Þörfin er tvímælalaust til staðar

„Það var mjög auðmýkjandi að sjá hvernig þau nálguðust verkefnið, af brennandi áhuga. Þau vildu soga í sig eins mikla þekkingu og þau gátu á skömmum tíma,“ segir Friðrik Theodórsson, slökkviliðsmaður og bráðatæknir hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Friðrik dvaldi á Englandi fyrr í sumar þar sem hann tók þátt í þjálfun fyrir úkraínska hermenn í bráðameðferð, en þjálfunin er samstarfsverkefni Breta, Hollendinga, Íslendinga og Úkraínumanna.

„Þörfin er mjög áþreyfanleg og ég veit að Úkraínumenn eru núna víðvegar um Evrópu í alls konar þjálfunum. Þeir vildu mjög gjarnan senda fólk, en máttu samt eiginlega ekki missa það. Þörfin er tvímælalaust til staðar og áhuginn hjá nemendunum leyndi sér ekki. Þau voru með fulla athygli allan tímann, þyrsti í lærdóminn og að spjalla um reynslusögur,“ segir Friðrik.

Friðrik er gestur Úkraínuhlaðvarpsins að þessu sinni og í þættinum segir hann frá þjálfuninni í Englandi og þeim áskorunum sem heilbrigðismenntaðir hermenn standa frammi fyrir í stríðinu í Úkraínu. Hann segir einnig frá starfi sínu sem bráðatæknir og útskýrir hvernig reynsla hans úr starfinu á Íslandi nýtist við þjálfun í bráðameðferð fyrir úkraínska hermenn. Hægt er að hlusta á viðtalið við Friðrik hér. 

Úkraínuhlaðvarpið verður með vikulega þætti í sumar. Nýir þættir munu birtast á Spotify sem og vef og samfélagsmiðlum Úkraínuverkefnisins á hverjum föstudegi.

 

Image
""