Image
Tetiana með syni sínum á Íslandi.

Tetiana og sonur hennar byrjuðu nýtt líf á Íslandi.

 

Lífið stoppaði ekki  – það tók bara hlé

„Flóttinn hófst sama dag og innrásin byrjaði. Kvöldinu áður fórum við að sofa og hugsuðum að við myndum fara í vinnuna og að kaupa í matinn daginn eftir, við vorum með plön. Klukkan fjögur um morguninn vaknaði ég við sprengingar, það var hræðilegt. Svo vakti ég eiginmann minn. […] Út um gluggann sá ég nágranna mína taka ferðatöskur og gæludýr og koma sér í burtu, þá skildi ég að þetta var raunverulega byrjað.“ Engar fréttir bárust fjölskyldu Tetiönu fyrstu klukkutímana eftir innrás Rússa, en fjölskyldan hafði búið sig undir að þurfa að flýja. Tetiana og maðurinn hennar tóku aðeins með sér mikilvæga pappíra, gæludýrin sín og föt fyrir son sinn, áður en þau yfirgáfu heimili sitt og óku í lítið þorp nálægt Kiev heim til systur Tetiönu. Margir voru að flýja Kiev á sama tíma sem leiddi til umferðarteppu og það tók fjölskylduna fimm klukkustundir að komast út úr borginni. Um kvöldið fékk eiginmaður Tetiönu símtal frá bróður sínum. Irpin, bærinn þar sem hann ólst upp, hafði verið hertekinn.

Fjölskylda Tetiönu eru hún, eiginmaður hennar og átta ára sonur hjónanna. Maður hennar fæddist í Rússlandi en flutti til Irpin þegar hann var þriggja ára gamall. Þau bjuggu öll í Kiev áður en innrásin hófst, en nú búa hún og sonur hennar á Íslandi, eiginmaður hennar gekk í herinn og varð eftir í Úkraínu. Fyrir stríðið vann hann sem verkfræðingur en hún var framkvæmdastjóri fyrirtækis sem gerði leikvelli fyrir börn. Tetiana og sonur hennar hafa búið í tæpt eitt og hálft ár á Íslandi þegar þetta er skrifað. Hún fer til Úkraínu á þriggja mánaða fresti til þess að heimsækja eiginmann sinn. „Hann langar að koma einhvern tímann til Íslands.“

„Um kvöldið fékk maðurinn minn annað símtal, sem ég held að hafi verið frá bróður hans. Hann sagði okkur að við ættum að vera farin eftir tíu mínútur vegna þess að hernámið var byrjað og rússneskir hermenn væru nálægt. […] Þegar við fórum til vesturhluta Úkraínu sáum við eldflaugar og þyrlur og heyrðum sprengjuhljóð. Það var ógnvekjandi. […] Ég bað bara til Guðs. Við sögðum ekkert, sonur minn talaði ekki í tvær vikur eftir þessa atburði.“

Þau vantaði eldsneyti, en allar bensínstöðvar sem þau keyrðu fram hjá höfðu verið tæmdar. Loks fundu þau stað þar sem þau gátu dælt á bílinn, en stuttu eftir það lentu þau í óhappi. Aukahlutur sem féll úr bíl á undan þeim skemmdi bensíntankinn á bílnum þeirra. Þau voru föst í vesturhluta Úkraínu í meira en viku, en fengu hjálp frá vinafólki þar. Tetiana er samt þakklát fyrir þetta atvik. „Þann dag ákvað maðurinn minn að fara í herinn. Vegna skemmda sem bíllinn okkar varð fyrir gat hann ekki farið samstundis, ekki fyrr en tíu dögum síðar. Ef hann hefði farið strax held ég að hann hefði dáið.“ Tetiana og sonur hennar fóru því ein yfir landamærin en maður hennar sneri við og hélt aftur til Kiev. „Mér leið mjög illa. Ég var ósammála ákvörðun hans fyrst. Nú hef ég sætt mig við hana, en þá leið mér eins og hann væri að yfirgefa okkur.“

 

Image
Sonur Tetiönu með pólskan og úkraínskan fána.

Mæðginin eyddu þremur vikum í Póllandi áður en þau héldu til Íslands.

 

Mæðginin gengu í 14 klukkustundir að landamærum Póllands og Úkraínu, þar sem vel var tekið á móti þeim. Tetiana og sonur hennar eyddu þrem vikum í Póllandi, þar bjuggu þau hjá fjölskyldu sem sá þeim fyrir fötum og öðrum nauðsynjum. Þau eru enn í sambandi við fjölskylduna. Í Póllandi voru þau hvött til að finna sér íbúð sem gekk illa, engar íbúðir virtust lausar. Tetiana náði heldur ekki að finna sér vinnu en hún vissi að stríðið mundi dragast á langinn og að hún þyrfti að halda lífinu áfram – byrja upp á nýtt annars staðar. Hún var í fyrstu að skoða England og Noreg. „Á hverju kvöldi leitaði ég að upplýsingum um þessi lönd. Ég sá færslu um að Ísland væri taka á móti flóttamönnum frá Úkraínu. Ég hugsaði Ísland, ókei, af hverju ekki? Þetta var á afmælisdegi föður míns sem dó fyrir fimm árum. Á afmælisdegi hans fæ ég alltaf eitthvað merki, og þá hugsaði ég að þessi færsla um Ísland væri merkið. Við keyptum miða og fórum til Íslands tveimur dögum síðar.“

