Umfjöllun og umræða um úkraínska flóttamenn í Póllandi

Frá upphafi innrásar Rússlands í Úkraínu hafa rúmlega 12 milljónir flóttamanna frá Úkraínu flúið yfir landamærin til Póllands. Stór hluti þeirra hefur farið áfram til annarra landa  en í febrúar 2023 hafði um um það bil 1.5 milljón þeirra fengið PESEL auðkenni, sem er sambærilegt kennitölu. Þótt Úkraínumenn hafi í mörg ár verið stærsti hluti útlendinga í Póllandi, er þetta mikill fjöldi fólks sem hefur fengið leyfi til þess að búa og vinna í Póllandi á mjög stuttum tíma. Því er mikil umfjöllun í samfélaginu um áhrif þeirra á samfélagið og menningu, en sú umfjöllun hefur þó breyst frá því að fyrstu flóttamennirnir byrjuðu að streyma inn. 

 

Fjölmiðlaumfjöllun

Úr niðurstöðum rannsóknar Nataliu Zawadzka-Paluektau sem gerð var í mars 2022 má lesa viðhorf fjölmiðla til flóttafólksins frá Úkraínu. Fylgst var með þremur fjölmiðlum sem náðu þvert yfir pólitíska litrófið, en allir fjölluðu þeir með sínum hætti um þá hjálp eða aðstoð sem bauðst flóttafólkinu í Póllandi. Zawadzka-Paluektau komst að þeirri niðurstöðu að umfjöllunin væri almennt hlutlaus og jafnvel jákvæð. Í skoðanakönnun sem einnig var gerð í mars 2022 á vegum Miðstöðvar í Austur-Evrópu- og Alþjóðafræðum (Centre for East European and International Studies), kemur í ljós að meira en 50% ungra Pólverja á aldrinum 16-34 ára vildu að ríkið tæki við jafn mörgum flóttamönnum og nauðsynlegt væri. Í rannsókn Pólsku Efnahagsstofnunarinnar (PolskiInstytut Ekonomiczny) sem birt var í júlí 2022 kemur fram að um 77% þjóðarinnar hafi á einhvern hátt tekið þátt í aðgerðum í því skyni að aðstoða flóttamenn frá Úkraínu á fyrstu mánuðum innrásarinnar. Úr þessu má lesa að á þeim tíma hafi viðhorf almennings til flóttafólksins verið jákvætt. 

En umræðan hefur tekið breytingum á þeim tíma sem liðinn er frá fyrstu mánuðum innrásarinnar í Úkraínu og með auknum straumi flóttafólksins til Póllands. Meðal annars hafa vaknað spurningar um hvort þátttaka flóttafólksins á vinnumarkaðnum bæti upp fyrir þann kostnað sem það tekur að koma því fyrir, en árið 2022 var áætlaður kostnaður við þjónustu sem bauðst flóttamönnum í Póllandi rúmir 8 milljarðar evra. Á móti kemur að Evrópusambandið hefur stutt Pólland um tæpar 700 milljónir evra fyrir stuðning og aðstoð fyrir flóttamenn frá Úkraínu, auk þess sem úkraínskir flóttamenn sem hafa atvinnu borga skatta í Póllandi. Fulltrúi innanríkisráðuneytis Póllands, Pawel Szafermaker heldur því þess vegna fram að erfitt sé að spá til um langvarandi áhrif flóttafólksins á pólska vinnumarkaðinn. Pólsk yfirvöld reyna að koma flóttafólkinu fyrir eins fljótt og mögulegt er, en í því felst meðal annars að koma börnum í skóla og fullorðnum í vinnu. Árið 2022 var talið að vinnumarkaðurinn í Póllandi gæti rúmað úkraínska flóttamenn, og fjórðungur þeirra fékk vinnu fljótlega eftir komuna. Í viðtali við Pólska ríkisútvarpið í febrúar 2023 sagði Szafernaker, 80% flóttamanna hafa verið ráðna í störf. Þetta er mjög mikill fjöldi sem kemur inn á vinnumarkaðinn á stuttum tíma og hefur valdið áhyggjum almennings um að ekki verði nógu mikið af störfum í boði fyrir Pólverja, þrátt fyrir fullyrðingar Pólsku Efnahagsstofnunarinnar (Polski Instytut Ekonomiczny) um að Úkraínumenn séu í raun að styrkja vinnumarkaðinn. 
 

Ekki ,,alvöru’’ flóttamenn

Neikvæð, spennuþrungin og oft hatursfull, umræða sem finna má á samfélagsmiðlum birtist að mestu leyti í afneitun á stöðu flóttafólksins. Flóttafólk frá Úkraínu sem nú er sest að í Póllandi er ekki löglega í stöðu flóttamanna. Evrópusambandið kynnti neyðaráætlun um tímabundna vernd í febrúar 2022 þegar innrásin hófst. Pólska ríkið, samkvæmt leiðbeiningum Evrópusambandsins, hefur veitt þeim sem koma frá Úkraínu tímabundna vernd með möguleika til framlengingar ef sótt er umPESEL auðkenni. Tímabundin vernd gefur flóttafólkinu kleift m.a. að koma inn á vinnumarkaðinn, sem hefði annars ekki verið mögulegt. Þótt mikið sé enn um að stuðningur og samstaða með flóttafólki sé tjáð á samfélagsmiðlum, er sífellt algengara að fólk láti í ljós reiði sína yfir þeirri hugmynd að Úkraínumenn hafi nú einhver forréttindi yfir Pólverja. Hugsunin er sú að úr því að Úkraínumenn eru ekki löglega flóttamenn, þurfi þeir ekki á hjálp að halda. Þá er gjarnan litið á þá sem ólöglega innflytjendur.

