Staða úkraínskra safna, breytt hlutverk og varðveisla verka á stríðstímum

Á stríðstímum er menning líka vopn. Mörg dæmi eru um að Rússar eyðileggi vítisvitandi miðstöðvar úkraínskrar sjálfsmyndar og menningararfleiðar. Starfsfólk á menningarstofnunum í Úkraínu gerir allt hvað það getur til að tryggja varðveistu menningararfsins og einnig til að bæta líðan almennra borgara. Þegar starfsfólk leikhúsa, safna og annarra menningarstofnanna höfðu náð áttum eftir áfallið á fyrstu dögum innrásarinnar, þá fóru þau að aðstoða fólk við það nauðsynlegasta. Því jafnvel á stríðstímum eiga listagyðjur ekki að þegja. Þess vegna héldu leikhús áfram sýningum og menningarviðburðir fóru aftur af stað frá vori 2022, aðeins nokkrum vikum eftir innrás Rússa í Úkraínu. Listin hjálpar Úkraínumönnum að takast á við áföll, venjast nýjum veruleika, sameinast og varðveita sjálfsmynd sína.

 

Skjól

Margar menningarstofnanir víðsvegar um Úkraínu hafa breytt húsnæði sínu í athvarf fyrir flóttamenn eftir að innrásin hófst. Starfsfólk og sjálfboðaliðar tóku höndum saman og gerðu bráðabirgðaskýli í kjöllurum margra safna þar sem boðið var upp á þægilega og örugga dvalarstaði fyrir fólk sem kemur þangað til að gista, borða og hvíla sig. Mörg söfn Vestur-Úkraínu urðu að skjóli fyrir fólkið frá Austur-Úkraínu.

Söfnin halda áfram að bjóða upp á stuðning og gagnleg námskeið fyrir almenning. Í lok febrúar 2022 byrjaði nútímalistasafnið í Lútsk í norðvesturhluta Úkraínu að halda ókeypis námskeið í skyndihjálp og bardagaþjálfun fyrir alla. Í mars 2022 hóf safnið verkefnið Art Battalion eða Listaherfylki, listamaraþon sem mun standa yfir fram að sigri Úkraínu. Þann 8. júní 2022 hóf safnið allsherjarstarfsemi sína á ný. Allur ágóði af miðasölu rennur til framleiðslu á hlífðar- og öryggisfatnaði, sjúkrakössum,  og sérhönnuðum bakpokum og öðrum búnaði fyrir lækna í fremstu víglínu.

 

Neyðaraðstoðarmiðstöð safna

Auk þess að leggja úkraínskar menningarmiðstöðvar í rúst eyðileggja Rússar líf og heilsu fólksins sem vinnur þar. Þess vegna felst annað mikilvægt verkefni fyrir menningarstofnanir í því að aðstoða samstarfsfólk frá hernumdum svæðum og flytja verk þaðan ef þörf krefur. Sérstaklega á þetta við um söfn sem þarfnast sérstakrar verndar vegna mikilvægs safnkosts síns út frá menningararfleifð. Safnið í Slavjansk, Donetsk-héraði, er dæmi um safn þar sem vel tókst til um slíka björgun. Safnið inniheldur meira en 30 þúsund gripi. Stjórnvöld útveguðu safninu allt sem til þurfti. Pökkunarferli og flutninga önnuðust opinberar stofnanir. Starfsmenn halda því leyndu hvar gripum safnsins var komið fyrir. Til öryggis.

Til að bregðast við áskorunum var, Neyðaraðstoðarmiðstöð safna (Музейний кризовий центр), stofnuð í mars 2022 sem grasrótarverkefni af Olgu Honchar, menningarfræðingi og forstöðumanni safnsins SVÆÐI ÓGNAR (ТЕРИТОРІЯ ТЕРОРУ), minningarsafns um alræðisstjórnir sem er staðsett í Lviv. Þetta verkefni hefur orðið eins konar brú á milli þeirra sem vilja hjálpa og þeirra sem þurfa á þessari aðstoð að halda. Aðaláherslan er lögð á að aðstoða söfn í suður-og austurhluta Úkraínu. Byggðasafnið í Lúhansk starfar til dæmis nú á vettvangi Tериторія Tерору.

