Það sem við vitum um uppreisn Prígósjíns
Það virðist vera eitt af einkennum samtímans að um leið og eitthvað gerist fara margir að efast um að það hafi gerst eða telja jafnvel að eitthvað allt annað hafi gerst. Og þó er erfitt að finna þess dæmi í samtímasögunni að stórviðburðir hafi reynst allt öðruvísi en þeir virtust vera.
Getgáturnar láta ekki á sér standa. Þegar valdaránstilraun er framin í Rússlandi hlýtur eitthvert leikrit að vera á ferð vegna þess að … Pútín vill ólmur að almenningur haldi að hann hafi ekki lengur stjórn á aðstæðum? Flestar samsæriskenningar falla um sjálfar sig á fyrstu metrunum, en hvað er það þá sem við vitum fyrir víst?
Prigósjín, yfirmaður og að segja má eigandi Wagner einkahersins, hefur löngum eldað grátt silfur saman við Shojgú varnarmálaráðherra Rússlands. Hefur Prígósjín kennt honum um allt sem aflögu hefur farið í stríðsrekstrinum og ekki sparað stóru orðin. Komst hann lengi vel upp með þetta, enda varaði sig á að ráðast ekki á Pútín sjálfan og með því að beina athyglinni að Shojgú beindi hann henni um leið frá forsetanum sem þar með þyrfti síður að svara fyrir hina misheppnuðu herför.
Ljóst mátti þó vera að svona gæti þetta ekki gengið endalaust, en hvers vegna var látið sverfa til stáls einmitt nú? Á meðan Wagner sveitin sótti fram í Bakmút og var sú hersveit sem best gekk í Úkraínu var erfitt að handtaka Prigósjín, en undir lok maí tilkynnti sveitin að hún væri að draga sig úr hinni hernumdu borg og ríkisherinn myndi taka við. Prígósjín hefur ásakað herinn um að skjóta á Wagnerliða og yfirvöld tilkynntu síðar að þeir málaliðar sem hygðust skrifa undir samning við Wagner yrði gert að skrifa undir samning við herinn í staðinn. Svo virtist sem leysa ætti Wagner sveitirnar upp.
Eftir mikil skakkaföll hefur ríkisherinn staðið sig tiltölulega vel gegn sumarsókn Úkraínumanna. Áður en sóknin hófst varaði Pútín Rússa í fyrsta sinn frá því hann hóf stríðið að erfiðir tímar væru í nánd en gerðist öllu vígreifari eftir að ljóst varð að Úkraínumönnum tækist ekki að brjótast í gegn fyrsta veifið. Segja má að þessi varnarsigur sé fyrsti sigurinn sem rússneski herinn hefur unnið undanfarið ár. Ef til vill hefur Shojgú þess vegna fengið leyfi til, eða jafnvel skipun um, að fást við Prígósjín. Þann 26. júní var Wagnerliðum sjálfum sagt að handtaka Prigósjín.
Gangan til Moskvu
Viðbrögð Prígósjín þurfa ekki að koma ýkja mikið á óvart. Vissulega gekk hann lengra en áður þegar hann sagði að stríðið væri háð á fölskum forsendum og að meint fjöldamorð Úkraínumanna í Donbas væri hreinn uppspuni, hingað til hafði hann aðeins gagnrýnt framkvæmd stríðsins en ekki ástæður þess. Enn varaði hann sig þó á að gagnrýna aðeins Shjogú og ekki Pútín. Pútín átti að hafa verið í vondum félagsskap og hlustað á slæm ráð en var sjálfur laus undan ábyrgð á því hvernig farið hefur.
Rík hefð er fyrir þessháttar í rússneskri sögu, það sem aflaga fer er alltaf vondum ráðgjöfum að kenna en aldrei manninum á toppnum. „Ef aðeins keisarinn vissi…“ var löngum sagt, „ef aðeins Stalín vissi“ síðar meir. Líkt og kósakkaforinginn Stenka Rasín á 17. öld hélt Prígósjín af stað til Moskvu til að frelsa keisarann frá hinum illu hirðmönnum. Vissulega er harla hæpið að Prígosjín hafi trúað þessu sjálfur en líklega talið að auðveldara yrði að fá hermenn með sér í lið ef liðssöfnuðurinn beindist ekki gegn forsetanum heldur væri til bjargar honum. Kannski hefur heldur ekki skaðað að andstæðingurinn Shojgú er af ætt Túva mongóla en ekki hreinræktaður Rússi.
