Header Paragraph

Auglýst eftir nemum í rannsóknatengd nýsköpunarverkefni

Image

Úkraínuverkefni Háskóla Íslands leitar að fimm háskólanemum til að vinna að rannsóknatengdum nýsköpunarverkefnum í sumar, frá 1. júní. Um er að ræða þriggja mánaða ráðningu í fullt starf. Hlutastarf kemur einnig til greina.

Úkraínuverkefnið hefur umsjón með tveimur nýsköpunarverkefnum í sumar.

Rósa Magnúsdóttir stýrir verkefninu Stríð í Úkraínu: Endurkoma sögunnar? sem tveir háskólanemar munu sinna. Jón Ólafsson stýrir verkefninu Ísland og Úkraínustríðið sem þrír nemendur munu starfa að í sumar.

Ætlunin er að háskólanemarnir fimm starfi sjálfstætt undir handleiðslu Jóns og Rósu og verði um leið virkir þátttakendur í Úkraínuverkefninu sem heldur úti vefsíðu og hlaðvarpi (sjá https://ukraina.hi.is). Gert er ráð fyrir að hvor hópur skili skýrslu eða úttekt í lok sumars, en tækifæri gefst einnig til að birta efni jafnóðum á vef og í hlaðvarpi verkefnisins.

Áhugasömum er bent á að senda verkefnisstjóra Úkraínuverkefnisins umsókn í tölvupósti ekki síðar en 19. maí, til Helgu Brekkan, verkefnisstjóra Úkraínuverkefnisins (helgabrekkan@hi.is) og láta stutta greinargerð um menntun og fyrri störf fylgja. Umsækjendur þurfa að hafa gott vald á íslensku og ensku. Kunnátta í úkraínsku, rússnesku, hvítrússnesku, pólsku eða litháísku er kostur.

Þessi sumarstörf geta hentað öllum háskólanemum sem þekkja til í Úkraínu og nágrannalöndum og vilja tengja nám sitt eða rannsóknir betur við svæðið. Einkum má þó gera ráð fyrir að reynsla og fagþekking nemenda í tungumálum, bókmenntum og öðrum menningargreinum, fjölmiðlafræði, sagnfræði og stjórnmálafræði nýtist í þessum störfum.

Frekari upplýsingar má fá hjá Rósu Magnúsdóttur (rm@hi.is) og Jóni Ólafssyni (jonolafs@hi.is).