Teymi Neyðaraðstoðarmiðstöðvarinnar fær bæði óskir um stuðning við söfn á þeim svæðum sem barist er, sem og beiðnir um aðstoð við einstaka starfsmenn safna sem starfa þar áfram. Starfsmenn miðstöðvarinnar leggja mat á hvers konar aðstoð sé þörf. Þetta getur verið flutningur fólks frá hernumdum svæðunum, útvegun skotfæra fyrir starfsmenn safna sem hafa verið kvaddir í herinn, aðstoð fyrir starfsmenn sem eru eftir að vinna á söfnum eða fjárhagslegur stuðningur fyrir safnastarfsmenn sem eiga í erfiðleikum með að fá launin sín greidd. Frá því í júlí 2022 hefur Neyðaraðstoðarmiðstöð safna veitt 758 manns stuðning af einhverju tagi. Þessi hópur starfar við samtals 148 söfn í 10 héruðum í Úkraínu.

Neyðaraðstoðarmiðstöð safna hjálpar einnig úkraínskum söfnum að halda samstarfi sín á milli. Einn af lykilþáttum í starfi miðstöðvarinnar er upplýsingagjöf. Olga Honchar dregur vandamál sem menningarstofnanir glíma við vegna stríðsins fram í dagsljósið og gerir þau sýnilegri. Hún deilir reynslu sinni af þessu starfi á ýmsum vettvöngum og ráðstefnum. Hún hvetur alla til að fylgjast með Facebook-síðu Neyðarmiðstöðvar safna og leggja því lið eftir megni.

 

Atriði úr sýningunni Úkraína – krossfesting. Heimild: Safn um sögu Úkraínu í seinni heimstyrjöldinni.

 

Україна – розп'яття: sýningin Úkraína – krossfesting: Verk um stríð á meðan á stríði stendur

Þrátt fyrir sprengjuárásir og aðra hættu sem stafar af hernaði Rússa, hafa mörg söfn haldið áfram  starfsemi sinni og sýningarhaldi. Þann 8. maí 2022, daginn sem sigurdeginum er fagnað víða í Evrópu, opnaði Safn um sögu Úkraínu í seinni heimstyrjöldinni sem staðsett er í Kænugarði sýninguna Úkraína – krossfesting – fyrstu sýninguna um stríðið í landinu og heiminum. Það líður venjulega talsverður tími áður en safnið tekst á við sögulega atburði með sýningu. Ákveðinn skilningur á atburðum þarf að vera til staðar. Sagnfræðingar, félagsfræðingar og aðrir vísindamenn þurfa að hafa fjallað um þá. Ekki fyrr geta starfsmenn safnsins hafið undirbúning sýningar. Úkraína – krossfesting veitir áhorfendum einstakt tækifæri að fylgjast með sögu sem er enn í mótun. Þrátt fyrir trúarlegan blæ titilsins miðar sýningin ekki að því að sýna Úkraínu sem píslarvott eða fórnarlamb. Tilgangur sýningarinnar er fyrst og fremst að sýna hluti sem tengjast innrás Rússlands en vinna við sýninguna hófst í lok mars 2022. Eftir frelsun Kænugarðs og Tsjerníhív svæða þegar í byrjun apríl fóru starfsmenn safnsins í leiðangra til borga sem lagðar höfðu verið í rúst á borð við Irpin og Bucha, þorpanna Borodianka, Hostomel og Makarov, Mikhailovka-Rubezhovka, Andreevka, Lipovka, Makovishche, Stoyanka, Lukianovka, Peremoga og fleiri staða. Nú leitast safnið við að sýna hræðilegan veruleika þessa stríðs fyrir heiminum á hlutlægan hátt.

