Séra Mykhailo grísk-kaþólskur prestur við Landakotaskirkju.
Viðtal við séra Mykhailo
Safnaðarhús kaþólsku kirkjunnar við Landakot, þar sem prestarnir hafa aðsetur stendur við Hávallagötu. Einn af presturnum sem býr þar núna er séra Mykhailo Ivanyak, en hann er grísk-kaþólskur prestur frá Úkraínu. Hann bauð okkur Klöru Sibilova að kíkja til sín í heimsókn og taka við sig viðtal. Við mættum í safnaðarheimilið á tilsettum tíma. Það var mikið um að vera á safnaðarheimilinu þegar við heimsóttum séra Mykhailo, enda Þorláksmessa að sumri á þessum degi, 20. júlí, sem er stórhátíðardagur í kaþólsku kirkjunni á Íslandi. Séra Mykhailo tók á móti okkur og bauð okkur inn í laust herbergi svo við gætum spjallað saman. Við settumst við hringborð, þrjú saman, ég, hann og Klara sem var þarna til þess að túlka fyrir okkur, vegna þess að ég tala ekki úkraínsku, og séra Mykhailo fannst hann ekki geta gefið eins ítarleg svör á ensku og hann vildi gera. Hann spurði okkur hvort hann mætti bjóða okkur kaffi eða te, svo settumst við niður og hófum spjallið. Séra Mykhailo er mjög upptekinn maður, en á meðan hann var með okkur fengum við alla hans athygli.
Séra Mykhailo er 44 ára, frá bænum Ívano-Frankívsk í Úkraínu. Hann var vígður sem prestur árið 2006 og hefur starfað sem slíkur síðan. Hann er einnig hluti af Redemptoristareglunni, sem er prestaregla innan kaþólsku kirkjunnar. Þegar hann er spurður hvernig stríðið komi við heimabæ hans bendir hann á að átökin séu að mestu í Austur-Úkraínu, en Ívano-Frankívsk sé í Vestur-Úkraínu. Loftárásir hafa verið gerðar á Ívano-Frankívsk, en átökin eru ekki þar. Þó bætir hann við: „Margir vinir mínir, kunningjar og nágrannar frá svæðinu fóru á átakasvæðin til að berjast, og margir af þeim eru þegar dánir.“ Áður en stríðið byrjaði var búið að ákveða að séra Mykhailo myndi koma til Íslands, til þess að veita grísk-kaþólskum Úkraínumönnum á Íslandi sáluhjálp og halda messur, sem varð enn nauðsynlegra þegar stríðið byrjaði, þó stríðsátökin sem slík hafi ekki verið ástæða þess að hann fluttist til Íslands. Hann kom til Íslands 9. nóvember 2022. Spurður hvort mikið sé af grísk-kaþólskum Úkraínumönnum á Íslandi svarar hann að það sé erfitt að segja, en að það séu rúmlega 3000 Úkraínumenn á Íslandi núna, og að hann aðstoði hvern sem er, hvort sem þau séu grísk-kaþólsk eða ekki. „Ef einhver þarf að tala við prest á úkraínsku, eða vill biðja á úkraínsku, þá geta þau komið til mín.“ Á sunnudögum heldur hann messu í Maríukirkju í Breiðholti, hann fer einu sinni eða tvisvar á mánuði á Bifröst, og um jólin fór hann til Akureyrar. Hann ætlar að heimsækja alla staði á Íslandi þar sem Úkraínumenn eru.
Þegar ég spyr hann um Ísland segir hann að Ísland sé áhugavert á sumrin, en að hann hafi þurft að aðlagast íslenska vetrinum. Annað sem hann er óvanur er aðstaðan sem hann býr við hérna á Íslandi. Hann býr í samfélagi með öðrum prestum, sem er í sjálfu sér ekkert nýtt fyrir hann, en hérna eru prestarnir næstum allir frá mismunandi löndum. Við matarborðið eru oft margir prestar, hver frá sínu landinu. Það er ný upplifun fyrir hann. Honum finnst einnig mikið til þess koma hve einlægur vilji Íslendinga er til að hjálpa úkraínsku þjóðinni.
Hann segir að líðan úkraínska fólksins á Íslandi sé misjöfn eftir atvikum. „Sumir eru búandi uppúr ferðatöskum, fólk er ennþá á leiðinni hingað. Margir eru að velta fyrir sér hvað þeir eigi að gera. Hvort það eigi að setjast að hér, eða snúa aftur til Úkraínu, og sumir hafa engan stað til þess að snúa aftur til, vegna þess að það er búið að eyðileggja heimilin þeirra, eða Rússar eru búnir að yfirtaka þau. Fólk er að leita sér að vinnu og að íbúðum, vegna þess að íslensk stjórnvöld veita ekki aðstoð nema til ákveðins tíma, um tvo mánuði. Foreldrar þurfa að hjálpa börnunum sínum að aðlagast íslenska skólakerfinu. Fyrir sum börn er auðvelt að aðlagast íslenska skólakerfinu, en fyrir önnur er það erfiðara. Til dæmis, einn strákur sem ég ræddi við, ég spurði hann hvernig væri í skólanum á Íslandi, og hann sagði mér að það væri betra en í Úkraínu, vegna þess að það er minna álag hér heldur en heima, hér er meira frelsi, og minni kröfur lagðar á hann.“ [innskot frá Klöru: Það er algengt að fjölskyldur í Úkraínu setji mikla pressu á börnin sín til þess að láta þau læra, en það eru áhrif frá sovét-tímanum]. „Ég þekki líka stelpu sem var um 14 ára, og það var erfitt fyrir hana að aðlagast skólanum á Íslandi. Hún átti erfitt með að eignast vini í skólanum. Það var erfitt fyrir hana að tengjast jafnöldrum sínum, og hún fór aftur til pabba síns í Úkraínu, en mamma hennar er ennþá hérna á Íslandi. Það er oft auðveldara fyrir yngri krakkana, en erfiðara fyrir unglinga að aðlagast í nýju landi.“
Séra Mykhailo ásamt nokkrum úkraínskum börnum á Íslandi.
