Header Paragraph

Stríð í 16 mánuði

Image
""

Úkraínuverkefnið nýtur í sumar fulltingis átta nema við Háskóla Íslands sem taka þátt í tveimur Nýsköpunarsjóðsverkefnum sem við hýsum. Þessir nemar munu leggja efni til Úkraínuvefsins með reglulegum hætti, en í dag ríður Valur Gunnarsson á vaðið, hann mun í sumar fjalla um gang stríðsins, greina atburði líðandi stundar og skyggjast á bak við yfirborð mælskulistar stríðsins.

Allsherjarstríðið hófst með innrás Rússlands í Úkraínu þann 24. febrúar 2022 en þá hafði stríð staðið við aðskilnaðarsinna studdum af Rússum í héruðunum Donetsk og Luhansk síðan í apríl 2014. Strax á fyrsta degi sóttu Rússar að höfuðborg Úkraínu í gegnum Hvítarús frá norðri, frá austri í gegnum Donetsk og Luhansk sem þeir höfðu þegar lagt undir sig að hluta, sem og frá suðri frá Krímskaga sem þeir höfðu innlimað snemma árs 2014.

Allsherjarstríðinu má skipta í fimm fasa. Sá fyrsti stóð frá febrúar og fram í maí 2022, þegar Rússar hugðust leggja undir sig allt landið. Það mistókst að taka flugvöllinn Hostomel fyrir utan höfuðborgina Kyiv með fallhlífasveitum og 40 kílómetra umferðarteppa af herbílum varð auðvelt skotmark fyrir úkraínska Bayraktar dróna af tyrkneskri gerð. Orustunni um Kyiv lauk þann 2. apríl þegar Rússar hörfuðu aftur norður fyrir landamærin. Úthverfin Irpín  og Bútsja reyndust illa leikin eftir hernám Rússa og lík hundruða óbreytta borgara lágu á götunum.

Í austri tókst Rússum að leggja undir sig stærstan hluta Donetsk og Luhansk. Sótt var að hafnarborginni Mariupol og féll hún eftir langt umsátur þann 20. maí. Höfðu þá verið gerðar linnulausar stórskotaliðsárásar á almenna borgara þar sem tugir þúsunda létust. Sókn Rússa heppnaðist best í suðri, þar sem borgin Kherson var fljótlega hernuminn. Ljóst mátti þó vera að Rússum hafði mistekist að knýja Úkraínumenn til uppgjafar.

Annar fasi hófst þá um vorið og stóð fram á haust. Í stað þess að reyna að sækja hratt fram reyndu Rússar nú að berja sig löturhægt í gegnum Donbas með stórskotaliði sem eyðilagði allt sem fyrir varð. Rússar höfðu mikla yfirburði í magni skotfæra í stórskotaliðseinvíginu sem fór í hönd og borgin Severodonetsk féll þann 26. júní. Mörgum virtist sem Pútín myndi hafa það með hörkunni sem ekki tókst að vinna með snerpu. En um mitt sumar fóru Úkraínumönnum að berast HIMARS kerfi frá Bandaríkjunum sem gátu miðað út skotfærabirgðir Rússa úr mikilli fjarlægð. Sóknin stöðvaðist og nú var komið að Úkraínumönnum að hefja gagnsókn.

Gagnsóknin hófst þann 29. ágúst. Í fyrstu virtist markmið Úkraínumanna vera að sækja að Kherson og Rússar fluttu mikinn liðssöfnuð þangað. Í ljós kom þó að meginmarkið Úkraínumanna í fyrstu var að frelsa Kharkiv hérað, en Rússar voru þá í útjaðri borgarinnar sem er sú næst stærsta í Úkraínu. Rússum var stökkt á flótta og mikið magn hergagna var skilið eftir en Úkraínumenn endurheimtu mikið land. Að því búnu var sótt til suðurs og borgin Kherson var frelsuð þann 11. nóvember. Rússar hörfuðu í varnarstöður handan við Dnéprfljót, en nokkuð skipulegar en þeir flýðu frá Kharkiv.

Við tók stöðustríð þar sem víglínan hélst að mestu óbreytt en Rússar einbeittu sér að því að gera loftárásir á almenna borgara. Á nýju ári sóttu þeir til Vuhledar í suðri og Bakmút í austri. Fyrri sóknin mistókst algerlega en við Bakmút var hart barist. Wagner-sveitin, málaliðar í þjónustu Rússar, sögðust hafa loks náð leifum borgarinnar á sitt vald í maí þótt enn væri barist í næsta nágrenni.            

