Sjálfstæðisdagur Úkraínu 24. ágúst
День Незалежності України – Sjálfstæðisdagur Úkraínu 24. ágúst
Alla 20. öldina stóð Úkraína frammi fyrir bylgjum erlendra yfirráða og hernáms. Margir íbúar reyndu, þrátt fyrir ofsóknir, að standa vörð um tungumál sitt og hefðir. Tímamótin urðu seint á níunda áratugnum þegar vindar breytinga fóru yfir Austur-Evrópu. Úkraínumenn kröfðust aukins sjálfræðis og viðurkenningar á tungumáli sínu og menningu. Og þann 24. ágúst 1991 lýsti Úkraína yfir sjálfstæði sínu frá Sovétríkjunum, sem þá voru á barmi hruns. Þann 1. desember sama ár samþykktu íbúar yfirlýsinguna í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem 90,3% kusu sjálfstæði.
Síðan 1991 hefur úkraínski sjálfstæðisdagurinn verið haldinn hátíðlegur árlega með skrúðgöngum, menningarhátíðum og viðburðum um landið allt. Í fyrra staðfesti Menningarmálaráðuneyti Úkraínu að engin opinber hátíð yrði haldin í tilefni sjálfstæðisdagsins. Embættismenn vöruðu óbreytta borgara við að safnast saman í stórborgum, og Zelenskyj forseti sagði: „Rússland gæti reynt að gera eitthvað sérstaklega viðbjóðslegt, eitthvað sérstaklega grimmt.“ Í Kyiv var hátíðar-göngunni aflýst og í yfirlýsing frá ráðhúsinu sagði: „Í ár fagnar Úkraína sjálfstæðisafmæli undir herlögum og hótunum um mögulega skotárás. Fjöldaviðburðir eru bannaðir, því að óvinurinn er óútreiknanlegur, svo við verðum að vera viðbúin hvaða atburðarás sem er.“ Í stað skrúðgöngu voru fjölmargir rússneskir skriðdrekar og vopn sem úkraínskir hermenn eyðilögðu sýnd meðfram Khreshchatyk. Þar flutti Zelenskyj ræðu til að minnast afmælisins og hvetja til sigurs úkraínskra borgara. Hann kallaði meðal annars eftir réttlæti fyrir eyðilagðar borgir eins og Mariupol.
Á Íslandi hittast Úkraínumenn og fagna sjálfstæðisdegi landsins þann 24. ágúst, m.a. á Aflagranda 40 í Reykjavík kl. 17.00-20:00 og í Ásbrú Keili í Reykjanesbæ kl.19:00.
Hér má sjá myndir frá baráttu Úkraínumanna fyrir sjálfstæði á níunda og tíunda áratug síðustu aldar:
https://www.rferl.org/a/31994070.html