Vegur Úkraínu að NATO
Samband Úkraínu við Atlantshafsbandalagið hefur verið mjög umtalað að undanförnu. Úkraína sótti formlega um aðild að bandalaginu 30. september síðastliðinn en Rússar höfðu þá um árabil verið gagnrýnir á aukin umsvif NATO í Austur-Evrópu og höfðu bent á þau sem eina af ástæðunum fyrir innrás sinni í Úkraínu.
Í ljósi þess hve mikið hitamál er um að ræða er vert að líta yfir farinn veg og rifja upp hver samskipti Úkraínu við NATO hafa verið frá sjálfstæði ríkisins. Eftirfarandi er samantekt á samskiptum Úkraínu við Atlantshafsbandalagið frá tíunda áratugnum, hver þróunin hefur verið á þeim tíma og sér í lagi hverjar horfurnar voru á því að Úkraína gengi í NATO áður en innrásin hófst í febrúar 2022.
Saga samskipta Úkraínu við NATO
Úkraína tók upp samband við NATO stuttu eftir að ríkið hlaut sjálfstæði árið 1991. Næsta ár gekk Úkraína í Norður-Atlantshafssamvinnuráðið (NACC) og síðan í Friðarsamstarf Atlantshafsbandalagsins (Partnership for Peace) árið 1994. Vert er að nefna að Rússland varð aðili að Friðarsamstarfinu sama ár. Úkraína tók þátt í stofnun Evró-Atlantshafsráðsins, sem tók við af NACC árið 1997.
Árið 1997 skrifaði Úkraína jafnframt undir sérstakan samstarfssáttmála við NATO sem setti á fót NATO-Úkraínunefndina til að halda utan um frekara samstarf ríkisins við samtökin. Nefndinni var gert að funda minnst tvisvar á ári til að ræða málefni samningsaðila.
Leoníd Kútsjma, forseti Úkraínu frá 1994 til 2005, sagðist árið 1995 meðmæltur fyrirhugaðri stækkun NATO til austurs, sem varð úr með inngöngu tíu fyrrum austantjaldsríkja og sovétlýðvelda árin 1999 og 2004. Í stjórnartíð Kútsjma gerði Úkraína það um skeið að langtímamarkmiði sínu að stefna á aðild að NATO. Hins vegar kastaðist í kekki í samskiptum Kútsjma við Vesturlönd í kringum aldamótin, sem leiddi til þess að hann lét árið 2004 breyta varnarmálastefnu landsins svo aðeins væri minnst á „aukið samstarf“ við NATO sem langtímamarkmið fremur en aðild að bandalaginu.
Leoníd Kútsjma Úkraínuforseti ásamt Willy Claes, framkvæmdastjóra NATO, í Brussel árið 1995. Mynd úr myndasafni NATO.
Meiri alvara færðist í fyrirætlanir Úkraínu um NATO-aðild í stjórnartíð Víktors Júsjtsjenko, forseta landsins frá 2005 til 2010. Júsjtsjenko hafði verið kjörinn forseti í kjölfar appelsínugulu byltingarinnar svokölluðu árið 2004, sem meðal annars einkenndist af kröfum mótmælenda um aukin samskipti við vestrænar stofnanir eins og NATO og Evrópusambandið.
Júsjtsjenko sóttist árið 2006 eftir því að Úkraína hlyti stöðu í aðildaráætlun (e. Membership Action Plan) NATO en dró nokkuð í land eftir að Víktor Janúkovytsj, sem aðhylltist áframhaldandi náið samband Úkraínu við Rússland, vann þingmeirihluta og var kjörinn forsætisráðherra sama ár.
