Er rússneska bönnuð í Úkraínu?

Rússnesk stjórnvöld hafa ítrekað staðhæft að í Úkraínu sé bannað samkvæmt lögum að tala eða gefa út efni á rússnesku. Um þrjátíu prósent af íbúum Úkraínu hafa rússnesku að móðurmáli og Rússar hafa gjarnan vísað til þessa meinta banns á tungumálinu sem sönnunar þess að rússneskumælandi minnihlutanum sé mismunað kerfisbundið.

Sergej Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, lét til dæmis þau orð falla á blaðamannafundi þann 6. júní 2022 að Úkraína hefði sett lög sem bönnuðu rússneska tungu.

„Ímyndið ykkur bara í stundarkorn að nágranni ykkar, Írland, sem nær yfir helming samnefndrar eyju, færi að banna notkun ensku, eða að Belgía bannaði frönsku, eða Sviss bannaði frönsku, þýsku eða ítölsku?“ sagði Lavrov við breska blaðamenn. „Hvað myndi Evrópu finnast um það?“

 

Tungumálalögin frá 2019

Image
Poroschenko

Petro Porosjenko, þáverandi forseti Úkraínu, undirritaði úkraínsku ríkismálslögin árið 2019, stuttu áður en hann vék úr forsetastóli. Mynd gefin út undir Creative Commons-leyfi.

Samkvæmt 10. gr. stjórnarskrár Úkraínu frá árinu 1996 er úkraínska eina ríkismálið. Hins vegar tryggir stjórnarskráin frjálsa þróun, notkun og vernd rússnesku og annarra tungumála þjóðernisminnihluta.

Gagnrýni Rússa virðist að miklu leyti beinast gegn lögum sem sett voru árið 2019 og heita (í þýðingu höfundar) „Lög um stuðning við notkun úkraínskar tungu sem ríkismáls“. Lögin voru samþykkt af úkraínska þinginu (úkr. Verkhovna Rada) og undirrituð af Petro Porosjenko, þáverandi forseta Úkraínu, 15. maí 2019.

Í stuttu máli sagt banna lögin ekki rússnesku, og raunar er hvergi minnst á rússneska tungu í lögunum. Lögin fela í sér að úkraínskir ríkisborgarar verða að geta talað úkraínsku og skylda opinbera starfsmenn, hermenn, lækna og kennara til að tjá sig á úkraínsku í störfum sínum. Lögin ná hvorki til einkasamskipta né til helgiathafna.

Samkvæmt lögunum eru prentfjölmiðlar með skráningu í Úkraínu jafnframt skyldaðir til þess að gefa út efni sitt á úkraínsku. Ekki er loku fyrir það skotið að þeir geti gefið út efni á öðrum tungumálum, þ. á m. rússnesku, en lögin kveða þá á um að efnið skuli einnig gefið út í úkraínskri þýðingu í sömu stærð og prentun.

Í lögunum er að finna ýmsar undanþágur sem heimila notkun ensku eða tungumála Evrópusambandsins í ákveðnum tilvikum. Ekki er að finna slíkar undanþágur fyrir rússnesku. Lögin kveða jafnframt á um að notkun krímtatarísku og tungumála annarra minnihlutahópa á opinberum vettvangi verði ákvörðuð samkvæmt lögum um þjóðernisminnihlutahópa.

Lög um þjóðernisminnihlutahópa voru samþykkt af úkraínska þinginu í apríl 2023. Þau lög kveða á um að hver sá sem tilheyri þjóðernisminnihluta eigi meðal annars rétt til notkunar á tungumáli samfélags síns og á menntun á tungumálinu, sem og rétt til að viðhalda menningarlegri sjálfsmynd sinni. Í lögunum er að finna heimild til að takmarka þessi réttindi ef það er álitið „nauðsynlegt í lýðræðislegu þjóðfélagi“ og er þá sérstaklega vísað til þess að bannað sé að breiða út áróður eða tákn „hinnar nasísku alræðisstjórnar Rússlands“.

 

Umsögn Evrópuráðsins

Feneyjanefnd Evrópuráðsins skilaði álitsgerð um tungumálalögin 9. desember 2019. Nefndin taldi að með lögunum væri stefnt að lögmætu markmiði, því að styrkja ríkismálið, meðal annars með vísan til ákvæða rammasamningsins um verndun þjóðarbrota og Evrópusáttmálans um svæðisbundin tungumál og tungumál minnihlutahópa. Eigi að síður lagði nefndin áherslu á að gæta yrði jafnvægis milli þessa markmiðs og virðingar við réttindi þjóðernisminnihluta.

Feneyjanefndin gagnrýndi það að undanþágur frá tungumálalögunum byggðust á því hvort um væri að ræða tungumál innan eða utan Evrópusambandsins og taldi þennan mælikvarða ekki hlutlægan eða málefnalegan. Nefndin taldi þennan mælikvarða ekki samræmast jafnræðisreglu þar sem um væri að ræða fyrirkomulag sem mismunaði tilteknum tungumálahópum innan Úkraínu – sér í lagi rússnesku en einnig belarúsku og jiddísku.

 

Kynslóðaskipti í málnotkun

Hvað sem líður lagalegri stöðu tungumálsins er ljóst að notkun rússnesku hefur snarminnkað í Úkraínu á síðustu árum, sér í lagi eftir að innrás Rússa hófst í febrúar 2022. Kannanir og viðtöl við landsmenn hafa sýnt að margir Úkraínumenn sem ólust upp rússneskumælandi hafa vísvitandi tamið sér að tala frekar úkraínsku en rússnesku í daglegu lífi vegna stríðsins. Er þetta þá gert í því skyni að sýna rússneska innrásarliðinu andspyrnu með því að tjá sig á tungumáli sem á sér vart tilverurétt samkvæmt rússneskum áróðri.

Erfitt er að áætla hve margir Úkraínumenn hafa hætt að tala rússnesku en manntöl og kannanir sýna miklar sviptingar. Samkvæmt könnun sem úkraínska tölfræðistofnunin Rating Group birti þann 25. mars 2022 féll hlutfall Úkraínumanna sem litu á rússnesku sem móðurmál sitt um rúm tuttugu prósent á árunum 2012 til 2022, úr 42 prósentum í 20 prósent. Sér í lagi urðu miklar breytingar á tímabilinu frá lokum ársins 2021 til upphafs innrásarinnar í febrúar 2022, en þá lækkaði hlutfall þeirra sem sögðust tala rússnesku dagslega um átta prósent, úr 26 prósentum í 18 prósent. Margir þessara svarenda sögðust nú tala rússnesku og úkraínsku til jafns.

Samkvæmt annarri könnun Rating Group frá 2022 hefur jafnframt verulega dregið úr áhorfi og hlustun Úkraínumanna á rússneskt sjónvarpsefni og tónlist síðan innrásin hófst. Rúm fjörutíu prósent aðspurðra sögðust alfarið hafa hætt að horfa og hlusta á rússneska sjónvarpsþætti og tónlist eftir upphaf innrásarinnar.

Klara Sibilova hefur einnig skrifað um breytt viðhorf til rússnesku og greinina er hægt að lesa hér.

                                                                                                                                                       Þorgrímur Kári Snævarr

Heimildir og ítarefni

Álitsgerð Feneyjanefndarinnar um úkraínsku tungumálalögin frá 2019

Könnun Rating Group um tungumál Úkraínumanna frá 2022 

Könnun Rating Group um föðurlandsást Úkraínumanna frá 2022

Lög Úkraínu um þjóðernisminnihlutahópa

Skýrsla Úkraínu til Evrópuráðsins um framfylgni við rammasamninginn um verndun þjóðarbrota

Úkraínsku tungumálalögin 2019 í enskri þýðingu Feneyjanefndarinnar

 

Hvað er staðreyndavaktin?

Úkraína og innrás Rússa í Úkraínu hafa verið fyrirferðarmikil í alþjóðlegri þjóðfélagsumræðu í um eitt og hálft ár. Á þessum tíma hafa fjölmiðlar og vefsíður fyllst af aragrúa fullyrðinga um Úkraínu, stríðið og orsakir þess og ýmislegt fleira sem tengist úkraínsku þjóðinni. Í staðreyndavakt Úkraínuverkefnisins verður farið yfir ýmsar staðhæfingar sem birst hafa um Úkraínu í þjóðfélagsumræðu undanfarinna ára. Reynt verður að hnekkja rangfærslum, leiða sannleika í ljós og setja hinar ýmsu staðhæfingar í rétt samhengi.

Ef lesendur sjá fullyrðingar um Úkraínu eða stríðið og vilja álit um sannleiksgildi þeirra verður hægt að beina fyrirspurnum til Úkraínuverkefnisins á netfangið: helgabrekkan@hi.is  Umsjónarmaður staðreyndavaktarinnar er Þorgrímur Kári Snævarr.