Íslenskir sprengjusérfræðingar þjálfa úkraínska hermenn í Litháen
„Það eru tilfinningar í gangi þarna. Það er stríð í gangi og þeir eru að berjast fyrir sjálfstæði sínu. Þeir eru rosalega þakklátir og maður sér að þeir eru mjög einbeittir í því hvað þeir eiga að gera og hvað þeir eru að fara að gera. Þetta eru góðir nemendur og þeir eru þakklátir fyrir þessa kennslu, segir Jónas Þorvaldsson, yfirmaður séraðgerðasveitar og sprengjusérfræðingur hjá Landhelgisgæslunni, og gestur Úkraínuhlaðvarpsins að þessu sinni og hægt er að hlusta á hér. Jónas, auk íslenskra sprengjusérfræðinga, koma að þjálfun í sprengjuleit og sprengjueyðingu fyrir úkraínska hermenn í Litháen. Þjálfunin er samstarfsverkefni Íslands, Litháen, Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Danmerkur og fer fram í fimm vikur í senn á herstöð í Rukla í Litháen. Alls hafa 24 úkraínskir hermenn lokið grunnþjálfun á tveimur fimm vikna námskeiðum á þessu ári, og tvö önnur námskeið eru ráðgerð síðar á þessu ári. Auk þjálfunarinnar, leggur Ísland einnig til þjálfunarbúnaðinn sem hermennirnir taka með sér tilbaka til Úkraínu og geta nýtt sér við störf sín í Úkraínu. „Þetta er ofboðslega sérhæft nám og þetta er hættulegt og maður vill að nemendurnir séu klárir á þann búnað sem þeir eru svo að fara að nota á feltinu. Þetta hefur allavega reynst okkur mjög vel hingað til að gera þetta svona,“ segir Jónas.
Það er mikið og ærið verkefni sem bíður úkraínsku hermannanna þegar þeir snúa tilbaka, en talið er að allt að þriðjungur landsvæðis í Úkraínu sé að einhverju leiti mengað að sprengjum. Ósprungnar sprengjur eru mikil ógn við menn og dýr, og landbúnaðarsvæði þakin sprengjum eru ónothæf til ræktunar eða beitar. Mikið hreinsunarstarf er því framundan í Úkraínu. ,,Þetta er ofboðslega tímafrekt verkefni og þetta er ekki hættulaust en eins og ég segi, einhversstaðar þarf að byrja og þeir eru bara í þeirri aðstöðu í dag að þeir verða bara að halda áfram. Í rauninni þess vegna erum við að þessu, til að styðja við það, mennta menn í þessu og gera þeim kleyft að geta brugðist við sem flestu og reynt að halda dampi í þessu,“ segir Jónas.
Hægt er að hlusta á viðtalið við Jónas í Úkraínuhlaðvarpinu hér.
Úkraínuhlaðvarpið verður með vikulega þætti í sumar. Nýir þættir munu birtast á Spotify sem og vef og samfélagsmiðlum Úkraínuverkefnisins á hverjum föstudegi.