Stytta af þjóðarskáldinu Taras Sjevtjenkó á aðaltorg Lviv.
Ráðist á reykvíska vinaborg
Lviv hefur löngum álitið sig úkraínskustu borg Úkraínu, enda sú eina af stórborgum landsins sem er nánast alveg úkraínskumælandi. Borgin var heldur aldrei undir yfirráðum Rússakeisara, ef undan eru skyldir nokkrir mánuðir við upphaf fyrri heimsstyrjaldar þegar Rússar hertóku hana.
Þegar Mongólar lögðu undir sig stærstan hluta þess sem nú er Úkraína á 13. öld lifði hér áfram sjálfstætt ríki sem hét Galisía-Volynía. Daníló konungur var krýndur af páfa sem er ein ástæða þess að héraðið hefur löngum talið sig evrópskara en aðrir hlutar Úkraínu og er grísk-kaþólska kirkjan enn sterk hér um slóðir en hún viðurkennir yfirráð páfa þrátt fyrir að halda í orþódox siði. Daníló stofnaði borgina Lviv árið 1250 og skýrði hana í höfuðið á syninum Lev. Þegar svo sonurinn tók við gerði hann borgina að höfuðstað sínum árið 1272. Á 14. öld varð svæðið hluti af hinu sameinaða pólsk-litháíska konungsríki en komst svo undir veldi Austurríkiskeisara með skiptingum Póllands á seinni hluta 18. aldar.
Á meðan bannað var að gefa út efni á úkraínsku í rússneska keisaradæminu á 19. öld voru bækur og blöð prentuð af miklum móð í úkraínskumælandi héruðum Austurríkiskeisara og þaðan smyglað yfir landamærin í austri. Átti þetta drjúgan þátt í verndun og síðar framgangi úkraínskrar tungu og því hafa íbúar vestast í Úkraínu löngum litið svo á að þeir gegni sérstöku hlutverki við að upphefja úkraínska menningu. Á 19, öld voru hins vegar flestir íbúar Lvivborgar pólskumælandi, en margir töluðu jafnframt jiddísku eða þýsku, svo sem rithöfundurinn Sacher-Masoch sem masókisminn er nefndur eftir. Aðeins um 15 prósent íbúanna voru úkraínskumælandi en úkraínska var ráðandi tungumál til sveita.
Í dag þykir borgin tiltölulega örugg. Meira að segja sum söfn eru opin, svo langt erum við frá vígstöðvunum, en í fyrra var margt lokað vegna árásarhættu. Í sögusafni á aðaltorginu eru munir frá hinum ýmsu tímabilum hafðir til sýnis en salurinn um 20. öldina er ekki opinn almenning. Ef til vill er sú saga enn í endurskoðun enda má segja að henni sé síður en svo lokið. 21. öldin hefur hingað til reynst blóðugur eftirmáli.
Reyndar má segja að borgin öll sé eitt stórt safn, eða í það minnsta miðbærinn, með glæstum 19. aldar byggingum frá tímum Habsborgara. Gluggarnir eru þó víða þaktir sandpokum og stálplötur hylja helstu kirkjuturna til að verja þá fyrir hugsanlegum sprengjubrotum. Það sama á við um aðrar borgir Úkraínu en hér er nokkuð öðruvísi umhorfs og minnir að öðru leyti mest á Mið-Evrópu.
Efsta myndin: Helstu byggingar í borginni eru varðar sandpokum.
Myndir til vinstri og í miðju: Minjar varðar með sandpokum.
Mynd til hægri: Maður spilar á gítar eftir loftárás.
Evrópskasta borg Úkraínu
Þegar austurrísku og rússnesku keisaradæmin leystist upp í fyrri heimsstyrjöld tókust Úkraínumenn og Pólverjar á um yfirráð yfir héraðinu á meðan borgarastríð geysaði í Rússlandi. Niðurstaðan varð á endanum sú að mestöll Úkraína féll undir yfirráð Sovétríkjanna en Lviv og nærliggjandi sveitir urðu hluti af Póllandi. Pólverjar ráku fremur harða tungumálastefnu þar sem allir áttu að læra pólsku, en héraðið slapp við hina manngerðu hungursneyð Holodomor og hreinsanir Stalíns á 4. áratugnum sem léku sovéska hluta Úkraínu svo grátt.
En borgarbúar átti ekki eftir að sleppa frá seinni heimsstyrjöld. Með griðasáttmála Hitlers og Stalín tóku Sovétríkin svæðið yfir og hreinsanir hófust. Þegar Hitler svo réðist á Sovétríkin komst borgin undir þýska stjórn en Stalín lagði hana aftur undir sig áður en stríði lauk. Hinir pólskumælandi íbúar voru fluttir burt, margir til héraða sem Pólverjar fengu af Þjóðverjum í skaðabætur í vestri. Gyðingarnir höfðu flestir verið myrtir af nasistum. Úkraínskumælandi fólk, sem alltaf hafði verið í meirihluta í sveitum, flutti inn og gáfu henni núverandi karakter.
Andspyrnuhreyfing barðist gegn Sovétmönnum langt fram á 6. áratuginn og sjálfstæðishreyfingar voru allar götur hvað sterkastar hér. Eftir fall Sovétríkjanna varð svæðið hluti af sjálfstæðri Úkraínu og hér voru hörðustu Evrópusinnana að finna. Það að borgin var úkraínskumælandi gerði það að verkum að margir borgarbúar töldu borgina gegna sérstöku hlutverki í viðgangi úkraínskrar menningar.
