Image
""

Vegglistaverk í Poltava.

 

Örlagaborg Svía í hjarta Úkraínu

Segja má að mörkin á milli austurs og vesturs hafi löngum legið innan núverandi landamæra Úkraínu. Eitt sinn lágu þau á milli Pólverja og Mongóla, síðar Austurríkismanna og Rússa. Nú liggja þau nokkru austar, í Donbas, og hart er barist um það hvar línan skuli dreginn.

            En eitt sinn lágu þau við bæinn Poltava norð-austarlega í Úkraínu, og hefðu hlutirnir æxlast öðruvísi þann 8. júlí 1709 hefðu þau ef til vill legið hér til frambúðar. Þann dag barðist Svíaher undir stjórn Karls 12. ásamt úkraínskum kósakkaher undir stjórn Ívans Maseppa við Rússa undir stjórn Péturs mikla. Svíar og Úkraínumenn töpuðu og Úkraína átti eftir að verða undir stjórn Rússa næstu tæp 300 ár.

            Strax á lestarstöðinni má sjá tvo minnisvarða um þær stórorustur sem hér hafa verið háðar, önnur 1709 og hin 1943 þegar nasistar voru hraktir brott. Á hæð yfir Podil, sem hér eins og í Kíev merkir neðri bærinn, eru styttur af bæði Pétri og Ívani Mazeppa. Sú af Pétri er öllu eldri og er hulin feluneti til að vernda hana frá loftárásum. Sú af Ívani er öllu nýrri, enda hann álitinn svikari bæði af keisurum og kommúnistastjórn sem öllu réðu hér um slóðir lengi vel, en hefur hann verið hafinn til vegs og virðingar í sjálfstæðri Úkraínu og er á 10 grivnu seðlinum.

 

 

Mynd til hægri: Minnisvarði um orrustuna 1709. 

Mynd til vinstri: Stytta af Ívani Maseppa.

 

Orrustan átti sér stað þar sem nú er útjaðar hinnar næstum 300.000 manna borgar og þar er safn að finna. Fyrir framan safnið er stytta af Pétri mikla sem hulin hefur verið svörtum plastpoka. Markmiðið hér virðist fremur vera að fela Pétur en að hylja hann, enda lét hann taka alla úkraínska stríðsfanga af lífi í kjölfar sigursins og er ekki hátt skrifaður hér í landi. Svíarnir voru hins vegar margir sendir norður að byggja hina nýju borg Pétursborg eða í fangavíst í Síberíu. Á hæð er stór minnisvarði til heiðurs þeim um rúmlega þúsund Rússum sem létust þennan örlagadag. Annar og minni er til heiðurs Svíum, sem misstu um 7000 manns, auk þeirra þúsunda sem voru teknir til fanga. „Tiden läkar sår“ (ísl. Tíminn læknar sár) stendur á þeim sænska. Kannski, en það tekur tíma.

 

 

 

 

Mynd til vinstri: Pétur mikli í plastskrúða. 

Mynd í miðju: Pétur mikli í felum bak við tjald. 

Mynd til hægri: Minnisvarði um látna Svía og þá sem voru teknir til fanga. 

 

Upprunaborg bókmennta

Segja má að Poltava liggi nálægt hjarta Úkraínu. Hér um slóðir fæddist Nikolai Gogol sem var af kósakkaættum en faðir hans orti á úkraínsku. Sumum Úkraínumönnum í dag þykir hann heldur vafasamur fyrir að hafa flutt til Pétursborgar og skrifað á rússnesku, og telja Rússar hann til sinna höfuðskálda. En fyrstu sögur hans gerast í úkraínskri sveit og ein þeirra segir frá kósakkahetjunni Taras Búlba. Og Poltavabúar halda upp á hann, hér eru minnismerki honum til heiðurs og garður með styttum af sumum helstu persóna verka hans, svo sem Taras. Ivan Kotliarevsky fæddist einnig hér um slóðir árið 1769 og var á fyrsti til að skrifa bókmenntir á úkraínsku og er hægt að skoða heimili hans. Þjóðarskáld Úkraínumanna Taras Sjevtjenkó ólst einnig upp hér í grendinni og það er stytta af honum, eins og reyndar í öllum borgum Úkraínu. Þá er einnig minnisvarði til heiðurs héraðsréttinum vareniki, fylltum dumplingum sem víða eru borðar í landinu.