Meðal gripa sýningarinnar eru stígvél og einkennisbúningar rússneskra hermanna, matarbyrgðir  þeirra, til dæmis kálsúpa í glerkrukkum. Einnig eru þar skjöl um rússneska herliðið, bæklingar, kort. Meira að segja fartölvur sem Rússar földu í skotheldu vestunum sínum. Einn af hápunktum sýningarinnar er helgimyndin Stigið niður af krossinum sem jarðsprengjubrot er fast í. Helgimyndin er úr kirkju heilags Demetríusar frá Rostov sem staðsett er í þorpinu Makarov í nágrenni Kænugarðs, en rússneskir hermenn eyðilögðu hana.

 

Helgimynd með jarðsprengjubrotum. 
 

 

Á sýningunni eru einnig einstakir gripir sem vísa beint til stríðsrekstursins. Þar á meðal er kort af árásum sem skemmdarverkahópar höfðu undirbúið á Kænugarð og næstum allar tegundir vopna sem finna má í vopnabúri Rússa og notaðar eru til að eyðileggja úkraínskar borgir. Viðvaranir um hættu á eldflaugum eða loftárásum, vinnu loftvarnarsveita eða komu þeirra urðu daglegt brauð fyrir Úkraínumenn. Milljónir Úkraínumanna lifa í umhverfi þar sem venjulegir kjallarar eru öruggustu staðirnir. Á sýningunni getur maður fengið innsýn inn í raunveruleika lífs fólks í einu af skjólum þorpsins Hostomel. Líf íbúa sprengjuskýlisins er endurskapað með gripum sem fengnir voru úr skýlinu sjálfu.

 

Sprengjuskýli í Hostomel endurskapað.

Sprengjuskýli í Hostomel endurskapað.

 

Auk þessarar sýningar starfar safnið einnig á öðrum sviðum sem tengjast stríðinu. Þar sem aðalsýning safnsins um seinni heimstyrjöldina er ekki opin núna, mátti nýta rými safnsins til að búa til ný sýningarsvæði. Þar stendur nú meðal annars yfir verkefnið Píslarvottorð. Börn sem er tileinkað börnunum sem hafa látist eftir að allsherjarinnrásin hófst. Einnig er til sýningin Láns- og leiguaðstoð. Endurræsing sem vísar á bug sovésku goðsögninni um óverulegt framlag bandamanna til sigurs á nasistum. Safn um sögu Úkraínu í seinni heimstyrjöldinni er orðið eins konar staður fyrir þá sem vilja skiptast á reynslusögum um yfirstandandi stríðsárekstur og ætlunin er að halda þessari áherslu í starfi safnsins þangað til Úkraína sigrar:

„Síðan 2014 höfum við safnað gripum, búið til sýningar, sagt heiminum frá atburðunum á Krímskaga, stríðinu í Donbas, og við hugsuðum ekki, datt það ekki í hug, grunaði ekki, við trúðum ekki að Rússland ætlaði að hernema alla Úkraínu. Nú er atburðarás stríðsins að breytast hratt, óvinurinn vill ekki slá af markmiðum sínum og baráttan heldur áfram. En það verður svo sannarlega sigur. En þá verður ljót mynd stríðsins vera með okkur að eilífu á ljósmyndum og myndböndum, en hlutir, vopn, búnaður gegnsýrður viðurstyggilegum anda þess verður hér á stríðssafninu“ – sagði Yuri Savtsjúk, forstöðumaður safnsins í viðtali við NV LIFE.

 

Stolin saga

Auk hefðbundinna rána og voðaverka allt frá upphafi innrásarinnar, hefur rússneski herinn vísvitandi lagt í rúst menningarstofnanir og eyðilagt gripi sem margir hverjir hafa sögulegt gildi.

