Saga Antons

Þegar Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014 snertu átökin aðeins hluta landsmanna í Úkraínu. Flestir Úkraínumenn héldu áfram sínu daglega lífi og veittu innrásinni takmarkaða athygli. Þegar Rússar hófu svo árásir á Úkraínu 24. febrúar 2022 kom stríðið inn á heimili allra Úkraínumanna. Fólk áttaði sig á því að það höfðu verið röng viðbrögð að hunsa stríðið í Donbas á sínum tíma því ásælni Rússa gagnvart Úkraínu jókst upp frá því. Auk Donbas, Lughansk og Krímskaga hafa Rússar nú náð undir sig stórum hluta af Zaporizhzhia og Kherson héruðum, sem rétt eins og önnur hernumin svæði, eru byggð af rússnesku og úkraínskumælandi íbúum. Rússar halda því fram að fólkið sem þar býr sé „þeirra Rússar“ sem dreymi um að vera hluti af Rússlandi, og að fólkið sé ánægt með að þeir hafi komið því til bjargar, úkraínskir ​​nasistar hafi ofsótt það og jafnvel bannað fólki að tala rússnesku. Þetta er alrangt. Mikill fjöldi rússneskumælandi Úkraínumanna hefur tekið þátt í að verja land sitt og heimili fyrir innrás Rússa af fúsum og frjálsum vilja. Fólkið sem berst fyrir landi sínu eru venjulegt fólk sem lifði venjulegu lífi, menn og konur sem unnu sem forritarar, leikarar, kennarar, matreiðslumenn, bílstjórar, pípulagningamenn, verkfræðingar o.s.frv. Margir vildu hætta lífi sínu fyrir frelsi eftir innrás Rússa og í flestum úkraínskum fjölskyldum er einhvern að finna sem hefur barist í stríðinu. Margir af bestu borgurum landsins berjast nú í framlínu átakanna til varnar Úkraínu, mörg hver í blóma lífsins og því miður munu þau ekki öll komast lífs af úr átökunum.  Hér á eftir er saga Antons Oleksandrovych, ungs manns frá Kherson, í frásögn móður hans og systur.

Í greininni eru lýsingar á ofbeldi og stríðsglæpum sem gæti reynst verið erfitt fyrir suma lesendur að lesa um.

 

Vildi vernda land sitt og frelsa undan Rússum

Iryna Leonidivna, eiginmaður hennar Oleksandr og dóttir þeirra Yulia Oleksandrivna bjuggu í Kherson þegar Rússar hertóku borgina. Sonur Irynu og Oleksandrs og bróðir Yuliu, Anton, bjó í Kiev þegar stríð braust út og starfaði sem pizzugerðarmaður. Innrás Rússa kom eins og þruma úr heiðskýru lofti og átti eftir að kollvarpa tilveru fjölskyldunnar.

Iryna er 52 ára og hefur búið í Kherson alla sína ævi. Foreldrar hennar voru Úkraíumenn, móðir hennar fra Kherson svæðinu og faðir hennar var frá Vinnytsia og þau töluðu öll úkraínsku í sínu daglega lífi. Oleksandr, eiginmaður Irynu, skilgreindi sig sem Úkraínumann þar sem hann var upprunalega frá Odessa. Faðir hans var rússneskur og móðir hans úkraínsk. Yulia og Anton fæddust bæði í Kherson og ólust þar upp. Þau gengu í úkraínskan skóla og stunduðu þar vinnu og lifðu góðu lífi, enda Kherson uppáhalds borgin þeirra. Heima fyrir talaði fjölskyldan rússnesku og úkraínsku. Fjölskyldan bjó við hernám Rússa í átta mánuði og það reyndist þeim mjög erfitt. Anton lærði húsasmíði og var við herskyldu í úkraínska hernum í tvö og hálft ár og þegar stríð braut út ákvað hann að gefa kost á sér í herinn á ný. Hann var kominn á vígstöðvarnar nokkrum vikum eftir að stríðið hófst.

