Listsköpun á stríðstímum
Stríð hefur verið uppspretta fjölbreyttra frásagna allt frá dögum Hómers sem skrifaði um stríð í Grikklandi hinu forna. Þetta hefur ekki breyst í tímans rás, þar sem stríð er óaðskiljanlegur hluti mannkynssögunnar. Stríð hefur alltaf endurspeglast í list og viðbrögð listarinnar við stríði hafa alltaf verið þau sömu - óháð tímabilum eða landi - það er ákall um húmanisma. Listin hefur alltaf reynt að sýna hvaða áhrif stríð hefur á líf fólks. Einnig er reynt að persónugera stríðið, skapa myndlíkingu þess.
Eitt af fyrstu málverkunum í sögu evrópskrar málaralistar sem sýnir stríðsáföll er Die Elster auf dem Galgen eða Skjórinn á gálganum eftir Pieter Bruegel. Verkið var málað árið 1568 - ári eftir að hertoginn Fernando Alvarez de Toledo hóf að bæla niður hollensku uppreisnina. Hér virðist ekki vera neitt stríð: landslagið er friðsælt, bændur skemmta sér, gefa engan gaum að tómum gálga. Þetta er auðvitað ekki sálfræðileg rannsókn á skeytingarleysi gagnvart ofbeldi, heldur allegóría - ein af þrautarmyndum Bruegels og algeng birtingarmynd af skjónum sem slúðurbera (og þar af leiðandi uppljóstrara sem undirbýr jarðveg fyrir ógnvaldinn). Gálginn hér líkist ómögulegri fígúru á borð við Penrose-þríhyrninginn, sem endurraðar rúmfræði heimsins og skapar gat í miðju hans.
Atburðirnir að morgni 24. febrúar breyttu heiminum þar sem öllu því sem hafði þótt merkilegt var skyndilega hent ofan í þetta gat. Þegar flóð hryllilegra frétta streymdi inn breyttist forgangsröðin. Listamenn horfðu á hryllinginn í þessu stríði á 21. öld á tölvuskjáum sínum og margir spurðu spurningar sem ekki hafði borið á góma í evrópsku hversdagslífi lengi, sem nú hljómar nánast eins og úrelt tilgáta: hvert er hlutverk listar í stríði?
Sjónarhorn árásaraðila, varnaraðila og andstöðu
Markmið árásaraðilans er aðallega að sannfæra alla um réttmæti hans vals að ráðast á einhvern. Til þess þarf fyrst og fremst að vísa til sögunnar. Það endurómar í slagorðum, ljóðum og söngvum, rifjar upp dýrðlega fortíð og skapar líkingar hennar við nútímann. Án þess að gleyma að gagnrýna þá sem hann ræðst á og sýna eigin yfirburði.
Skjáskot úr myndbandinu „Na peredovoy” („Í fremstu víglínu“) eftir söngkonu Chicherina rússneska söngkonu og stríðsstuðningskonu. Skjáskotið sýnir komu nasista í Úkraínu. Skiltið segir: „Dýrð sé Hítler – Dýrð sé Úkraínu“. Myndbandið var framleitt árið 2016 og tileinkað hermönnum í Donbas en öðlaðist nýja merkingu eftir 24. febrúar 2022
Varnaraðilinn getur beitt svipuðum aðferðum: rægja árásaraðilann, ráðast á gildi hans og gagnrýna fortíðina og nútíðina. Athyglisvert er að úkraínskir listamenn hafa hingað til ekki sýnt neina tilhneigingu til þess. Þess í stað nota þeir aukna athygli umheimsins til að sýna fram á sérstöðu menningar sinnar, sem hefur að vissu leyti verið í skugga rússneskrar menningar, með því að innleiða hefðbundna tóna og hljóðfæri í tónlist, sýna hefðbundin mynstur í myndlist. Án þess að gleyma að sýna heiminum umfang harmleiksins sem hefur gerst: myndir af rústuðum borgum og mannlífum.
