Réttlætiskennd og siðferðileg skylda – Réttur Úkraínumanna til að verjast innrás Rússa
Þegar stjórnvöld taka ákvörðun um þátttöku í stríði, getur almenningur annaðhvort verið með eða á móti þessari ákvörðun. Stríð bitnar mest á almenning, hvort sem um er að ræða óbreytta borgara eða hermenn. Í gegnum tíðina hafa upplifanir t.d. fótgönguliða í hernum eða óvopnaðra og berskjaldaðra borgara á stríðstímum oft verið í brennidepli. Þær eru undirstrikaðar í bókmenntum, frásögnum, myndlist, bíómyndum, tölvuleikjum ofl. Hvernig stendur þá á því að samt er fólk iðulega fúst til þess að taka þátt í ofbeldisfullu stríði og stefna bæði lífi sínu og nákominna í hættu? Hvað réttlætir þess konar ofbeldi?
Margir myndu telja að þjóðernishyggja sé oft á bak við þann baráttuanda sem nauðsynlegur er í stríði en þó virðist fleira eiga á þátt í honum, þ.á.m. réttlætiskennd. Hvort sem her er að verjast eða gera innrás er það m.a. hugmyndin um óréttlæti sem er drifkraftur hans. Umfjöllun hefur verið um það hvort innrás Rússlands inn í Úkraínu sé að einhverju leyti réttlætanleg. Rússum finnist Úkraínumenn einfaldlega vera Rússar, á rússnesku yfirráðasvæði sem séu að rísa upp á móti rússneska ríkinu. Slíkt rússneskt sjónarhorn er því notað til að réttlæta „hernaðaraðgerð“ í því skyni að bæla niður „uppreisnina.“ Þessi uppreisn felst, að sögn Rússa, ásamt öðru í illri meðferð Úkraínumanna á Rússum sem búa í Úkraínu með því meðal annars að banna notkun rússnesku (vert er að benda á að aldrei hefur verið lagt bann við því að nota rússnesku í Úkraínu, sjá grein Þorgríms Snævarr, „Er rússneska bönnuð í Úkraínu“). Þetta eru rök stjórnvalda í Rússlandi fyrir fullyrðingunni að uppreisn Úkraínumanna felist í kerfisbundnum ofsóknum gagnvart Rússneskumælandi íbúum í Úkraínu.
En rök af þessu tagi duga náttúrulega alls ekki til réttláta innrás í sjálfstætt ríki, enda ber að nefna að baráttuandinn frá rússnesku hliðinni virðist vera lakari en frá þeirri úkraínsku. Afstæðishyggja (e. relativism) gengur út að hafna einum algildum og sjálfstæðum sannleika, og setja sannleikann alltaf í samhengi við t.d. menningu eða tíma. Siðferðileg afstæðishyggja er undirflokkur afstæðishyggju og kenning í siðfræði sem heldur fram að engin siðferðileg breytni sé í raun æðri eða réttari en önnur – það sem er talið rétt hverju sinni ræðist af samfélaginu. Samkvæmt siðferðilegri afstæðishyggju eru Rússar að breyta rétt ef þeir virkilega trúa að þeir geri það. Þessi vinkill lítur gersamlega framhjá því ofbeldi, sársauka og dauða sem her Rússlands hefur valdið. Þótt að Rússar trúi áróðrinum sem berst frá rússneska ríkinu og trúi því jafnvel að þær staðhæfingar réttlæti innrásina er hún samt sem áður siðferðilega óverjandi. Ástæðan er sú að saklausir einstaklingar eiga ekki að líða þjáningar fyrir glæpi sem þeir frömdu ekki – það er einfaldlega óréttlátt. Meira að segja þótt satt væri að Rússar væru á einhvern hátt menningarlega kúgaðir af úkraínskum yfirvöldum gefur það rússneska ríkinu engar gildar ástæður fyrir innrás sem bitnar mest á óbreyttum borgurum. Jafnvel þeir sem aðhyllast siðferðilega afstæðishyggju geta ekki þar með réttlætt ofbeldi gegn saklausu fólki.
Siðferðileg afstæðishyggja útskýrir heldur ekki af hverju Rússar neyðast til þess að hefja stríð. Úkraína telur réttilega að innrás Rússlands, og ofbeldið sem henni fylgir, sé brot gegn úkraínsku þjóðinni. Það er óréttlátt að eitt ríki ráðist inn fyrir landamæri annars, leggi borgir í rúst og myrði fólk. Eina raunverulega leiðin til að vernda það sem er úkraínskt og reyna að stuðla að réttlæti er að berjast á móti. Þótt hugmyndin um réttlæti geti verið breytileg eftir menningarumhverfum, er einhvers konar útgáfa af „auga fyrir auga“ oftast samþykkt. Ef brotið er gegn einhverjum, sérstaklega ef ekki er um mistök að ræða heldur brot af ráðnum hug, er ætlast að bætt sé fyrir brotið á einhvern hátt – þannig skiljum við réttlæti. Lögbrot þýðir sekt eða fangelsun þess sem fremur það og þannig er réttlætinu í vissum skilningi fullnægt, þótt það færi fólki ekki til baka það sem hefur verið ranglega tekið af því. Ef Rússar geta ráðist inn og framið glæpi án nokkurra afleiðinga er það ranglátt hvernig sem á það er litið. Þessir glæpir felast í ofbeldi og skemmdum á borgum og híbýlum.