 

Þýðing: „Þannig að þau eru Pólverjar bara frá Úkraínu með meiri réttindi og fríðindi en innfæddur Pólverji.“

 

Þýðing: „Þannig að PiS [Flokkur Lögmætis og Réttlætis] tók á móti meira en 1.5 milljón manns á flótta frá Úkraínu sem eru reyndar ekki flóttamenn og hellti einnig yfir þá velferð sem hrifsuð var frá Pólverjum? Svikarar Póllands í ríkisstjórn.“

Hvor tveggja þessi ummæli eru svör við færslu sem lýsir stöðu úkraínskra flóttamanna í Póllandi á neikvæðan hátt. Þetta eru ekki einu neikvæðu ummælin sem hægt er að finna undir færslunni, en flest þeirra grafa undan stöðu flóttamanna. Mörg þessara ummæla eru að gagnrýna PiS fyrir að taka inn svona marga flóttamenn sem löglega eru ekki flóttamenn – en ríkið er að fylgja leiðbeiningum Evrópusambandsins um móttöku flóttafólks frá Úkraínu. PiS, eða Flokkur Lögmætis og Réttlætis (Prawo iSprawiedliwość), er hægrisinnaður flokkur sem í augnablikinu myndar ríkisstjórn í Póllandi.

Sumir sem taka eftir því að hluti flóttamanna frá Úkraínu séu efnaðir staðhæfa að þeir geti ekki verið alvöru flóttamenn. Ranghugmyndin stemmir frá staðalímyndum sem Pólverjar hafa ýtt bæði á Úkraínumenn og á flóttamenn almennt. Vegna mikils fjölda útflytjenda frá Póllandi hafa Úkraínumenn í mörg ár fyllt störf í Póllandi sem Pólverjar eru ekki fúsir til þess að taka að sér, líkt og Pólverjar hafa gert hér á landi. Störfin sem Úkraínumenn hafa vanalega tekið að sér eru m.a. verkamannavinna og störf við þrif. Þegar Úkraínumenn eru ekki tilbúnir að vinna hvaða störf sem er veldur það tortryggni. Sumir eru sannfærðir um að efnaðir Úkraínumenn sem eru nú að flýja land geti ekki verið ,,ekta’’ flóttamenn. Þá er verið að gefa í skyn að flóttamenn geti ekki verið efnaðir, og ef þeir eru það séu þeir ekki í raunverulegri neyð. Þessi afstaða er sem betur fer ekki algeng, en hægt er að finna dæmi um fólk sem æsir sig yfir „ríkum“ Úkraínumönnum.

 

Samstaðan enn sterk - en hún fer dvínandi

Það er samt sem áður minnihlutinn í Póllandi sem hefur ofangreindar skoðanir, en eftir því sem stríðið dregst á langinn breytist viðhorf Pólverja til flóttafólks. 20. júní 2023 (þegar þetta er skrifað) er alþjóðlegur dagur flóttamanna, og í dag er hægt að finna margar hlýjar kveðjur á samfélagsmiðlum, skrifaðar af Pólverjum til flóttamanna. 

Þýðing: [...] „þess vegna á alþjóðlegum degi flóttamanna ættum við að standa með flóttamönnum víðs vegar úr heiminum. Berjumst fyrir reisn þeirra og fyrir því að þau fái, eins og amma mín og afi, annað tækifæri, nýtt heimili og nýtt líf, langt frá stríði, kúgun og ofbeldi.“ Í fyrri færslum segir þessir notandi frá upplifun afa síns og ömmu, sem bæði voru pólskir flóttamenn.

 

Í skýrslu Pólsku Efnahagsstofnunarinnar frá maí 2023 kemur í ljós að 80% Úkraínumanna í Póllandi telji Pólverja koma vel fram við sig. Einnig er meira en helmingur þátttakanda í rannsókninni enn að styðja við flóttamenn frá Úkraínu á virkan hátt. Samt sem áður kemur fram að á aðeins nokkrum mánuðum, frá apríl til desember 2022, minnkaði stuðningur Pólverja við flóttafólkið um 7%. 

Ef skrifað er „flóttamaður“ á pólsku inn í leitarvélina á Twitter er því miður meirihluti færslnanna ekki af því tagi sem greint var frá hér að ofan. Þótt færslurnar séu margar er ekki þar með sagt að þær fari allar víða, en sama má segja um jákvæðu færslurnar. Báðar týpur færslan laða að sér fólk andsnúið þeirri skoðun sem verið er að lýsa yfir hverju sinni. Fjöldi neikvæðra skoðana gagnvart flóttafólki segir ekki endilega til um að Pólverjar séu flestir mótsnúnir þeim, en hann gefur til kynna að slíkar skoðanir verði sífellt algengari meðal almennings.

 

                                                                                                                     Zuzanna Elvira Korpak, BA í heimspeki