Image
""

Saga Dariu

Daria er 36 ára móðir, listakona að mennt sem bjó og starfaði sem listamaður í Kharkiv. Vegna fjölskylduaðstæðna flutti hún til foreldra sinna og systur í Melitopol í þorpið Myrne nærri borginni. Þar fann hún hvorki starf við myndlist né kennslu. Í örvæntingu sótti hún um vinnu í herdeild, skammt frá heimilinu og var ráðin sem matráðskona. Stríðið skall á Dariu í Mariupol meðan sonur hennar var hjá foreldrum hennar nærri Melitopol. „Í upphafi stríðsins var ég í Mariupol. Við unnum ýmis verkefni tengd bardögum. Um mánuði seinna hófst stríðið. Það skipti engu máli þó bandaríska leyniþjónustan varaði við stríði, enginn trúði því. Enginn átti von á þessu og það var mjög skrítið. Þó við höfum þegar séð hvernig Pútín talaði um að nú væri að koma að þessu, trúði enginn fyrr en það gerðist, jafnvel herforingjarnir efuðust. Það var skelfilegt, Rússar sprengdu Mariupol mjög, mjög harkalega. Já, ég skildi alls ekki hvað átti sér stað og fylgdi bara skipunum um hvað ég ætti að gera. Ég hélt ekki að ég myndi lifa það af, satt best að segja,“ segir Daria.

 

Mariupol

Daria getur ekki sagt frá upplifununum sínum í Mariupol og meðan á þjónustu hennar stóð, þar sem það tengist stríðinu. „Ég get aðeins sagt að þetta var skelfilegt, örvæntingin var mikil á meðal fólks. Það var fjöldi bíla en ekkert bensín og allir reyndu að komast burt af því að sprengjurnar féllu stöðugt. Ég veit ekki, á hálfrar mínútu fresti, jafnvel oftar þess að stoppa. Meðan við vorum þarna sprengdu Rússarnir án afláts. Því var ástandið hræðilega erfitt.“

 

Daria við störf í herdeildinni. 

Daria minntist þess tíma þegar hún var í byrgi með hermönnum Azov herfylkingarinnar. „Um tíma vorum við í Mariupol ásamt Azov-hermönnum í neðanjarðarbyrgi. Ég dáðist af því hversu þjóðræknir og hugrakkir þeir voru. Ég hef aldrei séð slíka hermenn, þeir voru vel undirbúnir og tilbúnir í þetta stríð. Þeir örvæntu ekki heldur brugðust við. Það var flott að fylgjast með þeim, þeir stóðu saman. Þetta vakti hrifningu mína, sem og ást þeirra til föðurlandsins. Ég hef aldrei nokkurs staðar kynnst jafn brennandi ættjarðarást.“

 

Sonur Dariu undir hernámi

Sem móðir var Daria óróleg vegna þess að sonur hennar var langt í burtu frá henni. Rússar hertóku Melitopol og nágrenni. Bæjarstjórinn í Myrne þorpinu vann með andstæðingunum. Þar með hófst líf heimamanna undir hernámi. Daria var áhyggjufull vegna ættingja sinna. „Ég hafði áhyggjur af því að barnið mitt yrði áfram á hernumda svæðinu. Við erum herfjölskylda. Bæjarstjóri þorpsins gafst upp fyrir Rússum og gekk til samstarfs við þá. Ég hafði miklar áhyggjur af því að barnið mitt væri þarna, ég er hermaður. Rússarnir geta tekið ættingja mína. Þeir gætu myrt foreldra mína og tekið barnið mitt. Ég spurði yfirmenn mína hvað ég ætti að gera. Ég hafði áhyggjur af því að Rússar rændu syni mínum og kúguðu mig til að veita einhverjar upplýsingar eða til að koma. Rússarnir gætu gert hvað sem er. Ég gat ekki fengið neina hjálp. Foreldrar mínir,ásamt systur minni og syni mínum yfirgáfu hertekna svæðið á eigin spýtur. Eftir tveggja mánaða hernám. Á þeim tíma voru nokkrar rýmingarrútur. Þau voru heppin því seinna leyfðu Rússar ekki opinbera rýmingu. Fólk leitaði þá leiða til að komast og tók áhættur. Þetta var minn versti sársauki því ég hafði miklar áhyggjur af ættingjum mínum. En allt gekk að óskum hjá þeim og mér var létt.“