Aðfaranótt 24. júní lögðu Wagner liðar undir sig milljónaborgina Rostov-an-Don sem gegnir lykilhlutverki í birgðaflutningum Rússa til Úkraínustríðsins. Næst sóttu þeir í átt að Moskvu með 25.000 manna her að því Prígósjín sjálfur segir þótt raunveruleg tala sé ef til vill nær þriðjungi þess. Það sem vekur mesta furðu er það sem gerðist næst. Um morguninn hafði Pútín komið fram í sjónvarpi og líkt ástandinu við það sem ríkti árið 1917. Samlíkingin kann í fyrstu að virðast óheppileg þar sem keisaranum var jú einmitt steypt það árið. Allsherjar upplausn fylgdi í kjölfarið og um 10 milljón manns létust í borgarastríði þar sem ótal hreyfingar og stríðsherrar tókust á. Þetta hefur grafið um sig í rússneskri vitund frá á daginn í dag og er ástand sem þeir vilja fyrir alla muni forðast að endurtaki sig. Einræðisherra þykir betri en upplausn, og sækir Pútín lögmæti sitt ekki síst til þess að geta tryggt stöðugleikann. En getur hann það? Svo virtist sem hann væri að biðla til þjóðarinnar að bjarga sér frá Prígósjín, svikara sem allir yrðu að standa saman gegn.
Prígósjín hélt hins vegar för sinni áfram óheftur. Hvers vegna batt Pútín ekki enda á uppreisna þar og þá? Sem hinn styrka hönd stöðugleikans hefði það einmitt verið það sem búast mætti við að hann gerði. Kannski vildi hann síður lenda í beinum átökum við mann sem margir líta á sem stríðshetju. Öllu sennilegra er að hann hafi einfaldlega ekki treyst hernum til starfans. Hefði hann getað verið viss um tryggð hersins hefði átt að vera nokkuð auðvelt að kveða Prigósjín í kútinn en þetta var ekki gert. Í staðinn var kallað á Kadyrov og Téténa hans til að verja aðkomuna að Moskvu.
Hvers vegna var samið?
Niðurstaðan varð sú að samið var við Prígósjín þegar sá var kominn um 200 kílómetra frá Moskvu. Það þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart að Prígósjín hafi kosið að semja. Líklega var hann kominn eins langt og hann gat. Enginn ráðamanna í Moskvu hafði lýst yfir stuðningi við hann eins og hann kannski hafði vonað. Hinn möguleikinn var að ráðast á borgina sjálfa, sem hefði að öllum líkindum misheppnast og kostað hann lífið. Prigósjín kaus því að semja þegar hann var kominn í eins sterka stöðu og hann gat.
Öllu undarlegra er að Pútín hafi samið við mann sem hann þá um morguninn kallaði föðurlandssvikara en gaf nú upp sakir. Ekki er annað hægt en að túlka þetta sem gríðarlegt merki um veiklega. Sterkur leiðtogi í einræðisríki semur ekki við svikara heldur kveður þá í kútinn. Samningurinn var gerður fyrir milligöngu Lúkasjenkó forseta Hvítarús og ku Prígósjín kominn til höfuðstaðarins Minsk. Ósennilegt virðist að hann geti haft mikil áhrif þaðan en Lúkasjenkó hefur lengi átt þann draum að verða forseti Rússlands, þótt langsótt virðist.
Sumir hafa velt því fyrir sér að Shojgú verði látinn víkja en það er alls ekki víst. Líkt og aðrir einræðisherrar hefur Pútín ekki beina umsjón með öllu sem gerist í ríkinu heldur stjórnar í krafti hinna ýmsu valdaklíka sem ávallt verða að biðla til hans um miðla málum sín á milli, sem svo aftur færir honum algert vald. Ef til vill er það ein ástæða þess að hann hefur kosið að reiða sig svo mikið á bardagasveitir á borð við þær sem Prígósjín og Kadyrov stjórna fremur en ríkisherinn. Nú hefur hann orðið að taka afstöðu með Shojgú gegn Prígósjín og kann að vera að það verði látið standa. Þó má búast við að einhverjar hreinsanir fylgi vilji Pútín enn halda völdum en gæti um leið leitt til þess að einhverjir í kringum hann fari að ókyrrast.