„Hann hafði búið í Kyiv í eitt ár þegar Rússar gerðu innrás sína. Rússar hófu loftárásir á Kyiv og svæðið í kring. Hann sat í sprengjuskýli og horfði á öll þessi hræðilegu myndbönd af því hvernig Rússar drápu konur og börn í Mariupol. Hann gat ekki setið aðgerðalaus og óskaði því fljótt eftir að komast í herinn. Hann sagði: Ég horft upp á þetta. Rússar eru að misnota börn, nauðga þeim og drepa. Í Irpen var skriðdrekum keyrt yfir voru lík barna og fólks. Ég get þetta ekki lengur. Eitthvað verður að gera,” segir Iryna eftir syni sínum. Anton gaf þrisvar sinnum kost á sér sem hermaður til að berjast í stríðinu en umsókninni var hafnað því engin staða fannst fyrir hann. Síðan fannst staða fyrir hann með Úkraínsku landvarnarsveitum (úkr. TRO) í Kíev. Síðan var hann sendur í Azov hersveitina, innan úkraínska þjóðvarðliðsins sem áður hafði verið sjálfstæð hersveit. Þetta var í mars 2022.

Anton lærði fyrst húsasmíði. Hann var í hernum í tvö og hálft ár vegna herskyldu. Að lokinni herskyldi starfaði hann um tíma erlendis.  Eftir veruna erlendis snéri hann aftur til Kherson og vann á veitingastað. Hann flutti til borgarinnar Kyiv ári fyrir stríð eftir að vinir hans buðu honum að koma þangað, og vann þar á veitingastað sem pizzugerðarmaður.

 

 

Fengu sorgarféttir sendar með smáskilaboðum

Á meðan á hernáminu stóð yfirtóku Rússa símakerfið í Kherson og því var nauðsynlegt að nota rússnesk SIM-kort, sem voru þau einu sem hægt var að nota. Símtöl voru hleruð og þess vegna ekki hægt að eiga opinská samtöl. Rússar blokkeruðu úkraínskar sjónvarpútsendingar og aðgang að netinu, svo ekki var heldur hægt að eiga samskipti um netið. „Við vissum ekki að Anton var kominn í Azov hersveitina. Hann hélt því leyndu. Hann sagðist vera í landvarnarsveitunum og staðsettur nálægt Kíev“ Aðspurð segist Iryna ekki vita mikið um upplifanir sonar síns í fremstu víglínu. „Hann var á Kyiv svæðinu, Gostomel, Buchi og Irpen. Síðan við Dnipro, Zaporizhzhia og Donetsk. Honum var bannað að segja frá smáatriðum og ræða við fólk inni á hernumdu svæðunum. Þess vegna töluðum við varla saman,“ segir Iryna. Og hún heldur áfram frásögninni.  „28 maí skrifaði hann mér textaskilaboð: Mamma, við erum að fara í heraðgerð“.  Degi síðar var ekki lengur hægt að ná sambandi við hann,” segir Iryna.

Sambandsleysið og óvissan um Anton var fjölskyldunni mjög erfið, en svo bárust skilaboð sem enginn vill fá. „Við fengum skilaboð í símann: „Við samhryggjumst þér“. Ég skrifaði til baka: Yfir hverju samhryggist þið?Sonur þinn dó. Hann var í fimm manna hópi. Þeir keyrðu yfir jarðsprengju. Aðeins tveir komust lífs af, þeir sem sátu fremst – þrír létust. Það var ekkert farsímasamband og fjölskyldan gat því ekki náð sambandi við úkraínska herinn til að fá frekari upplsýingar um Anton eða hvernig dauða hans bar að. Á endanum komst nettenging á og fjölskyldan byrjaði að leita upplýsinga á netinu. ,,Svindlarar fóru að skrifa okkur. Það kom í ljós að það er ekki ráðlegt að skrifa eitthvað um sorg sína á netinu, vegna þess að slíkum upplýsingum er safnað af svikahröppum sem reyna að ná fé af fólki. Á hernumdu svæðunum gátum við ekki einu sinni hringt í gegnum netið, það var ekkert samband við aðra landshluta Úkraínu.“

Fjórum dögum eftir sprenginguna var dauði Antons staðfestur af öðrum unga hermanninum sem komst lífs af úr sprengingunni. ,,Við reyndum að ræða við hann, en hann treysti sér ekki til að tala við okkur vegna þess að önnur hljóðhimna hans hafði sprungið, hann fékk heilahristing og fótbrotnaði. Samskipti voru erfið. Hinn ungi hermaðurinn slasaðist líka mikið. En hann skrifaði okkur að hinir mennirnir í skriðdrekanum hefðu dáið,“ segir Iryna. Ungu hermennirnir voru tregir til þess að svara spurningum Irynu. Hún átti erfitt með að fá nákvæmar upplýsingar. Henni skildist að hermennirnir hefðu ekki athugað hvort Anton væri á lífi eftir sprenginguna. 