„Margt af fullorðna fólkinu var vel stætt heima í Úkraínu. Þau voru framkvæmdastjórar, læknar, kennarar, yfirmenn í fyrirtækjum, en það er erfitt að finna störf á Íslandi sem passa við sérhæfingu hvers og eins. Til dæmis þekki ég konu sem var læknir í Kharkiv, en hérna á Íslandi er hún byrjuð að mála myndir. Hún uppgötvaði listræna hæfileika sína eftir að hún kom til Íslands. Þannig að þetta gefur líka tækifæri á því að uppgötva eitthvað nýtt, einhvern hæfileika.“
Málverk eftir úkraínska konu sem byrjaði að mála eftir að hún kom til Íslands.
Séra Mykhailo segir að það hafi ekki verið flókið fyrir sig að flytja til Íslands. Hann tilheyrir reglu Redemptorista, en það er ekki erfitt fyrir þá að flytja á milli staða. Í köllun þeirra felst að þeir fari til staða þar sem þeirra er þarfnast. Þegar stríðið braust út var séra Mykhailo í borginni Tsjernihív, sem var hertekin af Rússum, en Rússarnir voru á leiðinni til Kænugarðs frá Belarús, og Tsjernihív svæðið er nálægt landamærum Belarús, í norður-Úkraínu. Fólkið í Tsjernihív hafði búist við því að borgin yrði hernumin af Rússum, og hafði haft tíma til þess að gera ráðstafanir og undirbúa sig.
„Ég kom til Tsjernihív 16. febrúar 2022 og fór í apríl, eftir páska. Ég bjó í grísk-kaþólskri kirkju [Kirkju fæðingar hinnar heilögu Guðsmóður], og klaustur sem við höfum þar var notað sem skýli fyrir um 100 manns sem voru að fela sig. Allir bjuggu saman, foreldrar, börn, gæludýr. Við bökuðum brauð og gáfum fólki mat, vegna þess að allar búðir voru lokaðar. Við fórum með mat og vatn til fólks í neyð. Það var ekkert rennandi vatn í Tsjernihív, og ekkert rafmagn þegar Rússar voru búnir að hernema borgina, vegna þess að þeir sprengdu upp rafmagnsstöðina og vatnsstöðina. Í klaustrinu var þegar vatnshitunarkerfi, og eftir einhvern tíma var hægt að útvega rafal, sem gerði okkur kleift að hjálpa fólki, og gefa þeim samastað. Heima hjá fólki var ekkert gas, ekkert rafmagn, enginn hiti, ekkert rennandi vatn. Fólk gat komið í klaustrið og fengið að vera þar. Við héldum að hver nýr dagur yrði okkar síðasti,“ segir séra Mykhailo.
„Það var stórt fjölbýlishús 300 metra frá kirkjunni, sem var eldflaugaskotmark fyrir Rússana. Einn prestanna sem voru að færa fólkinu vatn var inni í kirkjunni þegar sprengja lenti á fjölbýlishúsinu, og aflið af sprengingunni var svo mikið, að hurðirnar á kirkjunni feyktust upp og hún nötraði. Seinna var okkur sagt að það væri lík af manni í byggingunni, sem hefði dáið í sprengingunni. Við gátum ekki náð í líkið í heilan mánuð.“
Eftir 14 daga af hernáminu skrifaði séra Mykhailo bók á nokkrum klukkutímum um nóttina. Hann gat ekki sofið, vegna þess að það sprakk sprengja um það bil fimm sinnum á hverri nóttu. Bókin heitir Vegur krossins í drunum stríðsins.
Bókin ber heitið „Vegur krossins í drunum stríðsins.“ Í henni eru textabrot úr Guðspjöllunum og hugleiðingar sem séra Mykhailo skrifaði útfrá þeim. Bókin er myndskreytt af Évhenij Petrenko.