Kalush Orchestra vann Euróvísjón 2022 með frumsamið efni á úkraínsku og framleiddi myndband fyrir verðlaunalagið „Stefania“ sem sýndi afleiðingar allsherjarinnrásarinnar í Kænugarði og nærliggjandi bæjum.
Andstaðan vinnur í þremur áttum: í fyrsta lagi með því að sýna varnaraðilanum samúð og samstöðu. Í öðru lagi með því að velta fyrir sér voðaverkum árásaraðilans og búa til frásagnir, lög og myndefni sem afhjúpa þau fyrir almenning. Og að lokum, með því að skapa holdgervingu vona og væntinga betri, en vonandi, ekki svo fjarlægrar framtíðar.
Svanurinn eftir Maríu Skepner : „Í Rússlandi hefur ballett lengi verið þjóðarstolt, eitthvað sem við erum óviðjafnanlega góð í. Svanavatnið, sem var útvarpað á öllum sjónvarpsstöðvum á valdaráninu í ágúst 1991, varð líka tákn breytinga. Auk þess voru listamenn alltaf innblásnir af ímynd Salóme sem tók á móti höfði Jóhannesar skírara. Afhausun Hólófernesar af Júdít (jafnvel þótt hún væri ekki dansari) er annað klassískt þema sem birtist oft í list. Ballettdansarinn klæddur eins og hvíti svanurinn, með höfuðið af Pútín, er ný útgáfa af þessari klassísku sögu og holdgervingur vonar okkar og væntinga.“
Ábyrgð listamanna
Stríðið skapar eitthvað sem fer út fyrir mannlegan skilning, fáránleiki þess fer fram úr skynsamlegri réttlætingu. Við þessar aðstæður er enn hægt að tala um skyldu listamanns en skyldan hér er ekki fólgin í því að finna einhverja frumspekilega merkingu fyrir það sem er að gerast, flétta hana inn í frásagnir, eða setja hana í svipmesta fagurfræðilega samhengi. Skylda listamannsins er aðeins að skrásetja „allt eins og það var“ af ástríðuleysi, ábyrgð og áreiðanleika. Að búa til annála sem næsta kynslóð notar ef til vill í heimildarmynd eftir nokkra áratugi. Í ritgerð eftir Elias Canetti um dagbók læknisins Michihiko Hachiya frá Hiroshima er spurningunni um hvað það þýði að lifa af stórslys af þessari stærðargráðu svarað á þá leið að þeirri upplifun sé ekki hægt að lýsa í neinu formi nema textaformi sem, eins og skýringar Hachiyas, er unnið af nákvæmni og ábyrgð.
Á þeim sextán mánuðum sem eru síðan stríðið hófst hafa yfir 15.000 þátttakendur í mótmælum gegn stríðinu verið í haldi í Rússlandi. Á meðal þeirra 150.000 til 800.000 manns sem flúðu Rússland eftir að stríðið braust út eru þúsundir blaðamanna, aðgerðasinna, listamanna og annarra sem vegna skoðana sinna eru ekki lengur öruggir í heimalandi sínu. Það er ekkert í samanburði við þær milljónir Úkraínumanna sem hafa verið á flótta vegna stríðsins og tugþúsundir sem eru drepnar. Með fordæmalausum fjöldafangelsunum í byrjun mars (meira en 5.000 manns voru í haldi í landinu 6. mars) hóta rússnesk yfirvöld almenningi og andspyrnuhreyfingu. Mótmælum gegn stríðinu í Rússlandi slotaði ekki – heldur tóku þau á sig aðra, listræna mynd. Eitt af lykilformum þessa mótmæla eru lög, plaköt, kvikmyndir og gjörningar.