„Sonur minn er róleg manneskja. Það var ekki erfitt fyrir mig að ferðast með honum.“ sagði Tetiana þegar hún var spurð um hvernig það hafi verið að ferðast alla þessa leið með átta ára syninum. Fyrstu tvær vikurnar hafði hann ekki talað, en eftir það var hann sjálfum sér líkur. „Sex eða sjö mánuðum síðar sagði hann; „Mamma ég hélt að við hefðum öll dáið.“ Hann hugsaði lengi um þetta án þess að segja mér frá því.“ Tetiana talaði um óstöðugleikann sem fylgir því að vera flóttamaður. „Hann eignaðist vini í Póllandi, á Sögu, hjá Bifröst. Hann var með mikið að börnum og fólki í kringum sig. Sumir sneru aftur til Úkraínu og aðrir fluttu til annars lands. Það var svo mikið að gerast og þetta var allt nýtt fyrir okkur. Lífið stoppaði ekki - heldur pásaði.“

 

Image
Sonur Tetiönu klappar íslenskum hesti.

Tetiana segir það hafa verið góð ákvörðun að koma til Íslands, en hún og sonur hennar þurftu á rólegu umhverfi að halda.

 

Tetiana segir móttökurnar á Íslandi hafa verið frábærar. Þau eyddu fyrsta mánuðinum hér á Hótel Sögu, þar sem sjálfboðaliðar hjálpuðu þeim – „Það var enginn hörgull á mat, fötum og ást.“ Hún er síðan búin að finna sér vinnu. Sonur hennar gengur nú í skóla og hefur eignast vini, honum líkar mjög vel við Ísland. Tetiana segir tungumálið og veðrið vera helstu erfiðleikana við að búa hér, en þrátt fyrir það líkar henni einnig við Ísland. Hún telur sig hafa tekið rétta ákvörðun vegna þess að það sé hollt fyrir þau að vera í friðsælu umhverfi eftir allt sem þau gengu í gegnum í Úkraínu. Nú þegar Tetiana hefur jafnað sig dálítið leiðist henni stundum, en hún er vön ys og þys stórborgar og finnst oft lítið vera að gerast á Íslandi.

Hún hikar samt sem áður við að fara aftur til Úkraínu skyldi stríðið enda á næstunni. „Ég held að Ísland sé annað móðurland mitt núna, á eftir Úkraínu.“ Hún sér fyrir sér annaðhvort að vera um kyrrt hér á landi, eða fara aftur til Úkraínu. Hún gerir sér grein fyrir því að því lengur sem hún og sonur hennar verða á Íslandi þeim mun meiri áhrif hefur menningin hér á landi á son hennar og hugarfar hans. Tetiana heldur einnig að það gæti verið full mikil streita fyrir hann að fara aftur til Úkraínu eftir að hafa aðlagast menningunni og kerfinu á Íslandi, en hún veit ekki hvort ríkið myndi veita þeim leyfi til þess að vera hér lengur en þau þurfa.

Tetiana telur sig vita að fullt af fólki (aðallega frá Donbas) sem hefur einnig flúið en stendur samt með Rússlandi. „Ég skil ekki af hverju fólk styður Rússland. Það veit að Rússland kom til Úkraínu, en ekki Úkraína til Rússlands.“ segir hún. Hún telur að endir stríðsins sé engin trygging fyrir því að Rússar séu knúnir til að breyta viðhorfi sínu gagnvart Úkraínumönnum. „Það er ein af ástæðunum fyrir hræðslu minni við að fara aftur til Úkraínu, Rússar eru nálægt. Hver veit hvað mun gerast? Kannski munu þeir ákveða að koma aftur og halda áfram.“

Margir sem Tetiana þekkir eru enn í Úkraínu því ekki allir hafa höldin á því að flýja. „Ekki allir geta farið og breytt lífum sínum. Það er ekki fyrir alla. Það er svo erfitt að fara til útlanda, […] ég skildi allt eftir og fór og hafði ekkert. Að vera eftir í Úkraínu er ekki erfitt en það er hættulegt. Að fara til annars lands og byrja upp á nýtt er svo erfitt. Það er einnig hættulegt en það er svo rosalega erfitt.“

 

                                                                                                                             Zuzanna Elvira Korpak, BA í heimspeki.

Image
Sonur Tetiönu. Í bakgrunni er íslenski og úkraínski fáninn í vasa.

Syni Tetiönu líkar vel við Ísland og hefur eignast nýja vini hér á landi.