 

Vill ekki búa meðal svikara

Heimili Dariu er enn hertekið. Fjölskyldan veit ekki hvort hún geti snúið aftur. Íbúðin var yfirtekin af Rússum sem búa þar. Daria vill ekki lifa meðal svikara. Henni finnst óþægilegt að vera meðal fólks sem henni skilst að hafi stutt Rússa. Daria skilur ekki hvernig sumir heimamenn geta stutt og sameinast Rússlandi: „Þetta er óskiljanlegt. Það er enn fólk á okkar svæði sem styður Rússa. Yfirleitt fólk yfir fimmtugu. Vegna þess að þau fá meiri lífeyri, ókeypis lyf (svo segja þeir), ókeypis skurðaðgerðir og ódýrt bensín. Og það er allt, fólk er svo eigingjarnt, það seldi sig fyrir þessa þægindi, og líkar við það. Og það hefur ekki áhuga á því sem Rússland hefur gert við aðrar borgir, Melitopol borgin sjálf varð ekki fyrir eins miklu og Kherson eða Mariupol. Fólk upplifði ekki eins mikla sorg og því eru margir ekki á móti Rússum.Og fólki er alveg sama þó að Rússar geti tekið heimili eins og mitt hvenær sem er. Þeir brutust bara inn í íbúðina okkar og búa þar. Því vil ég ekki að fara þangað aftur. Ég get ekki ímyndað mér hvernig ég mun búa þarna meðal þessa fólks, kunningja minna, vitandi að þeir voru ekki á móti Rússum. Þetta fólk gefur eftir, enn undir áhrifum frá tímum Sovétríkjanna, með svo veika meðvitund. Ég get ekki ímyndað mér hvernig við munum halda áfram að búa meðal þeirra. Ég er að hugsa um að búa í mið- eða vesturhluta Úkraínu. Þó ég skilji að það verði að vera fólk á mínu svæði til að sýna ættjarðarást í garð Úkraínu. Ég sem kennari gæti lagt mitt af mörkum. Svo ég veit það ekki, þetta er svo mikil sorg. Fyrrverandi eiginmaður minn er núna í Moskvu og er „fylgjandi friði.“ Hann hringdi meira að segja í mig og spurði hvernig ég hefði það. Og ég spurði hann: „Hvernig hefur þú það, af hverju ertu í Moskvu?“

Hann svaraði: „Jæja, ég er hér, ég á ættingja hér og vinnu.“ Hann er súkkulaðimeistari - hann framleiðir súkkulaði fyrir Moskvubúa. Hann bæði ólst upp og bjó í Úkraínu. Afstaða hans er „fyrir frið.“ Hann vinnur þarna, borgar skatta og vorkennir hann ekki fólkinu í Úkraínu, vinum sínum?

Ég átti líka svona vini sem fluttu til Rússlands og eru „fyrir frið“. Þetta er svo prinsipplaust fólk, ég hef ekki lengur samband við þau. Vegna þess að það er ómögulegt að eiga samskipti við þannig fólk, eftir að hafa upplifað svo mikla sorg, að sjá þjáningar fólksisn og sársauka.“

Image
""

Endurskoðun gildanna

Daria er ein af þeim sem endurskoðuðu lífið fyrst eftir 24. febrúar 2022. Milljónir Úkraínumanna fylgdust ekki með atburðunum árið 2014 og héldu áfram að lifa með lokuð augun. Fyrir þeim voru Rússar saklaus bræðraþjóð. Því miður hlaut innlimun Krímskaga og innrás Rússa í Donbas ekki ekki aðeins takmarkaða athygli á Vesturlöndum, heldur einnig í Úkraínu. Þar töldu milljónir að þetta væri ekki alvarlegt og myndi líða hjá. Þetta var fólk frá þessum svæðum í Úkraínu sem ekki varð fyrir áhrifum af stríðinu. Því var það óraunhæft fyrir Dariu að Rússar myndu gera opinberlega árás.