Eftir að atburðirnir voru um garð gengnir hefur Prígósjín lýst því yfir að markmið hans hafi verið tvíþætt. Bæði vildi hann koma varnarmálaráðherranum Shojgú og yfirmanni hersins Gerasimov frá en einnig koma í veg fyrir að Wagner sveitirnar yrðu leystar upp. Hið fyrra hefur bersýnilega ekki tekist, í það minnsta ekki fyrsta veifið. Og nýjustu fregnir herma að Wagner sveitirnar verði leystar upp. Prígósjín hefur því ekki afrekað annað en að bjarga sjálfum sér, en jafnvel þetta kann að verða tímabundin ráðstöfun.
Pútín hefur varla um annað að velja en að ná sér niðri á Prígósjín eftir það sem á undan er gengið, allt annað væri svo gott sem hvatning til frekar uppreisna. En þetta er vandkvæðum bundið þar sem hann hefur þegar lofað að sækja hvorki Prígósjín né aðra liðsmenn til saka. Aðrir rússneskir ráðamenn myndu þá komast að því sem heimsbyggðin hefur þegar lært, að það dugir ekki að semja við Pútín.
Mestu mistök Pútín
Pútín hefur reynt að ná tökum á umræðunni og lýst því yfir að bæði herinn og almenningur hafi svo gott sem komið í veg fyrir borgarastríð þessa helgi. Mínútu þögn var haldin til minningar um þá þyrluflugmenn sem létust við að reyna að hefta sókn Prigósjín að Moskvu. Einhverjir föðurlandsvinir féllu því í baráttunni við föðurlandssvikaranna en eftirmálar fyrir Wagner liða verða aðeins að þeir geta valið á milli þess að ganga í rússneska herinn, flytja til Hvítarús eða fara heim. Svikararnir eru þannig ekki svikarar og sterki maðurinn ekki mjög sterkur. Pútín hefur mistekist að sigra stríðið í Úkraínu, mistekist að verja suðurlandamærin gegn innrás rússneskra andófshópa, mistekist að verja Moskvu frá drónaárásum. Og nú mistókst honum einnig að hafa stjórn á eigin mönnum. Líklega voru mestu mistök hans að koma fram í morgunsárið og biðla til þjóðarinnar um hjálp gegn föðurlandssvikurunum. Þannig tókst honum bæði að sýna fram á að hann væri að missa stjórn á aðstæðum og um leið lýsa Wagner liða föðurlandssvikara sem myndu sæta hörðum refsingum en hann hefur ekki getað staðið við.
Og hvað svo með Úkraínumenn? Sumarsóknin fór hægt af stað og virtist ósennileg til að ná miklum árangri á næstunni. Erfitt er að sækja í gegnum jarðsprengjusvæði þar sem andstæðingurinn hefur yfirburði í lofti og fá dæmi þess að slíkt hafi heppnast. En uppsteyt Prígósjíns hlýtur að tvíefla þá í baráttunni. Þótt enn gangi hægt hefur verið sótt fram á öllum vígstöðvum og hefur 27. júní verið kallaður „hamingjudagur“ í úkraínska hernum. Ef stjórnin í Moskvu er við það að falla á annarri viku sumarsóknarinnar sem þó hefur enn ekki náð fullum skriðþunga er aldrei að vita hvað gerst þegar stærri högg falla. Ekki aðeins eru orrustuflugvélar á leiðinni frá NATO þjóðum heldur hreyfanleg Gepard loftvarnarkerfi frá Þýskalandi einnig, sem ættu að jafna aðeins leikinn í lofti.
Tekist hefur að endurheimta um 130 ferkílómetra lands, þar á meðal svæði sem hafa verið í höndum Rússa síðan 2014, og níu þorp. Úkraínumenn eru komnir með tangarhald sunnan megin við Dnépr fljót og svæðið þar sem Kakhovka stíflan brast er óðum að þorna, sem gæti boðið upp á möguleikann á sókn í þá áttina.
Rússar ráð enn um 80.000 ferkílómetrum af úkraínsku landi og ljóst er að óheyrilegan tíma mun taka að frelsa það allt ef fram heldur sem horfir, og mannfall myndi verða gríðarlegt. En eins og í allsherjarstríðum 20. aldar ráðast úrslit ekki af einstaka sigrum á vígvellinum heldur af því hvort ríkið brotnar fyrst undan álaginu. Við höfum nú séð fyrstu áþreifanlegu vísbendinguna um að það muni verða Rússar sem láta undan.
Valur Gunnarsson, sagnfræðingur, rithöfundur og blaðamaður