Katrínartorg í Odesa, án Katrínar miklu.
Styttufall við Svartahaf
Odesa, skrifað með tveim s-um á rússnesku, hefur löngum verið merk borg í hugarheimi Rússa. Ekki aðeins var hún eftirsóttur sumardvalarstaður heldur einnig viðfangsefni bókmennta og bíómynda. Það var þó varla af einskærum menningarástæðum sem Pútín virtist umhugað um að leggja hana undir sig þegar innrás hans hófst. Odesa er vestast á Svartahafsströndinni og mesta hafnarborg Úkraínu. Um 90 prósent af kornútflutningi landsins fór í gegnum borgina fyrir stríð. Ef Rússar næðu hingað gætu þeir lokað aðgengi Úkraínumanna af að sjó, sem myndi gera þeim erfitt fyrir um ókomna tíð.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Pútín ásælist Odesa. Flestir íbúar borgarinnar eru rússneskumælandi og árið 2014 hvöttu Rússar þá til að gera uppreisn gegn yfirvöldum í Kænugarði. Þann 2. maí réðust stuðningsmenn Rússa, mögulega með samþykki lögreglu, á samkomu þeirra sem vildu sameinaða Úkraínu. 48 manns létust í átökunum, flestir þeirra stuðningsmenn Rússa sem brunnu inni eftir að hafa lokað sig inni í húsi verkalýðsfélaga. Margt er enn á huldu með brunann, svo sem viðbrögð yfirvalda og hvort íkveikjan hafi orðið innan eða utan frá en báðir aðilar notuðust við molotov kokkteila í átökunum.
Hvað sem því líður svöruðu fáir kalli Pútíns og borgin varð áfram úkraínsk. Þegar allsherjarstríðið hófst í febrúar 2022 virðist eitt helsta markmiðið hafa verið að ná hingað og líklega sameinast rússneskumælandi aðskilnaðarsinnum í Moldóvu vestan megin við borgina. En sóknin var stöðvuð austan við Mykolaiv og um haustið var Rússum ýtt austur yfir Dnéprfljót.
Borgin virðist ekki líkleg til að falla í hendur Rússa í bráð, en það þýðir þó ekki að hér sé með öllu friðsamlegt. Í fyrrasumar var gerður samningur fyrir milligöngu Tyrkja um að Úkraínumenn mættu flytja ákveðið magn korns yfir Svartahaf frá Odesahöfn. Rússar notuðu tækifærið og skutu nokkrum rakettum á hafnarsvæðið rétt áður en samningurinn gekk í gildi. Ég var staddur hér þá og ári síðar hefur Pútín rift samkomulaginu og sprengjurnar eru enn látnar falla. Enn hafa engar fréttir borist af mannfalli.
Mun verra umhorfs er í Kherson sem var hernumin við upphaf stríðsins og ekki frelsuð fyrr en 11. nóvember í fyrra. Ekki nóg með það heldur var Kakhovka stíflan í grendinni sprengd í júní síðastliðnum svo að flæddi yfir borgina. Til að komast til Kherson þarf sérstakt leyfisbréf frá suðurher Úkraínumanna, sem og nákvæma lýsingu á hvað menn ætli sér að gera þar. Leyfisveitingin getur verið tímafrek, enda ekki alveg hættulaust að koma til borgarinnar. Auk reglulegra loftárása, ekki síst á þá sem reyna að aðstoða við hjálparstarf eftir flóðið, liggja leyniskyttur hinum megin við ánna. „Fixer,“ eða aðstoðarmaður fransks fjölmiðils var drepinn í Kherson um daginn og mælt með að maður haldi sig sem lengst frá ánni.
Mér er fremur illa við leyniskyttur. Í loftárás er fyrst og fremst spurning um heppni – eða þá óheppni – hvar sprengjurnar lenda en leyniskyttur miða betur. Ég hlýt að teljast ansi stórt skotmark og þar með örugg nýting á kúlu.
Mynd til vinstri: Óperuhúsið í Odesa.
Mynd til hægri: Mynd af Kjersbrú sem tengir Svartahaf og Azovhaf.
Púskín með sprengjubrot í höfðinu
Í fyrrasumar fórum við Börkur Gunnarsson ásamt sjálfboðaliðum til Mykolaiv með vatn og hafði borgin þá verið vatnslaus mánuðum saman. Sömu sjálfboðaliðar fara nú til Kherson þar sem vatnið skortir, en sumir hafa haldið á aðrar vígstöðvar. Einn fór til Bakhmút og fékk sprengjubrot í höfuðið. Var hann talinn af en er nú hægt og rólega að komast til heilsu og aftur farinn að geta myndað orð.