Meginmarkmið „sérstakrar hernaðaraðgerðar“ Rússlands í Úkraínu voru upphaflega sögð vera „afnasistavæðing“ og „afvopnun“. Eftir því sem líður á stríðið virðist „afmenningarvæðing“ hafa bæst við. Rússneskir hermenn ræna ekki aðeins á heimilum Úkraínumanna, fjarlægja heimilistæki eins og þvottavélar til að senda heim til sín, heldur stela sögu og menningu Úkraínu. Þetta er ekkert nýtt. Árið 1918 stundaði Rauði herinn undir forystu Mikhails Muravyov rán og gripdeildir í Kænugarði í nokkrar vikur. Sovéskir embættismenn héldu áfram með sama hætti.  Árið 1934 voru einstæðar freskur og mósaíkmyndir af Demetríus frá Thessaloniki frá 12. öld teknar niður og fluttar til Moskvu. Andspyrna gegn stalínískri kúgun var vonlaus á þeim tíma. Rússar sögðust hafa farið með gripina á sýningu en mósaíkmyndunum var aldrei skilað. Með því að beita miklum þrýstingi tókst að fá hluta af freskunum aftur til Kænugarðs. Mósaíkmyndirnar eru enn í Tretjakov-safninu í Moskvu.

Önnur bylgja rána átti sér stað í seinni heimsstyrjöldinni. Bæði innrásarher nasista og sovéski herinn stálu úkraínskum menningarverðmætum. Sovéski herinn tók sýningargripina undir því yfirskini að það þyrfti að flytja burt gripina tímabundið. Eftir fall Hitlersstjórnarinnar skilaði Þýskaland stolnum munum en ekki beint til safna, heldur til ríkja. Þannig enduðu tugir milljóna safngripa í Moskvu, höfuðborg Sovétríkjanna.

Þegar Úkraína öðlaðist sjálfstæði 1991 var aðeins um 150.000 gripum skilað á söfn. Þetta var aðeins hluti þeirra muna sem höfðu verið teknir ófrjálsri hendi. Eftir innlimun Krímskaga árið 2014 fóru rússneskir fornleifafræðingar að kanna þessi svæði og söfn og flytja fenginn til Rússlands. Eftir allsherjarinnrásina „rýmdi“ árásaraðilinn söfn á hernumdu svæðunum, t.d. Kherson sem var hernumin í átta mánuði.

Kherson var hertekin á fyrstu dögum stríðsins og brot á alþjóðalögum og stríðsglæpir rússneska hersins héldu þar áfram þrátt fyrir gerviþjóðaratkvæðagreiðslu og innlimun í Rússland. Mörg dæmi eru um að rússneskir sérfræðingar hafi tekið að sér að aðstoða rússneska hermenn við að velja muni og fjarlægja þá. Þessi sérfræðingar þekktu söfnin iðulega vegna samstarfs síns við þau og kollega þar fyrir stríðið. Eftir frelsun borgarinnar varð það ljóst að Rússar höfðu vísvitandi rænt og fjarlægt gríðarlegan fjölda sögulega verðmætra gripa. Að minnsta kosti 15.000 einstökum listaverkum hefur verið stolið sem er mesti þjófnaður á menningarverðmætum síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Rússneskar hersveitir hafa rænt meira en 30 söfn og unnið spellvirki á þeim – þar á meðal nokkur í Kherson, en einnig söfn í Maríúpol og Melitopol, þar sem gulli Skýþa var stolið. Þessar borgir eru enn á valdi Rússa. Þar sem úkraínskir séfræðingar vinna enn að því að skrá horfna gripi og listaverk er líklegt að fjöldi horfinna muna muni aukast.

