Image
""

„Til Moskvu.“

 

Og hvað svo?

„Og hvernig fer þetta svo allt saman?“

Undanfarið eitt og hálf ár hef ég ítrekað lent í að þurfa að takast á við þessa spurningu. Stutta svarið er auðvitað að enginn veit. Framtíðin er í eðli sínu óútreiknanleg, ekki síst á stríðstímum. Og þó eru nokkrar sviðsmyndir farnar að teiknast upp. Fyrst og fremst virðist um tvær að ræða.

Sú fyrri er einhverskonar Kóreulausn. Formlegir friðarsamningar eru ósennilegir en ef Úkraínumönnum tekst ekki að brjótast í gegnum víglínuna og útilokað er áfram að Rússum takist að sækja fram og gæti komið að því að samið verði um einhverskonar vopnahlé, sem ef til vill yrði illa haldið en kæmi þó í veg fyrir meiriháttar átök. Þetta er reyndar það sem átti sér stað í Donbas á milli 2015 og 2022 eftir að vopnahlé var samið í Minsk sem batt enda á meiriháttar átök án þess þó að stillt væri til friðar. Eitthvað álíka hefur einnig verið reyndin á landamærum Armeníu og Aserbaísjan. Og svo auðvitað á Kóreuskaga, þar sem stríðsástand hefur ríkt í 70 ár þótt ekki hafi meiriháttar átök átt sér stað þar síðan 1953. Ljóst mátti vera þegar í árslok 1950 að hvorugur aðilinn gæti haft sigur en þó liðu tvö og hálft ár í viðbót með miklu mannfalli þar til fallist var á vopnahlé. Og líklega skipti einhverju máli að Stalín dó í millitíðinni.

Stian Jenssen, aðstoðarmaður Jens Stoltenberg framkvæmdarstjóra NATO, sagði þann 15. ágúst að til greina kæmi að Úkraína gengi í NATO gegn því að sætta sig við missi þeirra svæða sem Rússar hafa hermunið. Þetta var strax borið til baka en er þó varla versta hugsanlega lausnin. Finnar misstu um 13 prósent landsvæðis síns til Rússa í seinni heimsstyrjöld en tókst að byggja upp blómlegt velferðarríki þrátt fyrir það. Þeir urðu ávallt að taka tillit til Rússa í utanríkismálum, sem kallað var Finnlandisering, og má því segja að Finnland hafi ekki orðið fyllilega sjálfstætt fyrr en við lok kalda stríðsins, eða jafnvel við inngönguna í NATO árið 2022. Ef Úkraínumenn fengju hins vegar fljótlega að ganga í NATO gætu þeir strax búið við meira öryggi en Finnar gerðu.

Innganga Úkraínu í NATO myndi auðvitað ganga gegn því sem Pútín álítur öryggishagsmuni Rússlands, en stríðið snerist heldur aldrei um það. Litlar líkur voru á að Úkraína gengi í NATO í byrjun árs 2022 og að auki bauð Selenskíj Pútín ævarandi hlutleysi gegn því að hernaðaraðgerðum yrði hætt eftir að allsherjarstríðið var hafið. Pútín hafnaði þessu og vildi stuðla að stjórnarskiptum og þar með taka yfir landið allt. Að ná yfirráðum yfir hluta þess gæti því talist takmarkaður sigur, enda má vera ljóst að um landvinningastríð var að ræða frá upphafi.

Helsti gallinn við friðarviðræður er sá að Pútín hefur margoft sýnt að honum er ekki treystandi til að standa við samkomulög, eins og Prígosjín lærði of seint. Úkraínumenn sjálfir komust að þessu þann 24. febrúar þegar Pútín hafði æ ofan í æ sagst ekki ætla að gera innrás en gerði hana samt.

Geta Úkraínumenn unnið?

Hinn möguleikinn er einfaldlega sá að Úkraínumenn vinni stríðið, en hverjar eru líkurnar á þessu? Sókn Úkraínumanna hefur vissulega gengið hægt en ef til vill er meiri furða að þeir skuli sækja fram yfir höfuð. Hin hefðbundna regla í herfræðum er sú að sóknarher þurfi þrisvar sinnum meira lið en varnarher. Úkraínumenn eru hér fáliðaðri og hafa ekki yfirburði í lofti, auk þess sem Rússar hafa búið vandlega um sig og lagt jarðsprengjur á stór svæði meðfram allri víglínunni. Eigi að síður sækja Úkraínumenn fram og það sem meira er, tekst að valda mun meira mannfalli í liði Rússa en þeir verða fyrir sjálfir.

Um tveir mánuðir eru eftir þangað til haustrigningar byrja og hefta allar hernaðaraðgerðir. Ósennilegt er að Úkraínumönnum takist að sækja alla leið til Svartahafs og skera víglínu Rússa þar með í tvennt á þessu ári, en ekki er útilokað að þeir nái til Melitopol og komist þannig hálfa leið. Þar með myndu birgðalínur Rússa til suðurvígstöðvanna lenda innan skotfæris og gera allar aðgerðir þeirra mun erfiðari. Og þótt sóknin gangi hægt er alltaf möguleiki á að einhverskonar hrun verði hjá Rússum ef þrýstingnum verði haldið áfram, hvort sem það verður á vígstöðvunum eða jafnvel á heimavelli, líkt og næstum gerðist í lok júní.