„Ég trúði því ekki, því að ómeðvitað hef ég líklega enn litið á Rússa sem bræðraþjóð. Ég hélt að staðan í Donbas og Krím væri misskilningur sem yrði leystur fljótlega. Að líklega væri þetta vegna þess að íbúar Donetsk, Luhansk og Krím veldu Rússland, semsagt innbyrðis átök milli Úkraínumanna með aðstoð Rússa. Þegar Rússar réðust á okkur 24. febrúar 2022 snérist heimur minn á hvolf. Við höfum öll lært. Við skildum og hættum að eilífu að líta á Rússa sem bræður eða fólk með svipað hugarfar,“ segir Daria.

„Árásargirni Rússa hafði djúpstæð áhrif á mig, þessi ómannúðlega illska og grimmd í garð alls fólks, óbreyttra borgara og hersins. Það rís á þér hárið ef þú sérð pyntingarklefa Rússa á hernumdu svæðunum. Eitt snerti mig þannig að ég mun líklega ekki gleyma því það sem eftir er ævinnar. Í kjallaranum fundu hermenn okkar blóðlitaða sög til viðarskurðar, hníf, lóðajárn og bleika skó lítillar stúlku, um 4 ára. Geturðu ímyndað þér þennan hrylling? Og enn ein sagan frá hernumdu Melitopol. Rússneskir hermenn fylgdu ungum úkraínskum dreng á sjúkrahús til að fá hjálp eftir pyntingarnar sem hann þufti að þola. Þegar hann var skilinn eftir einn á deildinni, stökk hann út um gluggann og hrapaði til bana. Dauðinn var betri en lífið sem „bræður“ okkar útveguðu honum. Það sem Rússar gera fólki og börnum er þvílíkur sársauki og heift. Ég hætti að líta á Rússa sem fólk, þeir eru dýr. Þess vegna breyttist allt í hausnum á mér. Ást mín til föðurlandsins og tungumálsins óx. Fyrir stríð talaði ég rússnesku, því í suðurhlutanum var það dæmigert þó fólkið kunni úkraínsku. Nú eru fjölskylda mín og vinir að reyna að tala úkraínsku líka. Við urðum þjóðrækin og heilluðumst af öllu sem tengist Úkraínu. Mig langar virkilega að fara aftur til allra landssvæðanna, til að snúa aftur heim. Sérstaklega þegar þú hefur heimsótt framandi land, metur þú menningu þína, heimaland þitt, jafnvel þessar gresjur, hita, hveiti, ég elskaði allt, fólkið mitt, satt að segja. Þetta er svona endurmat á gildum sem fram fór í höfðinu. Ég skil að fólk í landinu eigi að vera menntað, siðfágað og reyna að stefna í átt að lýðræði. Vegna þess að allur þessi einræðisheimur með einræðisherrum er hinn austræni heimur sem leiðir aðeins til yfirgangs og sorgar. Því er ég mjög ánægð með að Úkraína hafi alltaf barist af hugrekki fyrir lýðræði, og að við gerðum byltingar, að þjóð okkar er ekki eins og Rússar. Rússar eru undirgefnir, heimskir, grimmir.“

Daria sagði upp vinnunni í herdeildinni í október 2022 og fór að búa með syni sínum og foreldrum. Hún á unnusta í hernum og viðurkennir að, það að hafa ekki séð ástvin sinn í á annað ár og kvelji hana mikið. Hún byrjaði að taka þunglyndislyf vegna þess að hún ræður ekki við sársaukann. Nú er Daria á Íslandi með syni sínum og segir aðstæður mjög góðar hér. En það er samt erfitt fyrir hana að lifa einföldu lífi þegar slíkur hryllingur á sér stað í Úkraínu gegn fólki, ástvinum hennar og hún segir: „Ég lifi einn dag í einu og ég lifi í trú.“

Daria er ánægð á Íslandi en saknar unnusta síns sem er í hernum í Úkraínu. 

 

                                                                                  Klara Sibilova, nemi í íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands. 

Image
""

Teikning eftir Dariu. Myndin táknar úkraínskan her, fólk og land eru á brúninni og aðeins trúin á bjarta framtíð heldur þeim gangandi.