Því eru réttindi Úkraínumanna til þess að verjast innrás Rússa tvíþætt. Annars vegar á þjóðin rétt á því að verjast ofbeldinu sem hún er beitt, og hins vegar felst rétturinn í því að fá tjónið sem innrásin hefur valdið á yfirráðasvæðum Úkraínu bætt.
En það er ekki aðeins réttlæti sem knýr hermenn áfram. Tilfinningin fyrir siðferðilegri skyldu til þess að vernda fjölskyldu, vini og þá sem eru minni máttar leikur einnig stórt hlutverk í ákvörðuninni um að taka þátt í stríði. Þjóðernissinnar finna fyrir siðferðilegri skyldu gagnvart þjóðinni og menningunni sem þeir tilheyra. Margir telja að það sé einungis náttúrulegt að við pössum sem best upp á nánustu ættingja, og svo minna og minna eftir því sem farið er lengra út í samfélagið, og svo þvert yfir landamæri. Slík hugsun tíðkast ekki aðeins í „vestrinu“ heldur má finna dæmi um hana víðar, t.d. í kínverskri heimspekistefnu Konfúsíusar. Þegar menningu, sem manni er náin og kær er ógnað og afneitað er gildi og vægi hennar er það um leið árás á líf og lifnaðarhætti fólksins sem á þessa menningu sameiginlega, enda kemur menning við flest í daglegu lífi okkar þótt það sé ekki alltaf meðvitað. Fólkið sem deilir menningu er sameinað og náið þegar menningin sætir árásum því að menningarleg sjálfsmynd (e. cultural identity) undirstrikar það sem einstaklingarnir í samfélaginu eiga sameiginlegt. Afneitun menningar er þannig afneitun fólksins, fólksins sem er náið og ber því skylda til að vernda hvert annað. Því neyðast Úkraínumenn til þess að verjast innrásinni, í þeim tilgangi að vernda og styðja mennsku og mannlíf Úkraínu og menningu landsins. Siðferðilega skyldan gagnvart menningu og nákomnum nær hins vegar ekki til rússnesku hliðarinnar, Rússar hafa ekki gildar ástæður til þess að ráðast inn í Úkraínu. Ógnin sem stjórnvöld Rússlands töldu stafa af frjálsri Úkraínu var í fyrsta lagi ósönn, og í öðru lagi óvirk, þ.e. jafnvel þótt einhver legði trúnað á hana gat engan veginn leitt af því að rússnesku þjóðinni eða Rússlandi væri ógnað á neinn hátt. Ógnin sem Úkraínumenn standa frammi fyrir er bæði sönn og virk, því rússneski herinn er í augnablikinu á yfirráðasvæðum Úkraínu að valda skaða á fólki og menningu.
Ríki getur ýtt undir réttlætis- og/eða siðferðiskennd með áróðri sem hvetur til sóknar eða varnar. Í stríðinu á milli Rússlands og Úkraínu er sannleikurinn sérstaklega áberandi. Rússneskur áróður felst aðallega í því halda ranghugmyndum að almenningi og falsa fréttir til að réttlæta innrásina. Þess konar taktík er ekki óalgeng í stríðum. Réttar upplýsingar, sem erfitt er að afla á stríðstímum eru mjög verðmætar, því að þær segja almenning til um hver á sökina, hver ber ábyrgð og hvort réttilega var brugðist við. Slíkar upplýsingar eru svo þýðingarmiklar vegna þess að þær ná til okkar, sem erum langt frá átökunum en sem hafa áhrif á okkur þrátt fyrir það. Hneykslast er á atburðarásinni þegar skipst er á skoðunum við vini og ættingja og þegar fylgst er með átökunum. Einnig er samstaða sýnd opinberlega, t.d. með færslum á samfélagsmiðlum eða virkum stuðningi við flóttamenn. Flest hneigjumst við til þess að standa með Úkraínu því að það virðist hreinlega réttast. Úkraínumenn eru þolendur stríðsins, en Rússar gerendur – það er staðreynd sem engar útlistanir á ágreiningnum geta breytt.
Zuzanna Elvira Korpak, BA í heimspeki.