Það hvort list er viðeigandi á stríðstímum hefur verið mikið rætt í Rússlandi, Úkraínu og fleiri löndum undanfarna sextán mánuði. Í mars 2003 sameinuðust um 150 leikhús í New York borg í Theaters Against War og stöðvuðu allar sýningar til að mótmæla innrásinni í Írak; ekkert hinna helstu leikhúsa í Rússlandi hefur stöðvað sýningar eftir 24. febrúar. En það skiptir máli að byrja á öðru miklu mikilvægara þema sem hefur verið að hrærast innra með listfræðingum og aktívistum í áratugi - getur list haft áhrif á það sem gerist? Og líka: er list fær um að stöðva stríð, leiða listaverk eða gjörningar til breytinga í samfélagi?
Þessi spurning vísar til gagnsemi listarinnar sem er helsta vandamál nýfrjálshyggjustjórna, sem benda stöðugt á það hvernig allt getur verið til gagns. Kapítalisminn og feðraveldið er hannað þannig að innan þeirra er liststarfsemi álitin sem eitthvað léttvægt - í samanburði við pólitíska, efnahagslega eða hernaðarlega starfsemi. Þess vegna, innan kapítalískrar hugmyndafræði, er listin alltaf í sjálfsréttlætingu, að sanna gagnsemi sína, þar á meðal innan mótmælahreyfingarinnar.
Gjörninga- og listaraktívismi getur gert fólk róttækara í mismiklum mæli, hjálpað við að taka upplýstar ákvarðanir, vakið og eflt áhrif og skapað einnig snertipunkta milli hópa, sem knýja áhrifin áfram. Og í þessum skilningi er list náttúrulega hluti af hreyfingu í átt að félagslegum breytingum.
Stríð er ekki einsleitt; eins og við sjáum í nútímastjórnmálum leiða aðgerðir og aðgerðaleysi ýmissa aðila smám saman til þess að stríð verður mögulegt. Og þetta er sameiginlegt átak allra. Einnig eru mótmælin gegn stríðinu sameiginlegt átak ólíkra aðila, þar á meðal eru listamennirnir. Hin sorglega spurning um áhrif listar á heiminn er í raun spurningin um hvort listin taki þátt í stjórnmálum til jafns við aðra. Því miður, í Rússlandi (sem og í Úkraínu og í mörgum öðrum löndum) er þetta enn opin umræða. Hingað til skilur menning sig víða frá pólitík. Þetta er dapurleg afleiðing af valdaráni yfirstéttahópa og firringu almennra borgara við ástandið.
Listin vekur áhuga fólks samtímis á mörgum mismunandi stigum. Listin getur breytt hugarfari fólks, byggt brýr til að aðskilja reynsluheima og, með margvíslegum túlkunum, stuðlað að margþátta sýn á veruleikann. Það er líka hægt að ná til breiðs markhóps, sérstaklega þar sem margar stofnanir fara nú með listaverkefni á opinbera staði. Öll hernaðarátök, jafnvel þótt þau eigi sér stað í afskekktari heimshlutum, verðskulda einbeitta og viðvarandi athygli almennings sem hvati fyrir pólitíska viðleitni til að leysa þessi átök.
List, listamönnum og listastofnunum er skylt að gefa samfélagslega mikilvægum málum gaum. List getur ekki komið í veg fyrir eða bundið enda á stríð, en hún hefur marga möguleika til að höfða til fólks, ná til þess á þann hátt sem enginn annar miðill getur.
Stríðið ógildir allan gervileika og tilraunir til að planta líkönum um viðeigandi hegðun í gegnum „réttar bækur eða myndir“. Það virkar ekki þannig. Stríðið hvetur okkur að skapa frásagnir sem eru enn óþekktar. Í listinni finnum við alltaf endurspeglun á veruleika samtímans. List sem fæddist í stríðinu mun tala fyrir okkur lengur en við lifum. Þess vegna er verkefni listamanna í dag að skrá allt, safna því saman á einn stað og koma því á framfæri til heimsins.
Victoria Bakshina, tungumálakennari og þýðandi