Ákveðinn vendipunktur varð í apríl árið 2008 á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Búkarest. Á fundinum tókst aðildarríkjunum ekki að komast að samkomulagi um að bjóða Úkraínu aðildaráætlun að NATO, einkum vegna einarðrar andstöðu Frakka og Þjóðverja, sem ekki vildu styggja Rússa. Engu að síður gáfu leiðtogar bandalagsins Úkraínu og Georgíu vilyrði í sameiginlegri yfirlýsingu um að ríkin tvö yrðu einhvern tímann aðildarríki að NATO og að farið yrði yfir aðildarferli þeirra að nýju í desember sama ár.
Vladímír Pútín og Sergej Lavrov voru gestir á leiðtogafundi NATO í Búkarest árið 2008 og mæltu þar gegn því að Úkraína og Georgía hlytu aðild að samtökunum. Mynd birt undir Creative Commons-leyfi.
Þegar utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna funduðu að nýju um málið í desember 2008 var komist að þeirri niðurstöðu að Úkraína og Georgía væru enn ekki tilbúin til að fá aðild að bandalaginu. Stuðningsyfirlýsingin frá leiðtogafundinum var áréttuð en engum tímaramma var bætt við og því bættist fátt haldbært við hana.
Vert er að nefna að George W. Bush Bandaríkjaforseti, sem var helsti stuðningsmaður þess að Úkraína og Georgía fengju aðild að NATO á leiðtogafundinum, átti á þessum tíma aðeins tæpt ár eftir á forsetastóli. Því var viðbúið að hann hefði fá frekari tækifæri til að fá vilja sínum um þetta mál framgengt. Í aðdraganda fundarins í desember 2008 virtist jafnvel stjórn Bush hafa dregið nokkuð í land með NATO-aðild ríkjanna tveggja og utanríkisráðherra Bush, Condoleezza Rice, sagði í aðdraganda hans að Úkraína væri „greinilega ekki tilbúin“ fyrir inngöngu í bandalagið.
Víktor Janúkovytsj var kjörinn forseti Úkraínu árið 2010 og í stjórnartíð hans voru fyrirætlanir landsins um aðild að NATO settar á ís. Stuttu eftir embættistöku sína lét Janúkovytsj leggja niður nefndina sem átti að undirbúa NATO-aðild Úkraínu og í júlí sama ár undirritaði hann lög þar sem Úkraína lýsti yfir hlutleysi og útilokaði aðild að hernaðarbandalögum.
Úkraína hélt áfram að halda herræfingar með NATO á stjórnarárum Janúkovytsj en möguleikinn á því að landið fengi aðild að bandalaginu varð ekki aftur raunhæfur fyrr en eftir að honum var steypt af stóli í byltingunni 2014. Í desember sama ár kaus úkraínska þingið að fella úr gildi hlutleysislögin frá 2014 og ríkisstjórnir Petro Porosjenko forseta gerðu NATO-aðild aftur að forgangsatriði í utanríkisstefnu landsins.
Petro Porosjenko Úkraínuforseti ásamt Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, árið 2017. Mynd af vefsíðu úkraínska forsetaembættisins.
Innlimun Rússlands á Krímskaga árið 2014 og upphaf stríðsins í Donbas sama ár olli óvissu um það hvort Úkraína gæti gengið í Atlantshafsbandalagið. Umdeilt er hvort reglur Atlantshafsbandalagsins heimila inngöngu ríkja sem eiga í yfirstandandi hernaðardeilum eða óútkljáðum deilum um landsvæði. Samkvæmt skýrslu undir titlinum „Rannsókn á stækkun NATO“ (e. Study on NATO Enlargement) frá árinu 1995 verða ríki sem eiga í landamæradeilum að útkljá þær á friðsamlegan máta samkvæmt meginreglum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Úrlausn slíkra deilna eigi að koma til skoðunar við ákvörðun á hvort ríkinu verði boðin aðild að NATO.
