náði ekki að koma í veg fyrir átök á milli Úkraínu og Rússlands. En ekki kemur öllum saman um það hver beri sökina á því. Rússar og ýmsir málsvarar innrásarinnar í Úkraínu saka Úkraínumenn iðulega um að hafa brotið gegn samkomulaginu eða um að hafa gert samkomulagið án þess að hugur fylgdi máli. Er þá ábyrgðinni á áframhaldandi stríði í landinu skellt á Úkraínumenn með vísan til þess að þeir hafi í reynd verið fyrstir til að rjúfa vopnahlé sem var í gildi.