 

Móðurlandsstytta.

En hvað ef Úkraínumönnum tekst ekki að vinna meiriháttar sigur í haust? Líklegt er að stríðið þróist á þann veg að minna verði um stærri hernaðaraðgerðir í vetur. Rússar munu halda áfram að ráðast á innviði landsins en harla ósennilegt er að það takist öllu betur en síðasta vetur, þótt þeir kunni að valda nokkrum skaða. En er sennilegt að Úkraínumönnum takist það næsta sumar sem ekki tekst í ár?

Stærstur hluti þeirra vopna sem hefur verið lofað hafa enn ekki borist. Abrams skriðdrekar Bandaríkjamanna eru væntanlegir í haust en þeir þykja með þeim bestu í heimi. Loksins er byrjað að þjálfa úkraínska flugmenn á F-16 flugvélar frá Hollandi og Danmörku og Norðmenn ætla einnig að gefa Úkraínumönnum fimm-tíu F-16 vélar. Ekki er enn fyllilega ljóst hve margar munu berast þaðan en líklegt er að aðrar þjóðir munu fylgja í kjölfarið, enda búa NATO ríki yfir mörg hundruð F-16 flugvélum og sum þeirra óðum að skipta þeim út fyrir hina nýrri F-35.

Flugvélarnar munu þó ekki vera komnar í gagnið fyrr en á næsta ári og þýskar Taurus stýriflaugar gætu einnig verið á leiðinni. Eru þær mun öflugri en þær sem Úkraínumenn hafa þegar fengið. Enn sem komið er hafa klasasprengjur skipt hvað mestu máli, enda sprengja þær upp jarðsprengjur og hjálpa þannig Úkraínumönnum að sækja fram.

Image

Jarðsprengjuleitartækni. 

 

Framtíðarhorfur Rússa

Á einum vetri í viðbót geta Rússar byggt enn meiri varnir en spurning hvort hin nýju vopn vegi það upp. Og svo er jafnframt spurning um hvernig ástandið verði innanlands í Rússlandi næsta veifið. Viðskiptaþvinganir hafa enn sem komið er ekki fengið Rússa til að breyta hegðun sinni en það tekur tíma að þær nái fullri virkni og rúblan fer um þessar mundir hríðlækkandi. Hún lækkaði mjög á fyrstu dögum stríðsins en það tókst að ná henni aftur upp með aðstoð gjaldeyrishafta og hækkandi olíuverðs.  

Þetta virðist ekki lengur duga til. Rússar mega ekki selja olíu fyrir meira en 60 dollara á fatið og selja hana jafnvel ódýrara til Kína og Indlands þar sem þeir hafa ekki í önnur hús að venda. Jafnvel þótt eitthvað af þeirri olíu sé seld áfram til Vesturlanda lendir mismunurinn ekki í vasa Rússa. Rússneskur almenningur fer því stöðugt að finna meira fyrir stríðinu, auk þess sem drónaárásir á rússneskar borgir færast í vöxt. Álíka herkvaðning og gerð var síðasta haust er ekki líkleg til vinsælda. Efnahagur Úkraínu dróst saman um þriðjung við upphaf stríðs en í ár er spáð hagvexti upp á tvö til þrjú prósent. Áætlað er að efnahagur Rússlands dragist hins vegar saman um tvö til þrjú prósent á árinu. 

Ef ekki kemur til Kóreulausnar er allt eins líklegt að sviðsmyndin minni meira á fyrri heimsstyrjöld þar sem stríð heldur áfram með miklu mannfalli þar til að því kemur að annaðhvort ríkið hreinlega getur ekki meir. Úkraínumenn láta lítinn bilbug á sér finna og stuðningur Vesturveldanna hefur enn sem komið er haldist. Pútín virðist hafa styrkt sig í sessi eftir andlát Prígósjín og eftirlifandi hirðmenn hafa reynst tryggir hingað til. En við höfum séð fyrstu sprungurnar myndast.

Til mikils er fyrir Úkraínumenn að vinna að ná að brjótast í gegn næsta sumar. Forsetakosningar verða í Bandaríkjunum um haustið og ómögulegt að spá fyrir um hverjar afleiðingar þeirra verða. Sumir frambjóðenda Repúblíkana hafa lýst sig andvíga áframhaldandi stuðning og Donald Trump, sem er líklegasti frambjóðandi þeirra, er mikið ólíkindatól.

 Stríð sem endast í meira en nokkrar vikur standa oftast yfir í mörg ár, þar sem stríðsaðilar hafa þegar kostað svo miklu til að nauðsynlegt þykir að reyna að knýja fram sigur. Pútín hefur þegar lagt allt undir og Úkraínumenn hafa varla um annað að velja en að berjast vilji þeir halda áfram að vera til sem þjóð. Þann 24. ágúst fögnuðu þeir þjóðhátíðardegi sínum og er þá eitt og hálft ár síðan stríðið hófst. Er þetta í annað sinn að þjóðhátíðardagurinn er haldinn í skugga stríðs en koma mun í ljós hvort sá næsti verði haldinn í bjarma friðar.    

 

                                                          Texti og ljósmyndir: Valur Gunnarsson, sagnfræðingur, rithöfundur og blaðamaður.

 

Image

Húsbygging í Donbas sem sprengd hefur verið í tvennt.