Mörg söfn geta ekki lengur gegnt hlutverki sínu, til dæmis Kherson byggðasafnið, sem er elsta safnið í suðurhluta Úkraínu. Gripum þar hefur verið safnað síðan á 19. öld. Safnið innihélt gripi frá skýþískum og forngrískum tímabilum, frá tímum kósakka og rússneska heimsveldisins. Nú eru salir safnsins tómir. Sömu örlög hlaut Listasafn Khersonborgar. Verk eftir Aivazovskí, Vrubel og Kontsjalovsky svo dæmi séu nefnd eru horfin- aðeins nöfnin á merkimiðum tómra ramma voru eftir af málverkunum. Á safninu voru listaverk frá 17.–20. öld, þar á meðal meistaraverk franskra, þýskra og ítalskra listamanna. Af meira en 13 þúsund sýningargripum var 80% stolið. Eftir stóðu aðeins nútímaverk eftir listamenn frá Kherson og það sem hernámsmennirnir gátu einfaldlega ekki borið út.

 

Tómir rammar á Listasafni Kherson.

Tómir rammar á Listasafni Kherson. 

Alþjóðabankinn áætlaði nýlega að kostnaðurinn við skemmdirnar hingað til á menningarbyggingum og listasöfnum Úkraínu frá innrásinni nemi tæpum 2 milljörðum dollara.

 

Afleiðingar

Alþjóðleg menningarsamtök og Interpol benda yfirvöldum í Evrópu og um allan heim á að vera á varðbergi gagnvart listmunum sem hefur verið stolið frá Úkraínu. Alþjóðaráð safna hefur gefið út „rauðan lista“ yfir listaverk í hættu, sem UNESCO notar nú til að þjálfa þá sem sinna landamæragæslu.

Fyrir nokkrum árum lagði yfirmaður UNESCO til að hugtakið „menningarhreinsanir“ væri tekið upp í umræðu um, ekki aðeins eyðingu minnisvarða, heldur einnig mannréttindabrot á forsendum þjóðernis eða trúar, eyðileggingu menningar- og menntastofnana, og árásir á fjölmiðlafólk o.fl. Hann lýsti þessari hugmynd árið 2015 þegar jíhadistar eyðilögðu menningarminjar í Miðausturlöndum og Afríku – frá sýrlensku Palmýru til Timbúktú í Malí. Þá fordæmdi forystufólk helstu rússnesku safnanna, Hermitage og Pushkin safnsins t.d., einróma eyðileggingu minnisvarða. Hins vegar er núverandi eyðilegging menningarverðmæta ekki aukaverkun stríðsins heldur meðvituð stefna rússneska hersins og ástæðan er sú að menningararfur er undirstaða þjóðar og sjálfsmyndar. Ránið er ekki afleiðing slæmrar hegðunar einstakra hermanna eins og úkraínskir embættismenn og alþjóðlegir sérfræðingar hafa bent á. Þeir telja þjófnaðinn vera kerfisbundna árás á úkraínskt stolt, menningu og sjálfsmynd, og hann er í fullu samræmi við afstöðu forseta Rússlands, Vladímírs V. Pútíns, sem hefur stöðugt gert lítið úr hugmyndinni um Úkraínu sem sjáfstæða þjóð og notað hana sem til að réttlæta innrásina.

 

Hvaða þróun má búast við?

Haagsamningurinn um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum frá 1954 er viðurkenning á mikilvægi þess að koma í veg fyrir að eyðileggingu menningarverðmæta í stríði. Rússland og Úkraína eru aðilar að þessum sáttmálum. Rómarsamþykktin, sem liggur Alþjóðaglæpadómstólnum í Haag til grundvallar, skilgreinir árásir á menningarminjar sem stríðsglæpi.

Sérfræðingar benda á að Úkraína muni geta krafist þess að stolnum munum verði skilað þegar atburðir stríðsins verða gerðir upp, eins og eftir seinni heimsstyrjöldina þegar Þýskaland skilaði verðmætum sem nasistar höfðu stolið til eigenda þeirra. En slíkt krefst þess að nákvæmar skrár séu til um það sem stolið hefur verið. Menningarmálaráðuneyti Úkraínu er nú þegar að útbúa slíka lista. Þá er vísað til þess sem Rússar hafa sjálfir skuldbundið sig til með aðild að alþjóðasamningum, að skila „horfnum“ munum ellegar  greiða háar bætur.