UngHer á hernumdum svæðum
Юнармия (Júnarmíja) eða UngHer var stofnaður árið 2016 sem „hernaðarleg og þjóðrækin almenningshreyfing fyrir börn og ungmenni“ á vegum rússneska varnarmálaráðuneytisins. Fjöldi félaga árið 2023 var tæplega 1.250 þúsund manns. Árið 2019 var svipuð hreyfing stofnuð í Donetsk og Lúhansk-héruðum í Úkraínu.
Þar staðfærðu stjórnvöldin nafnið lítillega og breyttu því í Молодая гвардия (Molodaja Gvardíja) eða Ungir varðliðar. Nafnið vísar til hálf-goðsagnakenndra neðanjarðarsamtaka á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar, þar sem jafnvel börn tóku þátt (það yngsta var 14 ára). Ungir varðliðar störfuðu í Krasnodon (sem nú heitir Sorokíno) á Lúhansk-svæðinu.
UngHer kom til Kherson-héraðsins haustið 2022. Í upphafi skólaársins voru höfuðstöðvar samtakanna opnaðar í að minnsta kosti þremur hverfum: í Novotroitskij, Kalantsjakskij og Skadovskij. Samkvæmt gögnum frá vorinu 2023 voru um tvö hundruð ungmenni skráð í UngHer í hernumda hluta Kherson-svæðisins. Kennslan þar er í höndum aktívista frá Sankti Pétursborg, Serafims Ivanov. Áður fyrr skrifaði hann greinar um „útbreiðslu rússnesks rapps“ og hótaði rússneskum börnum „töfraríki“ (það er að segja hernum). Núna kennir hann úkraínskum börnum „rétta hlið sögunnar“ og sýnir þeim hvernig á að fagna sigurdeginum. Meðal reglulegra viðburða sem meðlimir UngHers á hernumdu svæðunum taka þátt í eru herþjálfun og skoðunarferðir til herdeilda. Í sjónvarpinu talar ungt fólk með orðum sem þau læra utanbókar, eins og þau séu að endurtaka klisjur úr handbókum kennara sinna. Flest segja við fréttamenn sem eru alltaf viðstaddir þessa viðburði að þau elski her og vilji sjálf verða hermenn.
UngHer og Hitlerjugend: Weimar-heilkenni á 21. öld
Sumir sérfræðingar bera UngHer saman við unglingasamtökin Hitlerjugend og sjá margt sameiginlegt. Jafnvel hefur nýja hugtakið „Pútínjugend“ birst á netinu ásamt hugtakinu „Nashistar“ (nash – okkar á rússnesku). Gagnrýnendur telja að á bak við þessi samtök sé ekkert annað en gróf misnotkun ungmenna. Þess vegna er UngHer borinn saman við hugarfóstur Hitlers. En hvert er hlutverk UngHers í raun og veru og líkist hann Hitlerjugend að einhverju leyti?
Rætt var um „Weimar-heilkenni“ rússneska sambandsríkisins þegar árið 2000. Með þessu hugtaki eiga sagnfræðingar við hægfara umbreytingu lýðræðisríkis í alræðisríki, sem er heltekið af hugmyndum um endurreisnarstefnu. Í Þýskalandi stóð þetta ferli frá 1919 til 1933 og endaði með valdatöku Hitlers, sem stefndi að endurreisn stórveldis. Samkvæmt sagnfræðingi Gerhard Weinberg sem skrifaði talsvert um Hitler, dáðist Adolf að Bismarcks Prússlandi og hélt að lýðræðisríkið (Reich) klúðraði sáttmálum og bandalögum, sem gróf að lokum undan markmiðum Þjóðverja. Nýja stórveldið birtist í formi Þriðja ríkisins sem myndi styðjast við hugmyndir geopólitíkur (þýska: Geopolitik) eftir Friedrich Ratzel, Rudolf Kjellén og síðar Karl Haushofer, sem fjölluðu meðal annars um:
- Lífsrými (á þýsku Lebensraum) sem nýlendustefnu;
- Sjálfsþurftarbúskap sem tollverndarstefnu;
- Strategíska stjórn á helstu landssvæðum;
Þessar hugmyndir voru vel dreifðar í þýsku samfélagi og fengu talsverðan stuðning. Gleymum því ekki að nasistar komust til valda á lýðræðislegan hátt.