Vinir okkar í sjálfboðasveitinni segja of erfitt að taka okkur með í þetta sinn. Við Börkur verðum því kyrrir í Odesa í bili. Mikið er hér að sjá þrátt fyrir að saga borgarinnar sé ekki ýkja löng. Virkisins Khadjibey sem áður var hér um slóðir er fyrst minnst í pólskum annálum frá 1415 en það tilheyrði Litháum. Segir í annálnum að skip hafi siglt þaðan með fullan farm af korni til Konstantínópel og má því ljóst vera að höfnin hefur lengi verið notuð í svipuðum tilgangi. Árið 1529 komst héraðið undir stjórn Tyrkja en fór fyrst að skipta máli upp úr 1780 þegar pólski aðalsmaðurinn Potoski gerði það að miðstöð fyrir pólska Svartahafsverslunarfélagið.
Undir lok þess áratugar lagði Katrín mikla keisaraynja Rússlands svæðið undir sig og hafið var að byggja borg sem myndi nefnast Odesa. Sonur hennar Páll var svo lítið hrifinn af mömmu sinni að hann lét stöðva framkvæmdirnar en þegar barnabarnið Alexander varð keisari var þeim haldið áfram. Miðbærinn er enn þann dag í dag í klassískum Miðjarðarhafsstíl frá tímum Rússakeisara og var settur á heimsminjaskrá UNESCO í upphafi árs sem minjar í hættu, og hættan stafar einmitt frá árásum Rússa.
Hinar svonefndu Potemkintröppur, þar sem eitt frægasta atriði kvikmyndasögunnar þegar barnavagn er látinn rúlla niður í miðri byltingu í kvikmynd Eisensteins, eru lokaðar. Þær ná niður að sjó og þykir ekki öruggt að hafa þær óvarðar. Skammt undan var stytta af Katrínu miklu að finna, umkringd sumum af sínum helstu aðalsmönnum á stallinum. Styttan var reist undir lok keisaratímans og svo rifinn af kommúnistum en síðan endurreist eftir fall kommúnismans. Seint á síðasta ári var hún rifin aftur eftir netkosningu meðal íbúanna. Nú er Katrín farinn af Katrínartorgi og aðalsmenn hennar líka.
Mynd til vinstri: Katrín mikla á stalli sínum við Katrínartorg.
Mynd til hægri: Vegglistaverk með ýmsum helstu stöðum Odesa.
Barist um Babel
Listasafnið er hins vegar opið og á friðartímum eru klassísk verk höfð þar til sýnis. Mörg þeirra hafa verið sett í geymslu af öryggisástæðum en í staðinn hefur nútímalist verið hafin á stall. Meðal annars má sjá líkan af Nordstream gasleiðslunni gerða úr byssukúlum og litla styttu af Púskín með sprengjubrot í höfðinu. Nefnist það „sjálfsmorð rússneskrar menningar.“
Púskín bjó um stund í borginni og enn má sjá hús hans. Stytta af honum stendur á Primorskí Bulvar í grennd við hið glæsta ráðhús. Odesa er borg skálda og við förum í bíltúr með leiðsögumanni, eldri konu sem eitt sinn lærði enskar bókmenntir. Meðal helstu borgarbarna má nefna Önnu Akhmatova sem fæddist skammt undan en fluttist til Pétursborgar og tengist bókmenntalífi Odesa annars lítið. Öðru máli gildir um Ísak Babel, sem skrifaði sögur sem gerðust hér og átti stóran þátt í að skapa þá staðalmynd sem menn höfðu af borgarbúum á tímum Sovétríkjanna: kænum og tækifærissinnuðum bjartsýnismönnum sem stundum afhjúpuðu galla kerfisins með húmor sínum.
Mynd til vinstri: Listaverk á Odesusafni.
Mynd til hægri: Púskín með sprengjubrot.
Babel er einna þekktastur fyrir sögu sína um Rauða riddaraliðið sem hann skrifaði í kjölfar þess að hafa verið vitni að stríði Pólverja og Rússa árið 1920. Tengsl hans við rauðliða hafa gert hann vafasaman í hugum sumra Úkraínumanna, sem og það að hann skrifaði á rússnesku. Eigi að síður þótti einmitt mörgum rauðliðum hann einmitt ganga fulllangt í að lýsa stríðinu eins og það kom honum fyrir sjónir fremur en að halda sig við flokkslínuna. Var Babel tekinn af lífið árið 1940 af sovésku öryggissveitunum NKVD.
