Mikill stuðningur í Eistlandi við Úkraínu
,,Í rússneskutímanum vorum við með kennara sem var rússneskumælandi Eisti, og hún var sífellt að tala um þetta, var að tala um flóttamenn frá Úkraínu og hvað var að gerast í stríðinu og hvað þetta væri hörmulegt. Þannig að þetta var stanslaust í hvaða tíma sem við vorum í, hvaða umræða sem var í gangi, þá var þetta alltaf í bakgrunninum,“ segir Matthildur Lillý Valdimarsdóttir, BA nemi í rússnesku. Matthildur Lillý og Agnar Óli Snorrason eru nýkomin heim frá Eistlandi þar sem þau dvöldu síðastliðinn vetur við nám á þriðja ári í rússnesku. Í hlaðvarpinu ræða þau um nám sitt og veruna í Eistlandi, viðhorf Eista til stríðsins og stuðning Eystrasaltsþjóðanna við Úkraínu. Hægt er að hlusta á viðtalið við Agnar og Matthildi Lillý hér.
Agnar og Matthildur Lillý munu taka þátt í Úkraínuverkefninu í sumar og munu reglulega birta greinar á vef verkefnisins og samfélagsmiðlum. Grein Matthildar Lillýar, Eystrasaltslöndin og stríðið í Úkraínu má lesa hér og grein Agnars, Hlutverk Tsjetsjeníu í stríðinu, má lesa hér. Í hlaðvarpinu segja þau frá efni greinanna og öðrum rannsóknarviðfangsefnum sem þau munu sinna fyrir Úkraínuverkefnið í sumar.
Úkraínuhlaðvarpið verður með vikulega þætti í sumar. Nýir þættir munu birtast á Spotify sem og vef og samfélagsmiðlum Úkraínuverkefnisins á hverjum föstudegi.