Skýrslan sem um ræðir er ekki bindandi samningur og stuðningsmenn NATO-aðildar Úkraínu og Georgíu hafa fært rök fyrir því að orðalag þessa ákvæðis feli ekki í sér fortakslaust bann við því að ríki sem eigi í óútkljáðum hernaðardeilum megi ganga í bandalagið. Engu að síður er ljóst að leiðtogar aðildarríkja NATO eru enn tvístígandi yfir hugmyndinni um að hleypa Úkraínu inn í bandalagið á meðan landið á í styrjöld. Sér í lagi er óttast að 5. gr. Atlantshafssáttmálans, sem kveður á um að árás á eitt aðildarríki NATO jafngildi árás á þau öll, myndi umsvifalaust draga öll aðildarríkin inn í bein átök við Rússland ef Úkraína hlyti aðild á meðan innrásin stendur enn yfir.
Sjálft stríðið við Rússa hefur þó haft mikil áhrif á stuðning við NATO innan Úkraínu. Í könnunum sem voru teknar fyrir árið 2014 mældist jafnan mun meiri andstaða en stuðningur meðal Úkraínumanna við inngöngu landsins í samtökin. Þetta hóf að breytast stuttu eftir innlimun Rússlands á Krímskaga árið 2014 og stuðningur við NATO-aðild hefur aukist jafnt og þétt síðan þá.
Á upphafsdögum innrásarinnar í Úkraínu sem hófst í febrúar 2022 sögðust Úkraínumenn viljugir til að gefa drauminn um NATO-aðild upp á bátinn til að ná fram friði. Eins og kom fram í fyrri grein höfundar um friðarviðræðurnar 2022 tókst ekki að ná fram friðarsamkomulagi á þessum grundvelli og síðan þá hefur Volodymyr Zelenskyj Úkraínuforseti lagt æ meiri áherslu á að leiða landið inn í NATO. Hann skilaði formlegri umsókn þess efnis til bandalagsins þann 30. september 2022.
Volodymyr Zelenskyj, ásamt Rúslan Stefantsjúk þingforseta og Denys Sjmyhal forsætisráðherra, með umsókn Úkraínu að Atlantshafsbandalaginu í september í fyrra. Mynd af vef úkraínska forsetaembættisins.
Úkraínumenn vonuðust til þess að fá formlegt boð um inngöngu í NATO á leiðtogafundi bandalagsins i Vilníus í júlímánuði 2023 en ekki varð úr því. Fallist var á að Úkraína myndi ekki þurfa að taka þátt í aðildaráætlun bandalagsins til að fá inngöngu en enginn tímarammi um aðild Úkraínu að NATO var settur. Í aðdraganda fundarins sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti að Úkraína væri enn ekki tilbúin fyrir aðild að NATO. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, lagði áherslu á að öll aðildarríki bandalagsins hefðu fallist á að Úkraína myndi einn daginn fá inngöngu, en ekki fyrr en eftir að stríðinu við Rússland lyki.
Þorgrímur Kári Snævarr, sagnfræðingur og laganemi.
Heimildir og ítarefni
- Grein Adrian Karatnycky í Foreign Policy 11. júlí 2023: The Long, Destructive Shadow of Obama’s Russia Doctrine.
- Bucharest Summit Declaration Issued by the Heads of State and Government participating in the meeting of the North Atlantic Council in Bucharest on 3 April 2008; birt 3. apríl 2008.
- Final communiqué: Meeting of the North Atlantic Council at the level of Foreign Ministers held at NATO Headquarters, Brussels, birt 3. desember 2008.
- Iryna Friz, grein birt 28. febrúar 2018: Is it possible to join NATO in a military conflict?
- Mark Temnycky, grein birt 9. maí 2022: NATO Membership Requests: Georia and Ukraine Should Not Be Forgotten.“
- NATO Expansion; birt 1. desember 2008.
- Relations with Ukraine; birt 2. júní 2023.
- Study on NATO Enlargement; birt 3. september 1995.
- Ukraine’s Struggle for Independence in Russia’s Shadow.
- Yanukovych signs law declaring Ukraine’s non-aligned status; birt 15. júlí 2010.