En þetta er reyndar óðum að breytast þar sem æ fleiri kjósa nú að tala úkraínsku frekar en rússnesku í flestum borgum, enda flestir landsmanna mæltir á bæði mál. Og erfitt er að halda því fram að Lvivbúar gegni sérstöku hlutverki í framgangi þjóðarinnar nú, þar sem fólkið í austur- og suðurhéruðunum hafa þurft að bera hitann og þungann af innrás Rússa. Og svo gott sem allir íbúar landsins eru orðnir Evrópusinnar. Jafnvel má segja að Lviv línan nái nú um land allt.
Og kannski má segja að Lviv sé sú borg Úkraínu sem mesta tengingu hefur við Ísland. Dagur Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur kom hingað í maí og undirritaði vináttusamning á milli borganna. Við sama tækifæri undirritaði stoðtækjaframleiðandinn Össur samstarfssamning við spítala í Lviv. Þá keypti MP fjárfestingarbanki banka hér árið 2007 og virðist hann hafa dafnað betur en ýmsar aðrar fjárfestingar það árið.
Úkraínski fáninn í gluggum á húsi í Lviv.
Loftárásin á Lviv
Margir hafa flúið hingað frá öðrum hlutum Úkraínu eftir að núverandi stríð hófst. Héðan er ekki aðeins tiltölulega langt á vígstöðvarnar heldur samgöngur til ESB greiðar, enda Pólland ekki langt undan. En í landi sem á í allsherjarstríði er öryggið aldrei algert. Þann 6. júlí gerðu Rússar árás á borgina með kalibr stýriflaugum frá skipum á Svartahafi.
Unga stúlkan á hostelinu á Romanchuka 15 talar ensku, sem ekki er alltaf sjálfgefið í landi þar sem rússneska hefur víðast verið kennd sem annað tungumál. Ég spyr hana hvort hún viti hvar svæðið sem ráðist var á er að finna. „Ætlarðu að fjalla um þetta eða bara skoða?“ spyr hún. „Ég ætla að fjalla um þetta,“ segi ég. „Segðu öllum frá,“ segir hún þá.
“Ég bý reyndar við hliðina á og var heima þetta kvöldið,“ bætir hún við. „Himinn varð blár um miðja nótt vegna bjarmans frá sprengjunum. Ég og kærasti minn földum okkur inni á baðherbergi þar sem enga glugga er að finna og við töldum vera öruggasta herbergið í húsinu. Þar héldum við utan um hvort annað þar til yfir lauk, og gælumýsnar okkar urðu dauðhræddar líka.“ Hún segir að gluggarnir hafi brotnað á útidyrahurð blokkar hennar en blokkin við hliðina á sé mun verr útleikinn.
Eftir um 20 mínútna gang komum ég og ferðafélaginn Börkur Gunnarsson að hverfinu. Við finnum blokkina þar sem stúlkan býr. Gluggarnir á dyrunum eru brotnir og einhver hefur bundið bangsa á hurðina. Ætli börn hafi dáið í árásinni?
Næsta blokk á eftir er talsvert verr útleikinn. Við sýnum blaðamannapassann og hermenn veifa okkur í gegn. Þakið hefur hrunið saman og efri hlutann á húsið vantar. Hjálparstarfsmenn eru enn að störfum enda átti árásin sér stað morguninn áður. Tíu manns létust. Sú elsta var 95 ára gömul og lifði af síðasta stríð en ekki þetta.
Við hliðina á blokkinni er skrifstofubygging þar sem flestir gluggarnir hafa fokið. Virðist það hýsa nokkurskonar nýsköpunarsetur, enda eru Úkraínumenn framarlega í tölvumálum eins og komið hefur í ljós í stríðinu. Fyrir framan stendur maður og spilar á kassagítar og syngur, eins og hann vilji færa aftur líf í húsið. Úkraínumenn segja minniháttar rafstöð hafa verið eyðilagða í árásinni og að 150 manns hafi orðið án rafmagns. Rússar segjast hafa verið að miða á herskóla í grenndinni, en hvort sem það er satt eða ekki hitta þeir sjaldnast það sem miðað er á. Og þó tekst þeim iðulega að drepa.
Síðar um kvöldið taka loftvarnarsírenurnar að óma þar sem við stöndum á lestarstöðinni. Maður gæti búist við að lestarstöðvar séu skotmörk, en þetta er ekki seinni heimsstyrjöldin og þar sem Rússar hitta aldrei er erfitt að segja að einn staður sé öruggari en annar.
Og þó eru hér senur sem eru eins og klipptar út úr kvikmynd um seinni heimsstyrjöld, aðeins klæðaburðurinn er annar. Ungir hermenn kveðja kærustur sínar á lestarpallinum áður en þeir halda aftur á vígstöðvarnar. Pörin vænta þess að hittast aftur einhvern sólríkan dag, en enginn veit hvernig eða hvenær það muni verða. Eða einu sinni hvort.
Texti og ljósmyndir: Valur Gunnarsson, sagnfræðingur, rithöfundur og blaðamaður.
Vegsummerki eftir loftárásina 6. júlí 2023.
Mynd til vinstri: Fötum dreift til fórnarlamba loftárása.
Mynd til hægti: Útimarkaður í Lviv.
Mynd til vinstri: Margir hafa flúið í öryggið í Lviv. Á skiltinu stendur; „Vinsamlega ekki neita að leigja húsnæði til fjölskyldna með gæludýr.“
Mynd í miðju: Landamæraverðir við störf í Pólandslestinni í Lviv.
Mynd til hægri: Stytta af Leopold von Sacher-Masoch, eins sona borgarinnar.
Grísk - kaþólsk kirkja í Lviv.