Eftir að allsherjarstríðið braust út krössuðu einhverjir á hús Babels. Leiðsögukonan er ekki hrifinn af þessu, né heldur öðrum aðgerðum Úkraínumanna til að afmá rússneska menningu. Kennir hún ofstopa úkraínskra þjóðernissinna um og er í það minnsta ekki hrædd við að viðra skoðun sína. Líklega er þetta óhjákvæmileg afleiðing allsherjarstríðs. Tilraunir Rússa til að gera Úkraínu rússneska hafa þvert á móti þau áhrif að rúmlega 200 ára rússnesk menningaráhrif eru óðum að þurrkast út. Það er þetta sem kalla má sjálfsmorð rússneskrar menningar. En Rússar eru að breyta landslagi Úkraínu með öðrum hætti.
Ungur strákur stillir sér upp við skriðdreka.
Endalok hins rússneska heims
„Donbas er ekki lengur til,“ segir Andrei (ekki hans raunverulega nafn), hermaður sem er á að giska á fimmtugsaldri en ómögulegt er að segja til um hve gömul augu eru sem svo margt hafa séð. Ef undanfarin ár hafa ekki farið mjúkum höndum um andlit hans hafa þau enn síður sýnt Donbas héraði mildi. Hermaðurinn sýnir mér myndir í símanum af landslagi sem minnir verstu atburði 20. aldar; sprengjugígar, hálfhrunin hús, dauð tré, mold og drulla, mánalandslag á jörðu niðri. Eftir bráðum tíu ára stríð á þessum slóðum mun taka langan tíma fyrir landið að ná sér, alþakið jarðsprengjum og sprengjubrotum sem munu áfram verða virk um ókomna tíð. Við Verdun í Frakklandi, þar sem hvað harðast var barist í fyrri heimsstyrjöld, hefur jörðin vart jafnað sig enn.
„Til hvers þurfum við þennan rússneska heim sem verið er að reyna að þröngva upp á okkur?“ spyr Andrei. Úkraínumenn telja sig vera að berjast gegn hugmynd Pútíns um hinn rússneska heim, að allir sem tali rússnesku tilheyri í raun Rússlandi rétt eins og eitt sinn var talið að allir sem töluðu þýsku tilheyrðu Þýskalandi. Pútín hefur oft vísað til þessarar hugmyndar í ræðu og riti og undanfarinn ár virst staðráðinn í að hrinda henni í framkvæmd. Svo vill til að á rússnesku merkir sama orð bæði „friður“ og „heimur.“ Svona er þá hinn rússneski heimur, svona er hinn rússneski friður. Þeir búa til eyðimörk og kalla það frið.
Andrei sýnir mér myndband af ungum manni sem tæmir skothylkið út um rauf í sandpokavirki, fyllir það á ný og heldur áfram að skjóta trekk í trekk. Mér skilst að þetta sé sonur hans. Mér skilst að hann sé ekki lengur í heimi lifenda. Næst kemur mynd af Andrei sjálfum með sárabindi yfir blóðugt höfuð. Höfuðið hefur jafnað sig og hann haltrar eilítið en virðist annars í lagi. Líkamlega. Ljóst má vera að stríðið muni búa í honum svo lengi sem hann lifir. Hversu lengi sem það kann að vera. Eftir nokkurra daga frí í Odesa mun hann snúa aftur til vígstöðvanna, aftur til Bakhmút.
„Þið eruð hetjur,“ segi ég og vísa í slagorð Úkraínumanna. „Nei, ég er ekki hetja, ég er hermaður,“ segir hann. Hann hefur þegar fórnað öllu fyrir stríðið. Og stríðið er ekki búið enn. Ekki nærri því. Hafnbann Rússa á Odesa gæti valdið hungursneyð í öðrum stríðshrjáðum löndum á borð við Jemen, Súdan og Afganistan. Úkraínumenn segja Rússa hafa eyðilagt 60.000 tonn af korni með þessum nýjustu árásum og Rússar hafa jafnvel gefið það út að þeir muni skjóta á flutningaskip á leið til Úkraínu. Hinn rússneski heimur gæti víðar farið að gera vart við sig.
Texti og ljósmyndir: Valur Gunnarsson, sagnfræðingur, rithöfundur og blaðamaður.
Stytta af Taras Shevchenko, úkraínsku ljóðskáldi, rithöfundi og listamanni.
Mynd til vinstri: Gamla Odesa.
Mynd í miðju: Ofn og krot.
Mynd til hægri: Odessa - með rússneskum rithætti.