Sumarsóknin hefst

Það er erfitt að segja nákvæmlega hvenær sumarsókn Úkraínumanna hófst, en hitt er ljóst að hún er nú hafin. Selenskíj Úkraínuforseti sagði á fundi með Justin Trudeu forsætisráðherra Kanada laugardaginn 10. júní að bæði sóknar- og varnaraðgerðir ættu sér stað án þess þó að lýsa því yfir að meginsóknin væri byrjuð. Daginn áður hafði Pútín Rússlandsforseti lýst því yfir að sóknin hefði verið brotin á bak aftur og að Úkraínumenn misst 1200 manns og 40 skriðdreka. Ekki hefur þetta verið staðfest og varla sennilegt en hitt er ljóst að fyrstu daganna urðu Úkraínumenn fyrir nokkrum skakkaföllum.  

Þann 7. júní var háður bardagi við smábæinn Mala Tokmatsjka í Saporisjía hérað í suðri. Sókn Úkraínumanna var stöðvuð og kunna þeir að hafa misst einn eða tvo Leopard 2 skriðdreka og allt að tíu brynvarða beltisbíla af Bradley gerð. Flestir áhafnarmeðlimir virðast hafa komist undan. Hernaðarsérfræðingar telja að úkraínskar deildir hafi keyrt of þétt saman og því reynst auðveld skotmörk fyrir rússneskt stórskotalið eða þyrlur. Þann 13. júní birtu Rússar myndir af tveim Leopard 2 skriðdrekum og tveim Bradley bílum sem þeir segjast hafa náð á sitt vald. Úkraínumenn ráða aðeins yfir tuttugu og einum Leopard 2 skriðdreka sem eru þýskir og þykja með þeim bestu í heimi. Rússneskir skriðdrekar eru flestir mun eldri, allt að 70 ára gamlir, en eru stundum notaðir sem föst virki enda eiga Rússar mikið magn til. 

Í kringum borgina Bakmút segjast Úkraínumenn hafa sótt fram hálfan annan kílómetra. Um morguninn þann 12. júní bárust þær fréttir að Úkraínumenn hefðu frelsað fjóra bæi í Saporisjía héraði og kunn þrír í viðbót að hafa bæst við daginn eftir. Mögulegt markmið gæti verið að komast að Asov hafi og skera þannig á landbrúna á milli Rússlands og Krímskaga. Úkraínumenn virðast helst sækja fram að nóttu, enda hafa þeir yfir mörgum nætursjónaukum að ráða en Rússar eiga fáa slíka og sjá því illa í myrkri. Rússar ku hafa orðið fyrir skakkaföllum þegar þeir hörfuðu yfir eigið jarðsprengjusvæði.    

Þann 12. júní var rússneski hershöfðinginn Sergei Gorjatsov drepinn í suður-Dónetsk, og er hann sá fimmti í svo hárri stöðu sem vitað er til að hafi fallið í stríðinu enn sem komið er. Rússneski herinn þykir afar miðstýrður, undirforingjar hafa lítil völd til að taka ákvarðanir og yfirforingjar þurfa því að fara á fremstu víglínu sem stefnir lífi þeirra í hættu. Einnig þykir þetta gera herinn afar ósvegjanlegan. Í Úkraínuher hafa undirforingjar hins vegar meira vald til að bregðast við aðstæðum hverju sinni og virðist nýtast þeim vel.   

Wagner sveitin ku hafa yfirgefið Bakmút undir lok maí og hefðbundinn rússneskur her tekið við. Yfirmaður Wagner Jevgení Prígosjín hefur ekki undirritað nýjan samning við rússnesk yfirvöld. Wagner liðar eru ásakaðir um að hafa rænt rússneska herforingjanum Venevetín og hefur myndband birst þar sem hann segist hafa skotið á Wagnerliða þegar hann var undir áhrifum áfengis. Prígosjín hefur gagnrýnt hernaðaryfirvöld í Moskvu harðlega fyrir það sem hann telur vanhæfni þeirra í stríðsrekstrinum. Einnig hefur hann átt í deilum við Kadyrov, foringja Téténa og stuðningsmann Pútíns.

Image
""