Rétt hjá Tsjernihív er þorp sem heitir Jahidne sem Rússar hertóku einnig og notuðu skólann þar sem bækistöð. Þegar þeir yfirgáfu þorpið kom í ljós að Rússarnir höfðu haldið úkraínskum föngum í kjallara undir skólanum. Þeir höfðu haldið um 300 föngum samanlagt, þar á meðal öldruðu fólki og börnum. Séra Mykhailo og hinir prestarnir voru beðnir um að finna lík áttræðs manns sem hafði kafnað í kjallaranum þar sem fangarnir voru geymdir, og annast nýja greftrun. „Það var erfitt að finna lík mannsins, vegna þess að það voru margar grafir þarna, og í fyrstu gröfinni sem við grófum upp var lík konu, svo við þurftum að jarða hana aftur fyrst, og grafa svo upp næstu gröf þangað til við fundum lík mannsins. Grafirnar sem Rússarnir grófu voru grunnar og ómerktar.“
„Ég man líka eftir konu sem þurfti að jarða manninn sinn, en það vantaði höfuðið á líkið. Sprengjubrot hafði hæft hann og tekið af honum höfuðið. Konan gat ekki hugsað sér að jarða manninn sinn án höfuðsins, svo hún fór að leita að höfðinu. Fólk var að glíma við erfið sálræn áföll vegna stríðsins, og þess vegna leitaði það til prestana til þess að fá svör við sínum spurningum. Fólkið sem faldi sig í klaustrinu fann fyrir öryggi. Það gat eldað mat, verið með börnunum sínum, og komist í vatn,“ segir séra Mykhailo.
Fólk sem leitaði skjóls í klaustrinu.
Stuttu áður en Rússarnir fóru höfðu prestar frá mörgum kirkjudeildum ákveðið að biðja saman á hverjum miðvikudegi í þrjár vikur fyrir páska. Þetta voru prestar frá rétttrúnaðarkirkju Úkraínu, frá kaþólsku kirkjunni, frá grísk-kaþólsku Kirkjunni, og prestar mótmælendakirkjunnar. Þeir ákváðu að sameinast allir í bæn. Nokkrum dögum eftir bænastundina fóru Rússarnir. Séra Mykhailo heldur því þó ekki fram að Rússarnir hafi farið vegna bænanna, heldur vegna hetjudáða úkraínsku hermannanna, sem hann segir að hafi verið kraftaverki líkastar.
Séra Mykhailo er annar frá vinstri á myndinni.
„Fólk sem hafði verið í klaustrinu sýndi mér heimilin sín eftir að Rússar höfðu búið í þeim og lagt þau í rúst. Rússarnir fluttu inn í auðu húsin og íbúðirnar á meðan eigendurnir földu sig, og skildu þessi heimili eftir í ömurlegu ástandi.“
Skjámyndir úr myndbandi sem sýnir ástandið á úkraínsku heimili eftir að rússneskir hermenn höfðu verið þar.
Að lokum segir séra Mykhailo okkur sögu af tveimur prestum frá borginni Berdjansk í suð-austur Úkraínu. „Eftir að innrásin í Úkraínu byrjaði fóru þessir tveir prestar á hverjum degi að Azov-hafinu til þess að biðja fyrir friði. Rússar handtóku þá fyrir 9 mánuðum, fyrir það eitt að biðja við sjóinn á hverjum degi. Það hefur enginn heyrt neitt frá þessum prestum síðan, enginn veit hvort þeir eru einusinni á lífi. Það er mjög erfitt fyrir mig og aðra presta sem þekktu þá,“ segir séra Mykhailo, „og fyrir fjölskyldur þeirra, að vita ekki hvort þeir eru lífs eða liðnir. Þegar Úkraínsk yfirvöld hafa handtekið rússneska presta, til dæmis ef þeir eru leynilegir útsendarar FSB, eða fyrir að hjálpa rússneskum hermönnum, þá sýna úkraínsku yfirvöldin þeim mannúð, en það er ekki hægt að segja um meðferð Rússa á Úkraínumönnum. Á hernumdum svæðum senda Rússar alla presta burt, nema presta Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, til þess að fólkið hafi ekkert val um hvert það vill fara að biðja, og geti bara farið í Rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna, sem styður stríðið, og breiðir út rússneskan áróður. Allir aðrir prestar eru annaðhvort sendir til annarra svæða í Úkraínu, sem ekki eru hernumin, eða í fangabúðir í Rússlandi.“
Stríðið í Úkraínu hefur umturnað tilveru margra Úkraínumanna. Séra Mykhailo gegndi því erfiða hlutverki í Tsjernihív að hjálpa og styðja við samlanda sína þegar Rússar hertóku borgina og hann gegnir sama hlutverki hér á Íslandi. Fólk hefur og er að glíma við aðstæður sem erfitt er að ímynda sér, áföllin eru mikil sem fólk þarf að vinna úr og margir hafa þurft að takast á við nýjan veruleika fjarri heimahögum sínum. Við kveðjum séra Mykhailo að sinni og þökkum honum fyrir viðtalið, enda er hann upptekinn maður í sístækkandi samfélagi Úkraínumanna á Íslandi.
Agnar Óli Snorrason, BA í rússnesku og Klara Sibilova, nemi í íslensku sem erlent tungumál við Háskóla Íslands.
Agnar óli skrifaði einnig grein um kristni í Úkraínu, og hægt er að lesa greinina hér.