Fjölskyldan reyndi áfram að fá nákvæmari upplýsingar um hvernig dauða Antons bar að, en sem fyrr var síma- og netsamband í lamasessi.  „Það var ekki fyrr en fimmtán dögum síðar sem við náðum sambandi við aðila hjá úkraínska hernum sem gátu gefið okkur upplýsingar um Anton. Það var mjög erfitt að fá staðfestingu á því að þetta væri raunverulega hann sem hefði farist í sprengingunni,” Iryna.

 

 

Anton var aðeins 24 ára þegar hann fórst í sprengjuárás. Fjölskylda Antons fékk þriðju gráðu medalíu fyrir hugrekki.

 

 

Azov deildin þyrnir í augum Rússa

Iryna og Yulia segja að Rússum sé mest í nöp við Azov deildina af öllum herdeildum Úkraníu og til þess að vernda fjölskyldu sína hafi Anton leynt þær því að hann þjónaði í Azov herveitina. „Við vissum ekki að Anton var kominn í Azov hersveitina. Hann hélt því leyndu. Hann sagðist vera í varnarsveitum hersins og staðsettur nálægt Kyiv. Við komumst að því fyrst þegar hann dó, þegar við fórum að leita. Við vissum ekki hvar hann var eða hvað hann var.“

„Sonur minn vildi ekki segja okkur frá þessu því Rússarnir hefðu verið líklegir til þess skjóta okkur ef upp kæmist. Rússar skutu fjölskyldur úkraínskra hermanna, þeir voru að leita að þeim og fengu hjálp frá samverkamönnum. Þessir samverkamenn voru alls staðar, á skrifstofu saksóknara og í lögreglunni, þeir útveguðu Rússum lista yfir úkraínska hermenn og fjölskyldur þeirra. Rússar skutu heilu fjölskyldurnar, misnotuðu þær, nauðguðu konum.“

 

Systkinin Yulia og Anton á góðri stundu. 

 

Erfitt að lifa án Antons

Mæðgurnar ræða um yfirþyrmandi tilfinningar sem helltust yfir þær eftir dauða Antons. „Sorg, tár, hystería,“ segir Yulia. Hún fékk undanþágu frá yfirvöldum til þess að fá staðfestingu á dauða bróðurs síns. ,,Ég þurfti að tilkynna foreldrum mínum að bróðir minn hefði raunverulega dáið, að það væri í raun hann en ekki einhver annar sem væri í líkhúsinu. Ég bað um staðfestingu. Mér var sagt að lög Úkraínu banni að lík hermanna séu sýnd. Ég bað þá um skilning á þessum erfiðu tímum undir hernámi. Þá var mér sent myndband og ég sýndi foreldrum mínum það. Þau urðu fyrir hræðilegu áfalli. Mamma fékk hjartaáfall og var rænulítil í heilan mánuð.

Maðurinn minn er líka hermaður. Og ég er hrædd. Það yrði hræðilegt að missa ástvin aftur, án hans yrði allt mjög erfitt. Meira að segja 7 ára sonur okkar skilur að Rússland er slæmt, að Rússar séu að reyna myrða okkur öll. Hann hrópar meira að segja í svefni: „Mamma, þeir munu drepa okkur. Ég vil ekki lifa svona, ég vil ekki lifa eins og Antoshka okkar (Antoshka er gælunafn Antons).“ Með öðrum orðum, þetta hafði hræðileg áhrif á sálarlíf barnsins,“ segir Yulia.

Iryna lýsir því einnig hversu þungt fráfall sonar hennar hvílir á henni. „Mig langaði að öskra, gráta, klóra alla veggi. Við trúðum þessu ekki fyrr en seinna, jafnvel núna finnst okkur þetta ekki vera satt.  Mér líður eins og þetta sé allt vondur draumur. En maður getur ekki logið að sjálfum sér. Sársaukinn er óbærilegur. Það er aðeins sársauki, sársauki, sársauki. Ég get ekki útskýrt það, maður skilur það ekki nema upplifa það sjálfur. Hryllingurinn kemur innan frá,“ segir Iryna.

Irynu, Oleksandr, Yuliu og fjölskyldu hennar tókst á endanum að flýja Kherson og þau dvelja um þessar mundir í Kíev. Hernámið, sprengjuárásir og fráfall vina og ættingja hefur reynst þeim gríðarlega erfitt. Rússnesk eldflaug eyðilagði íbúð Yuliu og fjölskyldu hennar í Kherson en þau komust af eftir flóðið þegar Kakhovka stíflan brást. Það er erfitt að halda í lífslöngunina, enda missir þeirra er óbætanlegur og sárin munu aldrei gróa.

 

                                                                                  Klara Sibilova, nemi í íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands.