Kristni í Úkraínu
Áhrif stríðsins í Úkraínu er víða að finna. Fréttir frá átakasvæðum hrannast inn, og nýjar vendingar í alþjóðastjórnmálum eru daglegt brauð. Rétttrúnaðarkirkjan (e. The Orthodox Church) er ein af þeim fjölmörgu stofnunum sem hafa orðið fyrir gríðarlegum áhrifum af allsherjarinnrás Rússlands í Úkraínu.
Rétttrúnaðarkirkjan
Þegar furstinn Volodímír í Kænugarði tók kristna trú árið 988, þá hafði formlegur klofningur rétttrúnaðarkirkjunnar og kaþólsku kirkjunnar ekki átt sér stað. Helgisiðir þróuðust hægt í mismunandi áttir í austri og vestri, og á endanum varð þessi litli munur á helgisiðum og meginreglum (e. dogma) til þess að hvorug hliðin vildi samþykkja sannfæringu hinnar. Árið 1054 klofnaði frumkristna kirkjan í tvennt, en klofningurinn hafði staðið yfir frá fjórðu öld. Vesturhlutinn varð að kaþólsku kirkjunni, og austur hlutinn varð að rétttrúnaðarkirkjunni. Æðsta embætti kaþólsku kirkjunnar er páfinn í Róm, en í rétttrúnaðarkirkjunni er ekkert embætti sem er sambærilegt páfadómnum. Þess í stað er rétttrúnaðarkirkjan með patríarka, sem er æðsta embætti rétttrúnaðarkirkjunnar. Talað er um að patríarkinn í Konstantínopel (Istanbúl) sé „æðsti“ patríarkinn, en hann hefur samt sem áður ekki vald yfir öðrum patríörkum, heldur er hann kallaður „fremstur meðal jafningja.“ Þetta þýðir að ef patríarkinn í Moskvu sýnir stuðning við innrás Rússa í Úkraínu, þá geta hinir patríarkarnir ekki rekið hann eða veitt honum áminningu í starfi eða annað þess háttar. Patríarkar geta bannfært hvorn annan, en það hefur ekki áhrif á annað en samskipti þeirra á milli. Innan rétttrúnaðarkirkjunnar eru færri patríarkar heldur en sjálfstæðar kirkjur, svo það er ekki skilyrði til sjálfstæðis að hafa patríarka.
11. júlí birti eistneski fréttamiðillinn Postimees viðtal við Bartholomeus, patríarka í Konstantínópel. Bartholomeus var skýr í sinni afstöðu gegn stríðinu, og lýsti miklum vonbrigðum í garð Kírils, patríarkans í Moskvu, yfir stuðningi hans á stríðinu. „Því miður kaus Kírill patríarki í Moskvu að samsama sig frá fyrstu stundu ákvörðunum Pútíns forseta og blessaði innrás rússneska hersins inn á yfirráðasvæði Úkraínu, fullvalda og sjálfstæðs ríkis. Þetta veldur djúpri sorg og sársauka í hjarta okkar. Mest áhrif hefur það þó fyrir fólkið í Úkraínu. Þegar öllu er á botninn hvolft geturðu ekki fullyrt að þú sért bróðir annarrar þjóðar, þegar þú styður stríð sem þjóð þín boðaði gegn þeim,“ segir Batholomeus patríarki í viðtalinu, og segir seinna um stríðið: „Veruleiki þess stangast algjörlega á við það sem Drottin vor kennir.“
Bartholomeus patríarki Konstantínópel. Á stafnum er tvíhöfða örn – tákn býsansríkisins sem Ottómanar sigruðu 1453. Rússneska keisaradæmið notaði tvíhöfða örninn líka til að undirstrika tengsl sín við Býsans, og sama tákn notar Rússland nú í skjaldarmerki ríkisins.
Rússneska rétttrúnaðarkirkjan
Rússneska rétttrúnaðarkirkjan á rætur að rekja til Kænugarðs í Úkraínu, en árið 988 tók furstinn Volodímír Kristna trú, og kristnaði í leiðinni þegna sína. Æðsta sæti rétttrúnaðarkirkjunnar í hinum slavneska heimi var þaðan af í Kænugarði þar til það var flutt til borgarinnar Vladímír árið 1299, en þaðan til Moskvu árið 1325. Það var ekki fyrr en árið 1686 sem patríarkadæmið í Moskvu fékk umboð til þess að útnefna Metrópólítana í Kænugarði. Rússneska rétttrúnaðarkirkjan hefur beitt sér ákaft til þess að halda þessum völdum yfir úkraínsku rétttrúnaðarkirkjunni. Þessi hagsmunaárekstur, þar sem rússneski patríarkinn í Moskvu á að vera trúarleiðtogi bæði í Rússlandi og í Úkraínu, er búinn að vera afgerandi síðan Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014. Kírill patríarki var ekki viðstaddur þegar Pútín tilkynnti innlimunina 18. mars, 2014. Sennilega hefur hann ekki viljað láta svo virðast að hann styddi landvinninga inn í Úkraínu, þar sem hann vildi halda góðu sambandi við sóknarbörn sín þar. Það var samt ekki nóg að sitja hjá, og margir urðu óánægðir með það að kirkjan tók ekki skýra afstöðu gegn innlimun Rússa á Krímskaga. Í upphafi innrásarinnar tók Kírill patríarki hinsvegar skýra afstöðu, þegar hann gaf blessun sína fyrir innrás Rússa í Úkraínu, og hann sagði í predikun að þeir sem láti lífið við að gegna herskyldu færi með því fórn. Þessi fórn þvær burtu allar syndir sem þeir hafa framið. Í dag er rétttrúnaðarkirkjan í Úkraínu sem er undir patríarkanum í Moskvu kölluð úkraínska rétttrúnaðarkirkjan (e. Ukrainian Orthodox Church eða UOC).
Kírill patríarki Moskvu.
Rétttrúnaðarkirkja Úkraínu
Rétttrúnaðarkirkja Úkraínu hefur sóst eftir sjálfstæði frá rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni árum saman. Árið 1991, stuttu eftir að Úkraína lýsti yfir sjálfstæði sínu, fór rétttrúnaðarkirkja Úkraínu að biðja um að fá fullkomið sjálfstæði. Bartholomeus patríarki í Konstantínopel vildi fyrst ekki veita þeim sjálfstæði, vegna þess að stuðningur almennings í Úkraínu var ekki nógu mikill, og honum virðist ekki hafa fundist nægilegt tilefni til þess. En þegar Rússar innlimuðu Krímskaga varð breyting þar á og sameinuð afstaða almennings og stjórnvalda í Úkraínu varð til þess að Bartholomeusi snerist hugur. Þrátt fyrir mikla mótstöðu frá patríarkadæminu í Moskvu var umboð Moskvu til að tilnefna Metrópólitana í Úkraínu frá árinu 1686 numin úr gildi í október árið 2018. 5. janúar 2019, veitti Bartholomeus patríarki rétttrúnaðarkirkju Úkraínu fullt sjálfstæði og Epifaníus Metrópólítani var gerður að æðsta leiðtoga kirkjunnar. Þetta varð til þess að rússneska rétttrúnaðarkirkjan sleit tengslum við Konstantínopel. Almennum leikmönnum rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar var bannað að taka við altarissakramentinu í kirkjum innan patríarkadæmis Bartholomeusar. Það fylgdi engin önnur kirkja þessu fordæmi rússnesku kirkjunnar, en flestar vildu þær ekki heldur viðurkenna sjálfstæði úkraínsku kirkjunnar.
Sjálfstæða rétttrúnaðarkirkjan í Úkraínu heitir Rétttrúnaðarkirkja Úkraínu (Orthodox Church of Ukraine, eða OCU).
Bartholomeus patríarki Konstantínopel afhendir Epífaníusi Metrópólítana tilskipun um sjálfstæði Rétttrúnaðarkirkju Úkraínu.
Grísk-kaþólska kirkjan
Grísk-kaþólska kirkjan í Úkraínu er önnur og sjálfstæð stofnun. Hún varð til í kjölfar sameiningar kirkjudeilda sem kennd er við Brest við lok sextándu aldar (1596), en hluti rétttrúnaðarkirkjunnar í Vestur-Úkraínu og Belarús sameinaðist þá kaþólsku kirkjunni í Róm, en fékk þó að halda helgisiðum rétttrúnaðarkirkjunnar. Grísk-kaþólska kirkjan er einstök hvað þetta varðar en þessi skipan mála endurspeglar þá pólitísku málamiðlun sem sameiningin krafðist. Séra Mykhailo, úkraínskur grísk-kaþólskur prestur sem búsettur er á Íslandi, lýsir henni á þennan hátt: „Eftir klofning kirkjunnar árið 1054 unnu biskupar í Kænugarði í langan tíma að sameiningu kirkjunnar. Hópur af biskupum í rétttrúnaðarkirkjunni í Úkraínu ákvað að mynda aftur þá einingu sem áður var, og árið 1596 var Brestarsáttmálinn undirritaður í kirkjuþinginu í Brest. Frá þeim tíma byrjaði úkraínska grísk-kaþólska kirkjan að þróast. Þetta er ekki ný kirkja, heldur kirkja sem var til áður, með endurnýjuðum tengslum á milli austurs og vesturs.“
Sumir trúarleiðtogar og leikmenn kirkjunnar í Kænugarði kröfðust þess að vera áfram hluti af umdæmi patríarkans í Konstantínópel. Mið- og austurhluti Úkraínu urðu að yfirráðasvæði Rússlands árið 1654, og fljótlega varð úkraínska rétttrúnaðarkirkjan að umdæmi patríarkadæmisins í Moskvu. Rússneska keisaradæmið ofsótti grísk-kaþólska Úkraínumenn, og neyddi marga til þess að afneita trú sinni, og ganga í rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna. Mest bar á þessu frá því seint á átjándu öld og mestan hluta nítjándu aldar. Í dag tilheyra grísk-kaþólsku kirkjunni um fimm og hálf milljón manns.
Séra Mykhailo, grísk-kaþólskur prestur á Íslandi.
Aðpurður hver sé munurinn á grísk-kaþólsku kirkjunni og kaþólsku kirkjunni segir Séra Mykhailo: „Helgisiðirnir eru eini munurinn, athafnirnar í messunni sjálfri. Munurinn á grísk-kaþólsku kirkjunni og rétttrúnaðarkirkjunni liggur í einingu grísk-kaþólsku kirkjunni við páfann í Róm, og í dogmatískum mun. Rétttrúnaðarkirkjan samþykkir réttmæti fyrstu átta Samkirkjuþingana (e. Ecumenical Councils), en þau sem haldin voru síðar lögðu einungis línur fyrir þróun kaþólsku kirkjunnar. Vegna þess að samfélagið breytist, og á hverju tímabili koma upp nýjar spurningar sem þarf að svara, og kirkjan heldur þessi Samkirkjuþing til þess að halda trúnni á réttri braut.“
Enn er óvíst hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir rétttrúnaðarkirkju Úkraínu, sem nýlega öðlaðist sjálfstæði. Það mun koma í ljós hvort enn fleiri sjálfstæðar rétttrúnaðarkirkjur viðurkenni sjálfstæði hennar. Þegar hefur hún verið viðurkennd af rétttrúnaðarkirkjunni í Konstantínópel, Alexandríu, Kýpur og Grikklandi. Einnig er erfitt að segja hver framtíð rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar verður, eftir að hún hefur slitið sambandi við patríarkadæmið í Konstantínópel.
Agnar Óli Snorrason, BA í rússnesku.
Heimildir og ítarefni:
Fræðigreinar:
The Russian Orthodox Church: Faith, Power and Conquest - ICDS
Church and Geopolitics: The Battle Over Ukrainian Autocephaly – PONARS Eurasia
Aðrar heimildir:
Predikun Kírils Patríarka 25. September 2022