Rússland hefur fengið þetta ferli í arf frá Sovétríkjunum. Árið 2005 kallaði Vladimir Pútín hrun Sovétríkjanna „mesta geopólitíska stórslys 20. aldar“. Hann og KGB litu á tapið í kalda stríðinu sem niðurlægingu sem krefðist hefndar. Í kjölfarið fylgdi orðræða um kúgaða samlanda erlendis. Rússneskur áróður byrjaði að kynna þá hugmynd fyrir almenningi að allur heimurinn væri á móti Rússlandi.
Á sínum tíma nefndi Hitler kommúnista og gyðinga helstu óvini ríkisins. Nasistarnir sáu siðmenningarverkefni sitt í útrýmingu svokallaðs „Untermensch“ – óæðra fólks. Hið síðarnefnda innihélt ekki aðeins gyðinga heldur einnig fólk af slavneskum uppruna. Eyðilegging þessara þjóða, að mati hugmyndafræðinga nasista, hefði átt að stuðla að velmegun hins aríska kynþáttar.
Við fylgjumst með svipuðu ferli í Rússlandi nútímans, nema „rotna vestrið“, sem Bandaríkin og NATO tákna, er orðið að aðalóvini. Á sama tíma kynnir rússneskur áróður stöðugt fyrir almenningi hugmyndir um hina útvöldu þjóð og messíasarhlutverk Rússlands – þær eru grundvöllur yfirburða heimsveldisins. Úkraínumenn í þessu fyrirkomulagi birtast sem liðhlaupar forheimskaðir af Vesturlöndum, sem þarf að bjarga og koma aftur í faðm „rússneska heimsins“. Þar að auki er álit Úkraínumanna sjálfra engum áhugavert og aðferðirnar eru staðlaðar: útrýma hinu óforbetranlegu, endurmennta aðra og gera þá að þjónum „rússneska heimsins.“
Rökvísin sem Weimar-heilkennið kyndir undir gat ekki annað en haft áhrif á æskulýðsstefnu Kremlar. Áróðursráðherra Þriðja ríkisins, Joseph Goebbels, sagði á sínum tíma: „Þeim sem æskan tilheyrir, tilheyrir framtíðin líka.“ Því var Hitlerjugend stofnuð árið 1922. Börn frá 10 til 18 ára voru skráð í þessi samtök. Í upphafi voru þetta bara ein af mörgum sambærilegum samtökum í Þýskalandi, en allt gjörbreyttist eftir að nasistar komust til valda. Þau leystu upp öll æskulýðssamtök, og lögin frá 1. desember 1936 gerðu Hitlerjugend að einu hreyfingu sinnar tegundar í Þýskalandi. Auk þess hefur þátttaka í hreyfingunni breyst úr sjálfboðavinnu í skyldu, að minnsta kosti fyrir „kynhrein“ börn. Árið 1940 voru 7,2 milljónir meðlima í Hitlerjugend, eða um 82% allra unglinga á þeim tíma.
Hugmyndin var ekki bara að mennta börn og ungmenni samkvæmt nýju mynstri heldur einnig að hafa áhrif á foreldra í gegnum börn. Aftur á móti voru félagar í Hitlerjugend í sjálfu sér góð auglýsing til að laða að nýja fylgismenn: stílhreinir einkennisbúningar, fallegir helgisiðir með keim af dulúð, sem tilheyra ákveðnum útvöldum hópi – allt þetta höfðaði til þýskra unglinga, sem skorti grundvöll sjálfsmyndar eftir fall keisarans og ósigur Þýskalands í fyrri heimsstyrjöldinni.
Þetta allt er einnig sjáanlegt í UngHer þar sem áhersla er lögð á líkamlega, andlega og siðferðilega menntun ungs fólks. Rússnesk yfirvöld leyfa börnum frá 8 til 18 ára að ganga í samtökin, það er að segja að ferlið við hervæðingu meðvitundar hefst fyrr en hjá nasistum. Nasistar töluðu um hvernig Entente græfi undan og spillti þýskum gildum en ættjarðarást og rússnesk menning í UngHer eru notuð sem móteitur gegn „skaðlegum áhrifum Vesturlanda.“
SS-eftirlitsmennirnir urðu að kennurum í Hitlerjugend og sáu um framtíðarstarfsmenn SS-deildarinnar og Svörtu reglunnar. Varnarmálaráðuneytið í Rússlandi lítur einnig svo á að UngHer veiti jákvæða hvatningu til þjónustu í hersveitum Rússlands, sem og framtíðarhernaðarelítu landsins. Þar að auki veitir varnarmálaráðuneytið í Rússlandi meðlimum UngHers ókeypis menntun og félagslegan stuðning, sem fylgir þeim til fullorðinsára. Þessar tilraunir hafa þegar borið árangur: nú taka fyrrum meðlimir UngHers virkan þátt í „sérstöku hernaðaraðgerðinni“ í Úkraínu, drepa óbreytta borgara og eyðileggja úkraínskar borgir. Nú þegar er nóg að fara á vefsíðu UngHers til að sjá heilt myndasafn af „hetjum“. Þar er hægt að finna stuttar ævisögur dáinna meðlima UngHers sem „bárust hetjulega“ á vígvöllum í Úkraínu. Ef þessu stríði lýkur ekki í náinni framtíð þá verða UngHers-deildirnar kenndar við þá og ný kynslóð Rússa verður alin upp við „þrautir“ þeirra.