 

 

 

Mynd til vinstri: Minnisvarði um Nikolai Gogol.

Mynd í miðju: Minnisvarði um Taras Búlba.

Mynd til hægri: Minnisvarði úr tré af Taras Búlba. 

 

 

 

Mynd til vinstri: Safn tileinkað Ivan Kotliarevsky, úkraínskum rithöfundi. 

Mynd í miðju: Minnisvarði um Taras Sjevtjenkó, þjóðarskáld Úkraínu. 

Mynd til hægri: Minnisvarði til heiðurs héraðsréttinum vareniki, fylltum dumplings. 

 

Helsta kennileiti borgarinnar er þó súla til heiðurs sigurs Rússa yfir Svíum og var reist á hundrað ára afmælinu 1809, reyndar sama ár og Gogol fæddist. Annar minnisvarði, Belaya Besedka, var reistur á hæð með útsýni yfir borgina á 200 ára afmælinu. Var hann rifinn í seinni heimsstyrjöld af Þjóðverjum sem komu fyrir loftvarnarfallbyssu á hæðinni en endurreistur eftir stríð.

Og Poltava gegndi sérstöku hlutverki í seinni heimsstyrjöld. Hér var flugvöllur sem Bandaríkjamenn höfðu afnot af og var sá eini í Sovétríkjunum sem stóð þeim til boða. Í borginni er stórt flugvélasafn og merkilegt nokk er það opið þrátt fyrir að vera við hliðina á herstöð, en reyndar er sá hluti þess sem fellur innan herstöðvarinnar ekki aðgengilegur almenning.

Mynd til vinstri: Súla til heiðurs sigurs Rússa yfir Svíum og var reist á hundrað ára afmælinu 1809.

Mynd til hægri: MIG-29 orrustuþota á flugvélasafninu í Poltava. 

 

Að flýja Rússa trekk í trekk

Hér má sjá orrustuþotu af gerð MIG-29 sem bæði Rússar og Úkraínumenn notast við í núverandi stríði. Sumir stöplarnir eru tómir, ætli einhverjir sýningargripanna hafi verið teknir í notkun? Safnið rekur ekki aðeins sögu bandarísku sveitarinnar heldur einnig kalda stríðsins þegar hinir fyrrum bandamenn stóðu andspænis hvor öðrum. Herbergi er til minningar um stríðið í Afganistan, þegar sovéskir hermenn drápu um milljón manns, flesta óbreytta borgara. Var meðal annars var klasasprengjum dreift sem skiptust upp í marglit brot og börn tóku í misgripum fyrir leikföng. Þannig misstu margir útlimi eða lífið og Rússar beita nú álíka vopnum í Úkraínu.

Olena vinnur á safninu en var áður kennslukona. Hún flutti ásamt eiginmanni sínum frá Donetsk árið 2014 þegar rússnesk-studdir aðskilnaðarsinnar tóku yfir borgina. Þaðan fluttu þau suður til Maríupol, en þegar Rússarnir komu þangað í fyrra fluttu þau til Poltava. Í Donetsk tókst þeim að selja húsið en þegar þau flýðu Mariupol misstu þau allt. Þeir sem missa hús sín vegna hernáms eða rússneskra sprengja eiga rétt á bótum en kerfið er þungt í vöfum enda nokkuð um að fólk reyni að misnota það. Hún segist ekki ýkja hrifinn af Poltava enda sé borginni illa viðhaldið. Og það er rétt að hér eru úthverfum fremur sovésk að sjá þrátt fyrir snyrtilegan miðbæ.

Olena segir þau búa í íbúð í eigu safnstjóra, en að sá sé að hugsa um að selja hana til að kaupa íbúð hana dóttur sinni sem flutti til Tékklands og ósennilegt að hún komi aftur. Þetta dugar þó varla til, þar sem íbúðaverð í Prag er mun hærra. Sjálf segist Olena hafa farið til Kharkiv um helgina og vildi helst flytja til stórborgarinnar. Og þangað höldum við næst.

 

                                                          Texti og ljósmyndir: Valur Gunnarsson, sagnfræðingur, rithöfundur og blaðamaður. 

Image
""
Image
""

Poltava.