Afleiðingar fyrir Úkraínu
Ef meðlimir UngHers taka nú þegar þátt í stríðinu, hvers vegna þarf að opna deildir samtakanna á hernumdum svæðum? Mannréttindaumboðsmaður úkraínska þingsins, Dmytro Lubinets, sagði 7. nóvember 2022, og byggði á gögnum Krím.Realii: „Hervæðing menntunar og rússneskur áróður valda áhyggjum.“ Lubinets benti á að Rússar, „rækti“ í úkraínskum börnum hatur á heimalandi sínu. Umboðsmaðurinn bætti við að markmið hernámsmannanna væri „að svipta börn tækifæri til að þróa með sér úkraínska sjálfsmynd.“ Einnig, samkvæmt Dmitry Lubinets, má segja að slíkar aðgerðir séu „birtingarmynd þjóðarmorðs“ og ein af formum þvingunar til síðari þjónustu í rússneska hernum, sem bendir til annars stríðsglæps Rússa.
Að sögn Andrejs Orlovs, forstöðumanns Miðstöðvar um borgaskipulag frá Melitopol, reyna rússneskir hernámsmenn einnig að hafa áhrif á foreldra barna sem eru skráð í UngHer. „Það er vitað að nú eiga sér stað þjálfun og sýnikennsla eða kennslustundir eða viðburðir, þar sem her rússneska sambandsríkisins og fulltrúar öryggisstofnana og leyniþjónustu taka þátt. Þeir koma í skóla og að því að talið er leyfa börnum leika með vopn, til að skilja hvernig eigi að nota þau. Allt þetta er að gerast í gegnum hugmyndafræðilega vinnu sem tengist þeirri staðreynd að „þú getur varið heimaland þitt,“ „það þarf að verjast“, „fósturjörðin þín er Rússland" o.s.frv. Þetta er þvingað, og í öllum tilvikum taka börn þátt í þessum upplýsingaáhrifum sem tengjast stríðinu.“
Kennari frá Kherson-svæðinu svaraði spurningu frá DOXA um hvort það væri skynsamlegt að börnin hittu hermenn og fengju að vita um stríðsárekstur á eftirfarandi hátt: „Börnin eru ekki hrædd, en þvert á móti hafa mikinn áhuga á að tala við herinn og hlusta á álit sérfræðinga hans”. Hún telur að upphaf allsherjarstríðs hafi aukið löngun barna frá hernumdum svæðum til að verða partur af UngHer. „Hvað varðar tengslin milli sérstakrar hernaðaraðgerðar og löngunar barna til að ganga í UngHer, þá er bein tenging hér. Áður fyrr voru slíkar hreyfingar ekki til og mjög lítill gaumur var gefinn að menntun sannrar ættjarðarástar“.
Hugmyndafræðileg menntun ungs fólks í anda nasista hefur borið ávöxt. Meðlimir Hitlerjugend veittu sovéska hernum og bandamönnum harða mótspyrnu árin 1944-45 og vörðu þýskar borgir og Berlín. Það tók margra ára afnasistavæðingu til að lækna þýska samfélagið.
Hins vegar er staðan með nútíma Rússlandi allt önnur. Samkvæmt skoðanakönnunum styður rússneskt samfélag stefnu Pútíns en sigur úkraínska hersins og brottvísun rússneska innrásarhersins frá Úkraínu mun ekki sjálfkrafa þýða upphaf viðhorfsbreytingar rússnesks samfélags. Hvað bíður Rússlands og hernuminna svæða þegar heil kynslóð UngHers vex upp, alin upp við sögur um „afreksverk“ rússneska hersins í Úkraínu er því miður enn óljóst.
Victoria Bakshina, tungumálakennari og þýðandi.
Skopmyndateikning: Þorgrímur Kári Snævarr, sagnfræðingur og laganemi.